Pínu ofvirk og verður að hreyfa sig

Brynhildur Guðjónsdóttir hefur gaman að því að hjóla og á …
Brynhildur Guðjónsdóttir hefur gaman að því að hjóla og á bæði racer- og fjallahjól. Ljósmyndari / Ásdís Ásgeirsdóttir

Á sumrin leggjast margir í leti og borða yfir sig af kræsingum. Þar af leiðandi fyllast líkamsræktarstöðvarnar gjarnan á haustin, enda fjölmargir sem eru þjakaðir af samviskubiti eftir að hafa gert vel við sig allt sumarið. Smartland fór því á stúfana, enda forvitnilegt að vita hvað landinn gerir til að halda sér í formi.

Leikkonan Brynhildur Guðjónsdóttir sat fyrir svörum, en þrátt fyrir að vinnan sjái að mestu um að halda henni í formi finnst henni gaman að hjóla og ganga. Hún vílar heldur ekki fyrir sér að príla upp á þak, svona ef henni leiðist.

Hvað gerir þú til að halda þér í formi?

„Ég hreyfi mig og borða mjög takmarkað af drasli.“

Færð þú spark í rassinn á haustin og drífur þig í leikfimi?

„Þetta er pínu öfugsnúið hjá mér, á sumrin næ ég mér í dýrmæt kíló og góðar olíur í kroppinn sem svo hverfa stuttu eftir að leikárið hefst. Það liggur í hlutarins eðli – ég hamast frá 19 til 23 flest kvöld vikunnar frá september og fram í júní. Það hverfur bara allt.“

Hvaða leikfimi stundar þú?

„Ég hjóla, á bæði racer- og fjallahjól, og ég elska að ganga. Aðra leikfimi stunda ég í raun ekki en ég er pínu ofvirk og verð að hreyfa mig. Um daginn leiddist mér og þá fór ég upp á þak og málaði strompinn. Ætli vinnan sé samt ekki mín aðalleikfimi, Mamma Mia! og Njála í Borgarleikhúsinu þennan veturinn sem og í fyrra.“

Hvað færðu út úr hreyfingu?

„Allt! Líkamlega og andlega útrás en fyrst og fremst hugarró, frið til að hugsa, nú eða hugsa ekki.“

Hugsar þú vel um mataræðið?

„Já, ég held ég sé mjög meðvituð um hvað ég læt ofan í mig. Ég borða ekkert sem lætur mér  líða illa og alls ekkert sem mér finnst vont. Ég borða ekki reyktan mat, ekki saltan (saltfiskur ekki meðtalinn, hann er GÓÐUR). Ég drekk ekki gos, þoli ekki mikinn sykur, ekki mikið hvítt hveiti, ekki skinku eða beikon. Og mér finnst ís vondur. Nema Vesturbæjarís – sá gamli.“

Hvað borðar þú til að láta þér líða betur?

„Mér líður mun betur ef ég borða góðan geitaost, ferskar fíkjur, andalæri, lifur, naut og bernaise, krækling, tómatana frá Frú Laugu, jarðarber og lífrænt súkkulaði. Já og svo er ég öll önnur ef ég fæ eitt kampavínsglas með.“

Ertu með einhverja ósiði sem þú þarft að venja þig af?

„Já, ég borga reikninga oft fyrir gjalddaga. Það er náttúrulega fáránlegt. Af hverju er ég að því? Ég tannbursta mig of fast. Það er ekki gott. Og svo hangi ég á fasteignavefnum. Það er nú bara einhver veiki held ég.“

Hvað kemur þér í gott skap?

„Samverustundir með góðum vinum. Mínir dásamlegu vinnufélagar í leikhúsinu. Hlýir sumardagar. Falleg haustkvöld. Góður matur og vín. Leikhús, tónlist og bækur sem opna nýja heima. Allar kisur og sumir hundar. Fyrst og fremst er það þó Rafnhildur Rósa dóttir mín og hennar gleði og sigrar. Það er magnað að fylgjast með henni og vinum hennar – þetta er gott og réttsýnt fólk sem ég hlakka til að láta hugsa um mig í ellinni.“

Brynhildur elskar að ganga. Hér er hún að skottast um …
Brynhildur elskar að ganga. Hér er hún að skottast um í Miklagljúfri. Ljósmyndari / Rafnhildur Rósa Atladóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál