Heldur sjúkdómseinkennum niðri með polefitness

Lára Björk tók lífsstílinn í gegn þegar hún greindist með …
Lára Björk tók lífsstílinn í gegn þegar hún greindist með MS. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hin 23 ára Lára Björk Bender stundar polefitness af kappi og heldur sér í formi með þessari krefjandi íþrótt. Það verður að teljast sérstakt í ljósi þess að árið 2012 lamaðist hún í vinstri hlið líkamans og var í kjölfarið greind með MS en árið áður hafði hún verið ranglega greind með Bell‘s Palsy eða andlitstaugalömun. Í dag kennir Lára polefitness tvisvar í viku og æfir sjálf a.m.k. tvisvar í viku ásamt því að starfa á þjónustusviði Orkuveitu Reykjavíkur.

„Ég greindist formlega í apríl 2012 en sjúkdómurinn hafði látið á sér kræla löngu áður. Sem dæmi má nefna að ég lenti í óhugnanlegu atviki árið 2010, þá sat ég í tíma og fann hvernig hægri hlið andlitsins lak hægt og rólega niður þar til ég lamaðist að fullu, ég gat ekki brosað nema með hálfu andlitinu og átti erfitt með að halda auganu opnu. Þetta gekk til baka á nokkrum mánuðum en ég var þá ranglega greind með Bell‘s Palsy. Þess má geta að ég fann einnig fyrir dofaeinkennum í hægri fæti en það var ekkert tekið tillit til þess við greininguna,“ útskýrir Lára. Í lok nóvember árið 2011 lenti Lára í árekstri sem ýtti undir sjúkdómseinkennin. „Þá fékk ég sjóntaugabólgu sem olli því að ég var rúmliggjandi í nokkra daga, ég var með stöðugan svima og brenglaða sjón. Þau einkenni gengu þó yfir á rúmum þremur vikum.“ Það var svo eitt örlagaríkt kvöld í apríl árið 2012 sem Lára fékk sársaukafullan höfuðverk. Hún svaf illa um nóttina og um morguninn vaknaði hún dofin í vinstri handlegg og fótlegg. „Ég byrjaði á því að nudda þessa útlimi til að koma blóðflæðinu af stað og ákvað svo að skella mér í bað til að slaka á vöðvunum í von um að það hjálpaði. Á leið inn á bað tók ég eftir því hve erfiðlega mér gekk að labba. Fóturinn gaf undan í hverju skrefi, allt hringsnerist í kringum mig. Þegar leið á daginn fóru þessi dofaeinkenni stigvaxandi. Hægt og rólega fann ég fyrir þessum dofa í allri vinstri hliðinni þar til ég fann ekkert fyrir snertingu.“ Systir Láru fór þá með hana upp á bráðamóttöku og þar var Lára sett í alls kyns rannsóknir, meðal annars segulómun (MRI). Svo fékk hún viðtalstíma hjá taugasérfræðingi. „Í viðtalinu fékk ég þær upplýsingar að ég hefði verið ranglega greind með Bell‘s Palsy og að læknar hefðu átt að hafa samband við mig fyrr vegna bólgubletta sem sáust þá í heilanum. Samkvæmt nýjustu MRI-myndum komu í ljós 25 virkir bólgublettir í heila sem ollu þessum lömunareinkennum. Niðurstaðan í þessu viðtali var að ég væri með ólæknandi bólgusjúkdóm í heila og mænu. Þetta var mikið áfall og vissi ég hreinlega ekki hvernig ég ætti að taka slíkum fregnum en ég harkaði af mér og hélt áfram að dimmitera eftir viðtalið,“ segir Lára, sem var að dimmitera frá Borgarholtsskóla sama dag. Nokkrum dögum síðar fékk hún svo endanlegar niðurstöður þar sem hún fékk staðfest að um MS væri að ræða. „Í sjálfu sér var þessi greining léttir þar sem ég var búin að ímynda mér svo miklu verra eftir fyrsta viðtalið. Í seinni tímanum fékk ég upplýsingar um hvaða lyf væri notað við sjúkdómnum og hvað ég gæti gert til að halda einkennum í skefjum en það var einfaldlega að breyta um lífsstíl, hreyfa mig reglulega og borða vel og fjölbreytt,“ segir Lára, sem fór á fullt í polefitness.

Var í nokkra mánuði að jafna sig á áfallinu

Lára segir greininguna vissulega hafa verið mikið áfall þó að henni hafi verið létt að vissu leyti. „Ég tók nokkra mánuði í að jafna mig á þessu áfalli og ná mér upp úr þunglyndinu sem ég féll í við þessar fregnir. Með frábærum stuðningi fjölskyldu og vina komst ég í gegnum þetta og ákvað að taka þessu sem áskorun, það geri ég enn í dag. Það tók mig líkamlega rúma fjóra mánuði að fá alla tilfinningu til baka en hins vegar sat eftir smá málhelti, lítill styrkur í útlimum, mikil þreyta og höfuðverkir. Ég byrjaði að sjálfsögðu hægt og rólega, ein gönguferð á dag með hundinn, ég jók svo við hreyfinguna smám saman ásamt því að fylgja mataræðinu betur eftir og fljótlega fann ég hvernig styrkurinn varð meiri. Andlega tók þetta mig lengri tíma þar sem ég var minnt á þessa greiningu á hverjum degi en eftir um ár var ég farin að sætta mig við sjúkdóminn.“ Eins og áður sagði fékk Lára þær upplýsingar að nú þyrfti hún að taka upp heilsusamlegan lífsstíl og hreyfa sig reglulega. En af hverju valdi hún að fara að stunda polefitness af kappi? „Fyrir greiningu hafði ég prufað tvö námskeið í polefitness eftir að systir mín dró mig í prufutíma. Eríal Pole var síðan opnað í október 2014 og síðan þá hef ég æft þar af fullum krafti,“ segir Lára, sem æfir og kennir í Eríal Pole. Lára segir íþróttina vera skemmtilega og fallega. „Á sama tíma er hún líka krefjandi hvað varðar styrk, þol, jafnvægi og liðleika. Þetta er allt það sem ég vil fá út úr hreyfingu.“

Lára Björk heldur sér í formi með polefitness.
Lára Björk heldur sér í formi með polefitness. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Fyrst til að byrja með fann ég fyrir smávægilegum fordómum“ 

Lára segir polefitness vera fyrir alla og hún hvetur áhugasama að koma og prófa. „Polefitness-samfélagið er töluvert stærra en margir gera sér grein fyrir. Það er ekki til nein afsökun fyrir því að koma ekki og prófa. Á heimsmeistarakeppninni er keppt í flokkum frá 10 ára og upp í 50+ en þar eru meðal annars einstaklingar yfir 60 ára, ef ekki 70 ára, sem taka þátt. Einstaklingar koma annaðhvort með einhvern íþróttagrunn eða engan og í öllum stærðum og gerðum. Sem dæmi má nefna Natöshu Wang, sem hóf að æfa polefitness rúmlega þrítug. Hún var ekki með neinn bakgrunn í íþróttinni en á fimm árum hafði hún hreppt þó nokkra titla og orðið Bandaríkjameistari,“ segir Lára. „Allir þeir einstaklingar sem ég hef fengið til mín í prufutíma hafa orð á því hve skemmtilegt polefitness er og mun erfiðara en þeir hefðu ímyndað sér.“ Lára segir sumt fólk tengja polefitness við súludans sem fyrirfinnst á nektarstöðum en hlutirnir séu þó að breytast. „Til að byrja með fann ég fyrir smávægilegum fordómum en í dag er borin mikil virðing fyrir sportinu. Einnig er unnið hart að því að koma þessari grein á virta íþróttaviðburði svo sem Ólympíuleikana enda er íþróttin m.a. samblanda af dansi og fimleikum. Íþróttin þróast út frá súludansi og í dag blandast hún m.a. við parkour, chinese pole (algengt í sirkusum) og mallakhamb. Þá síðastnefndu má rekja aftur um a.m.k. 800 ár í sögu Indlands og er hún stunduð á mjög breiðri viðarsúlu og snýr að mestu að þoli og styrk. Að sjálfsögðu hafa allir sinn stíl og auðvitað eru margir sem hrífast af kynþokkafullum dansi og það er bara gaman, því meiri fjölbreytni því betra.“ Það fólk sem stundar polefitness er fáklætt á súlunni, en spurð út í klæðnaðinn segir Lára þetta allt snúast um grip. „Ég finn fyrir örlitlum fordómum vegna klæðnaðarins. Margir gera sér einfaldlega ekki grein fyrir því hvers vegna við erum eingöngu í stuttum stuttbuxum og íþróttatoppum en eftir að ég hef útskýrt ástæðuna virðast fordómarnir hverfa. Ástæðan er einföld, en hún er grip. Í þessari íþrótt leikur húðin stórt hlutverk. Hana notum við til að halda okkur uppi í ótrúlegustu stöðum og stellingum. Ef gripið er ekki til staðar, til dæmis ef æft er í síðum íþróttabuxum, er nær ómögulegt að gera almennileg trikk á hvolfi, svo sem að hanga á hnésbótinni einni saman,“ útskýrir Lára.

Líður vel og er bjartsýn 

Í dag líður Láru vel enda hefur henni tekist vel að taka lífsstílinn í gegn síðan hún greindist með MS. „Síðan ég greindist hef ég farið í árlegt eftirlit og í lok 2014 hafði allt gengið frábærlega en virkar bólgur (skellur) höfðu þá farið úr 25 í litlar þrjár. Það var þó í desember í fyrra sem ég fór í eftirlit en haustið þar á undan hafði ég fundið meira fyrir einkennum en áður svo sem dofa í höfði, andliti og vinstri hendi, þó ekki nema þrjár vikur í senn. Til viðbótar höfðu lyfjaeinkennin versnað mikið. Í ljós kom að bólgum hafði fjölgað upp í tíu og því var ég sett á nýtt lyf í janúar á þessu ári. Í dag eru bólgurnar enn tíu, þó ekki þær sömu, en ég er einkennalaus sem er heldur sérstakt miðað við fjölda skellna. Ég trúi því að ég sé búin að byggja líkamann það vel upp í dag að einkennin verði töluvert vægari, ef einhver, þegar bólgur eru til staðar,“ útskýrir Lára, sem er bjartsýn á framtíðina.

Lára Björk Bender.
Lára Björk Bender. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál