Merkilega létt að léttast um 20 kg

Svavar Halldórsson og eiginkona hans Þóra Arnórsdóttir. Myndin var tekin …
Svavar Halldórsson og eiginkona hans Þóra Arnórsdóttir. Myndin var tekin í febrúar 2015. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er mikill matmaður og sælkeri, hef áhuga á mat og matarmenningu og viðurkenni að ég er eiginlega krónískt svangur. Þar með átti ég til að borða aðeins meira en ég þarf og ekki alltaf nógu hollt heldur, þótt ég sé alls enginn sælgætisgrís. Það er frekar kex og alls kyns sætabrauð sem passar vel með mjólk sem freistar mín. 17. maí steig ég á vigtina eftir sund í Suðurbæjarlauginni og hún sýndi 107,3 kíló. Mér fannst það helst til mikið, því ég hafði líka átt í dálitlum vandræðum með góðan og reglulegan svefn um veturinn. Þá ákvað ég að ganga í málið og setti mér það markmið að vera kominn niður í 86 kíló um jólin. Það er samt rétt að taka fram að fyrir mér snýst þetta ekki bara um þyngd, heldur heilsu og heilbrigði,“ segir Svavar Halldórsson, framkvæmdastjóri Landssambands sauðfjárbænda og fyrrverandi fréttamaður.

Svavar Halldórsson er orðinn 87 kg og búinn að létta …
Svavar Halldórsson er orðinn 87 kg og búinn að létta sig um 20 kg síðan í vor.

Hann segist vera að læra meira og meira um mat og hefur upp á síðkastið verið að afla sér nýrrar þekkingar um hvernig matur er framleiddur. 

„Eitt af því sem maður gerir sér smátt og smátt grein fyrir er að margt af því sem fólk lætur ofan í sig er hvorki hreint né hollt og gæti beinlínis verið hættulegt. Þótt hormónar og vaxtahvetjandi lyf séu bönnuð í íslenskum landbúnaði á það ekki við alls staðar. Það er nánast samasemmerki á milli verðsins og efnanna sem dælt er í skepnurnar úti í heimi. Ódýra kjötið sem er flutt hingað til lands er hvorki hollasta eða hreinasta vara í heimi. Svo ekki sé nú minnst á eiturefnin sem eru oft notuð við framleiðslu á erfðabreyttu korni og ýmsu öðru sem endar oft í pakkavörum. Ég held að það hljóti að koma niður á manni til lengri tíma að borða svoleiðis. Svo hefur auðvitað komið í ljós að það var hvíti sykurinn sem var aðalóvinurinn en ekki dýrafitan. Það voru líka svoleiðis pælingar sem ýttu við mér. Ég ákvað því að breyta til og hugsa betur um líkamann. Lykilorðin eru hreinleiki, hollusta, hreyfing og heilbrigð skynsemi,“ segir hann. 

Þegar ég spyr Svavar að því hvort hann hafi þyngst jafnt og þétt segist hann alltaf sveiflast býsna mikið hvað þyngdina varðar. 

Þessi mynd var tekin af Svavari í vor.
Þessi mynd var tekin af Svavari í vor.

„Ég hef alltaf sveiflast í þyngd. Er fljótur að bæta á mig en get líka verið fljótur að ná því af mér aftur. Þetta gerðist bara jafnt og þétt, held ég. Ég var á kafi í nýrri vinnu sem krafðist allrar minnar athygli og orku og ég held að ég hafi bara gleymt mér. Í vor skoðaði ég vandlega eigin hegðun og samband mitt við mat. Komst að þeirri niðurstöðu að pakki af Homeblest og mjólkurlítri á miðnætti er bara ekki málið,“ segir hann

Það eru margir í þeim sporum að þurfa að létta sig um 20 kg. Hvað gerðir þú nákvæmlega til að létta þig um þessi 20 kg?

„Þetta snýst fyrst og fremst um hugarfar og þekkingu. Ég ákvað að reyna að forðast eftir fremsta megni viðbættan sykur, erfðabreyttan mat og allt sem er framleitt með eitri, vaxtahvetjandi lyfjum, hormónum og snefilefnum. Auk þess passaði ég svefninn, gætti hófs í magni og passaði upp á að hreyfa mig. Ég borða hafra á morgnana, léttan hádegisverð og góðan kvöldverð. Fæ mér alltaf bara einu sinni á diskinn, þótt mig langi kannski í meira. Ekkert kex eða sætabrauð síðdegis. Ein mikilvægasta reglan er svo að borða ekkert eftir kvöldmat, aldrei. Hvorki hollt né óhollt, bara ekki neitt. Ef mig langar í kvöldsnarl fer ég bara snemma í háttinn. Núna reyni ég að borða bara mat sem ég get verið nokkurn veginn viss um að sé hreinn. Það getur reyndar verið nokkuð flókið. En samt er hellingur sem fellur þar undir; allt íslenskt grænmeti, folaldakjöt, lambakjöt og fiskur svo eitthvað sé nefnt. Ef varan er innflutt og ég veit ekki hvaðan hún kemur reyni ég frekar að velja lífrænt. Með þessu hef ég verið að léttast um þetta eitt til tvö kíló á viku, hraðast til að byrja með,“ segir Svavar. 

Var það eitthvað fleira en kex sem fór út úr mataræðinu?

„Ég fylgi engum sérstökum kúr nema mínum eigin. Ég hreinsaði bara til í mataræðinu. Flóknara er það nú ekki. Þess vegna segi ég stundum að leyndarmálið sé hreinn og hollur íslenskur matur. Þetta er sem sagt minn eigin íslenski kúr. En svo maður sé nú alveg sanngjarn þá eru ávextir og lífrænt vottaðar vörur af öllu tagi á borðinu líka, jafnvel þótt þær séu innfluttar. En þetta getur verið mjög erfitt að því leyti að merkingum er mjög víða ábótavant. Af hverju eru upplýsingar um upprunaland stundum með 5 punkta letri á umbúðum í verslunum? Af hverju er ekki skylda að greina frá uppruna matarins í mötuneytum og á veitingastöðum? Mér finnst að það sé réttur neytenda að fá góðar og réttar upplýsingar og það eigi ekki að líða neinn afslátt á því.“

Þegar Svavar er spurður að því hvernig honum leið í sumar segir hann að lífsstílsbreytingin hafi verið merkilega létt. 

„Mér fannst í rauninni merkilega lítið erfitt að taka þetta skref og mér líður mjög vel. Nú borða ég auðvitað lambakjöt, fisk, grænmeti, ávexti, hreint skyr og alls kyns góðgæti. Líka brauð sem ég veit að er úr réttum hráefnum og hamborgara sem uppfylla þessi skilyrði. Hið frábæra við þetta er að mér líður miklu betur, er léttari á fæti og finn vel fyrir auknu hreysti og heilbrigði.“

Þegar lífsstílsbreyting Svavars byrjaði setti hann sér markmið að reyna að hreyfa sig daglega. 

„Flesta daga fer ég í sund og syndi 500 metra. Stöku sinnum hleyp ég svona þrjá kílómetra eða geng rösklega eða hjóla í svona hálftíma. En bara eitt af þessu á dag. Grundvallaratriði hjá mér er að hafa þetta hóflegt en koma því inn í daglega rútínu. Ég er ekki á leiðinni í maraþon. Svo geri ég æfingar heima með krökkunum, nota Ásdísi Huldu, yngstu dóttur okkar, sem lóð. Hún er einmitt rétt um tuttugu kíló, svo ég er búinn að létta mig um eitt stykki hana.“

Hvernig tók fjölskyldan þessu öllu saman?

„Fjölskyldan mín hefur tekið þessu öllu saman vel. Ég ætlast samt ekki til að þau fylgi mér alla leið. Krakkarnir mega alveg borða Seríós á morgnana og stelast í bananabrauðið hennar Þóru á kvöldin. Þau fá popp um helgar og kannski smá sælgæti. Við höfum aldrei drukkið gos, svo það þurfti ekki einu sinni að ræða það. Ég held að þau hafi kannski verið hissa á hvað ég var grjótharður að gera engar undantekningar, ekki einu sinni þegar allir fóru gólandi svangir í ísbúð eftir þriggja tíma fjölskyldusundferð. Svo er nú yfirleitt góður kvöldmatur (það er ekki að marka þessa einu mynd af gubbugrænum sjeik sem Þóra setti á Facebook, það var undantekning!) Við borðum mikið grænmeti, fisk eða lamb og allir eru kátir. Þau kunna sem betur fer að meta góðan mat.

En ég er samt hugsi yfir því hvað við bjóðum stundum börnunum okkar upp á. Ég hallast að því að hluti þess að vera gott foreldri felist í því að gefa börnunum sínum hollustu, halda frá þeim mat sem jafnvel gæti innhaldið eitur og reyna að lágmarka viðbætta sykurinn sem þau fá. Ég held að innan nokkurra ára verði það álitið jafngalið að gefa börnunum viðbættan hvítan sykur, kjöt sem er fullt af hormónum og vaxtahvetjandi lyfjum, erfðabreytt korn og grænmeti sem er fullt af eitri eins og að gefa þeim tóbak. Þetta er auðvitað bara mín skoðun en við skulum tala aftur saman eftir tíu ár.“

Ertu búinn að ná markmiðum þínum?

„Stóra markmiðið mitt er að hreyfa mig daglega og borða heilnæman mat. Því ætla ég að halda áfram. Upphaflega markmiðið var að fara niður í 86 kíló fyrir jól en ég er þegar kominn niður í 87. Þegar því er náð er auðvitað markmið út af fyrir sig að halda sig þar. Ég er á leið með öll allt of stóru fötin í Rauða krossinn, því ég hef ekki hugsað mér að passa nokkurn tímann í þau aftur. Hnipptu í mig ef þú sérð einhvern tímann að tölurnar eru farnar að springa af skyrtunum hjá mér…“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál