Fólk endurmetur lífið eftir krabbamein

Gunnar Bjarni Ragnarsson yfirlæknir á krabbameinsdeild Landspítalans,
Gunnar Bjarni Ragnarsson yfirlæknir á krabbameinsdeild Landspítalans, mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Gunnar Bjarni Ragnarsson yfirlæknir á Krabbameinsdeild Landspítalans þekkir það að af eigin raun að ganga í gegnum veikindi eins og krabbamein. Sjálfur fékk hann heilakrabbamein í fyrra og segist hafa endurmetið lífið í framhaldi af því. Hann segir að það skipti fólk mestu máli að hugsa vel um heilsuna með því að vera duglegt að hreyfa sig og umgangast heimsins lystisemdir af hófsemi, en umfram allt njóta þess að vera til.

Á öðru eða þriðja ári fór ég á krabbameinsdeild, en það var hluti af mínu námi. Þá kynntu fagið fyrir mér t.d. Sigurður Árnason og Helgi Sigurðsson, sem er núverandi prófessor í krabbameinslækningum og samstarfsmaður. Ég kynntist svo faginu enn betur þegar ég starfaði á Borgarspítala sem kandídat og deildarlæknir undir handleiðslu Sigurðar Björnssonar og Friðbjarnar Sigurðssonar sem ég starfaði svo seinna með sem sérfræðingur. Báðir menn sem hafa áorkað ótrúlega miklu á sínum ferli. Þá kynntist ég þeim þætti starfsins sem felst í því að maður kynnist sjúklingum og fjölskyldum þeirra vel, fylgir þeim í gegnum tíma í lífi þeirra sem getur bæði einkennst af gleði og sorg. Það sem einkennir gjarnan þá sem greinast með krabbamein er að þeir fá skýrari sýn á það sem skiptir mestu máli í lífinu, það er að njóta stundarinnar með fjölskyldu og vinum í sátt við sjálfan sig og aðra og hvað efnisleg gæði eru í raun ómerkileg þegar á hólminn er komið. Þeir sem ná sér vel eftir greiningu og meðferð tala oft um endurfæðingu. Ég kynntist því svo sjálfur eftir að ég greindist með heilakrabbamein fyrir ári og var svo heppinn að skurðaðgerð og krabbameinslyfjameðferð var mjög árangursrík. Mér fannst ég koma tvíefldur til leiks eftir veikindafrí og fá skýrari sýn á lífið og hvað ég vildi áorka í lífinu,“ segir Gunnar Bjarni.

Þegar Gunnar Bjarni var í námi kynntist hann vísindaþætti fagsins þegar hann vann rannsóknarverkefni sem fólst í því að kanna tengsl krabbameins og ónæmiskerfisins undir leiðsögn brautryðjendanna Helgu Ögmundsdóttur og Þórunnar Rafnar.

„Þetta vatt upp á sig og varð að meistaranámi við læknadeild og í sérnámi mínu í Bandaríkjunum varð mitt sérsvið hvernig virkja á ónæmiskerfið til að meðhöndla krabbamein. Það er einmitt einn af vaxtarbroddunum í meðhöndlun krabbameina í dag og ég tel að það geti á næstu árum eða áratugum breytt krabbameini sem var áður ólæknandi í langvinnan sjúkdóm sem er haldið í skefjum með réttri meðferð. Sú meðferð er þó gríðarlega dýr og verður áskorun að geta tekið hana upp á Íslandi, alveg eins og í þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ segir hann.

Gunnar Bjarni þekkir það af eigin raun að fá krabbamein.
Gunnar Bjarni þekkir það af eigin raun að fá krabbamein. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Krabbamein er mögulega sá sjúkdómur sem flestir óttast hvað mest að fá. Er eitthvað sem hægt er að gera til að forðast krabbamein fyrir utan að sleppa reykingum?

„Það er alveg rétt að margir fá krabbamein vegna tóbaksreykinga og ber að sleppa þeim, aldrei að byrja er aðalatriðið. Ég óttast líka að rafrettureykingar geti verið falinn skaðvaldur og eftir ár eða áratugi geti skaðlegar afleiðingar þeirra komið í ljós. Svipað og með tóbaksreykingar; í upphafi voru þær markaðssettar sem eitthvað svalt og skaðlaust, jafnvel hollt, en það tók marga áratugi að sýna fram á skaðsemi þeirra. Ég óttast að svipað verði með rafretturnar og að margir muni byrja að reykja vegna þess að þeir byrji á rafrettunum og leiðist svo út í tóbaksreykingar. Rannsóknir hafa sýnt það, svipað á við um annað tóbak sem er ekki reykt. Ég ráðlegg því öllum að láta tóbakið vera, í hvaða formi sem það er, svo og að láta ekki glepjast að meintu skaðleysi rafrettunnar. Annað sem hefur sýnt að geti minnkað tíðni ákveðinna algengra krabbameina er regluleg líkamsþjálfun, og því ráðlegg ég öllum að hreyfa sig reglulega, þó ekki væri nema vegna þess að það bætir bæði líkamlega og andlega líðan. Ekkert sérstakt mataræði hefur sýnt sig að fyrirbyggi krabbamein svo ég ráðlegg fólki að borða fjölbreyttan og hollan mat í takt við ráðleggingar manneldisráðs sem má finna á heimasíðu landlæknis og svo má fræðast meira um mataræði og krabbamein á vefsíðunni heilsan okkar. Aðalmálið er þó að borða hollt og fjölbreytt og lítinn unninn mat, forðast allar öfgar, það er miklu einfaldara og „dreifir“ áhættunni. Einnig ber að neyta áfengis í hófi því vel þekkt er að ofneysla áfengis geti stuðlað að myndun ákveðinna krabbameina. Líka er vel þekkt að mikil sól getur valdið húðkrabbameinum og því er rétt að stunda sólböð í hófi, fara aldrei á ljósabekki og nota sólarvarnir.

Í stuttu máli er hreyfing, hollt og fjölbreytt mataræði, að reykja ekki, fara varlega í sólinni og neyta áfengis í hófi það mikilvægasta sem fólk getur gert til að minnka líkur á að fá krabbamein. Ef þessu er fylgt má líka forðast marga af þeim lífsstílssjúkdómum sem eru farnir að herja á okkur. Síðan má minna á það að sólböð og reykingar valda öldrun húðar og því að hrukkur myndast fyrr. Að fylgja þessu getur ekki aðeins lengt lífið í árum heldur verða líka lífsgæðin meiri,“ segir hann.

Viðtalið við Gunnar Bjarna Ragnarsson birtist í Heilsublaði Morgunblaðsins. Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni HÉR. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál