Var einu sinni 10 kg þyngri

Brynhildur Aðalsteinsdóttir.
Brynhildur Aðalsteinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sú vísa verður víst ekki of oft kveðin. Mataræðið er auðvitað lykilþátturinn í þessum pakka. Ég held að þetta viti flestir og fátt nýtt undir sólinni í þeim efnum. Hvaða leið á hins vegar að fara í mataræðinu er svo aftur önnur saga og ætla ég í þessum pistli að stikla á stóru um mitt mataræði núna. Ég bý náttúrulega svo vel að hafa sérfræðing sem fer yfir matardagbókina mína og gerir athugasemdir þar sem þörf er. Mataræðið mitt hefur verið allt í lagi síðustu ár og ekki mín veikasta hlið þótt auðvitað megi alltaf gera betur en það er þó ómetanlegt að hafa einhvern til að hamra á góðum upplýsingum og þekkingu. Það er einfaldlega styrkur í því að fá leiðbeiningar, athugasemdir og pepp, þó að maður þekki meginreglurnar,“ segir Brynhildur Aðalsteinsdóttir sem tekur þátt í Lífsstílsbreytingu Smartlands og Sporthússins í sínum nýjasta pistli: 

Ég hef alltaf verið þessi „allt er gott í hófi“ týpa og boð og bönn henta mér ekki til frambúðar. Í gegnum tíðina hef ég neitað mér um fátt. Fyrir sjö árum, þegar ég var um 10 kg þyngri var ég djúpt sokkin í skyndibita, þ.e. óhollan skyndibita, franskar, kokteilsósu og hvaðeina. Ég hikaði ekki við að fá mér slíkan mat, jafnvel oft í viku og gaf því engan gaum. Eftir hin umræddu 10 kg leyfi mér pizzu með pepp og auka osti einfaldlega sjaldnar og borða þá kannski bara tvær sneiðar í stað hálfrar pizzu. Þetta er ekki flókið en kannski ekki alltaf auðvelt. En það sem ég er svo sem að reyna að segja er að ég hef borðað ágætlega, ekki fullkomlega, og ég hef ekki hugsað mér að ráðast í meiri háttar breytingar á því, a.m.k. ekki svona allt í einu. Mín trú er sú að ef ég ætla að láta þetta ganga til frambúðar, þá er æskilegast að hafa skrefin frekar smá, tíðari og öruggari. Til upplýsinga ætla ég að rekja hinn týpíska dag en það er auðvitað ekkert algilt í þessu. Helgarnar eru svolítið erfiðari og maður tekur auðvitað hliðarspor eins og eðlilegt er, en þetta er svona í meginatriðum:

Í morgunmat hef ég yfirleitt borðað tvö egg. Síðustu misserin hef ég soðið þau en ég hef líka steikt þau með grænmeti og smá ost í gegnum tíðina þegar ég er í stuði. Aðra daga og aðeins sjaldnar fæ ég mér bara Cherrios með rúsínum og mjólk. Síðustu fimm vikur hef ég haldið mig við þetta. Lilja segir að ég geti bætt við mig næringu, hafragraut og þess háttar, sérstaklega þegar ég borða bara tvö soðin egg, og ég mun e.t.v. gera það á næstunni. Eins og staðan er núna er þetta handhægt og fljótlegt sem er mikilvægt þegar maður er að koma tveimur skottum í skólann. Ég óska þess stundum að ég væri boozt týpan, með berin, chia fræin, spínatið og hvað það er sem fólk er að setja í þessi boozt, en ég er það einfaldlega ekki. Booztgerð vex mér óskaplega í augum og ég ætla ekki að flækja þetta í bili.

Síðan er það millimálið. Ég fæ mér ekki alltaf millimál fyrri partinn enda borða ég alltaf hádegismatinn frekar snemma og Lilja hefur nú spurt hvort ég geti seinkað honum eitthvað. Stutta svarið er nei eins og sakir standa. Ef ég fæ mér millimál hér, þ.e. um 10 leytið, þá er það yfirleitt hrökkkex með hummus eða ávöxtur. Aftur óska ég þess að ég væri týpan sem útbý mitt eigið súper hreina og holla hrökkkex, með ógrynni af fræjum og höfrum og hakka saman kjúklingabaunir með hinum ýmsu hráefnum. En nei...ég er ekki þar enn þá svo ég reyni bara að velja hollasta kostinn í búðinni.

Hádegið, sem hefst hjá mér 11:30, er aðalmáltíð dagsins. Þá skokka ég upp í mötuneyti og fæ mér það sem þar er á boðstólnum. Ég lít á aðgang að góðu mötuneyti sem forréttindi og því miður eru ekki allir svo heppnir. Það var í raun fyrst þá, þ.e. þegar ég byrjaði að borða í mötuneyti, sem eitthvað fór að ganga í að grennast á sínum tíma. Annars var þetta endalaust redd, pylsa hér, Sóma samloka þar. En nú er þetta þannig að tvisvar í viku er fiskur og svo kjúklingur, kjöt og grænmetisréttur hina dagana. Þá er oftast vel útbúinn salatbar. Ég reyndi eitt sinn að mæla ofan í mig mat en það gekk ekki neitt og gerði mig brjálaða, svo ég ætla ekki einu sinni að reyna það. Ég miða við lófann minn þegar kemur að skammtastærðum. Lófi fiskur, lófi sætar kartöflur eða grjón og rest grænmeti og fræ. Maður aðlagar þetta auðvitað bara. Ef aðalréttur hentar ekki, þá fæ ég mér bara túnfisk með salatinu o.s.frv. Brauð snerti ég ekki lengur og pasta læt ég eiga sig.

Millimálin eftir hádegi eru stundum eitt en oftast tvö, en það er nú af því ég er að æfa þarna í kringum hálfsex og þarf mína orku. Þetta er nánast alltaf epli með hnetusmjöri eða u.þ.b. 20 möndlur, hrökkkex með hummus, ávöxtur, Frosh, Chia grauts skvísa og þar fram eftir götunum. Eitthvað handhægt og þægilegt. Þetta virkar e.t.v. einhæft en er það ekki í sjálfu sér. Þetta virkar alla vega mjög vel fyrir mig og heldur mér í jafnvægi.

Mín helsta breyting og það sem ég er að reyna að vinna með er kvöldmaturinn. Áður átti ég til að elda bara þokkalega myndarlegar máltíðir 5 sinnum í viku. Nýtti mér þjónustu eldumrétt, hægri vinstri, sem er snilld btw, og bara gerði mikið úr kvöldmatnum. Mikill tími fór í þetta seinni partinn og búðarferðir tíðar enda hugmyndin um að fjölskyldan væri sameinuð í gæðastund í hávegum höfð. Ég hef auðvitað ekkert á móti þessu en fyrir mitt leyti er ég markvisst að minnka vægi matarins á þessum tíma, þ.e. láta þetta frekar snúast um samveruna og hef miklu oftar á boðstólnum „snarl“ fyrir börnin. Skyr, brauð með kæfu, grjónagraut, léttar súpur o.s.frv., þau mótmæla þessu ekki, og á meðan borða ég mat sem ég er búin að útbúa nokkru áður. Ég er að fikra mig áfram í svona „meal prep“, og það er aldeilis ógrynni af sniðugum hugmyndum á internetinu. Sjá t.d. hér. Í raun er þetta þannig að ég útbý 3 til 4 sambærilegar en hollar máltíðir í einni hendingu, hendi í plastbox og inn í kæli. Möguleikarnir eru endalausir og er mikið til grænmeti, kjúklingur og þess háttar. Síðan er ég með algera dellu fyrir avocado og kem þeim ávöxt fyrir eins og ég get. Svo kannski elda ég hefðbundinn kvöldmat einu sinni til tvisvar í viku og við förum svo auðvitað til afa og ömmu í sunnudagssteikina. Ég er að byrja í þessum pakka og þetta lofar góðu og ætla ég að halda mig á þessari braut þó þetta kalli á skipulag um helgar, en á móti kemur að mikill tími sparast hina dagana vegna hinna endalausu kvöldverðarpælinga og búðarferða.

Rétt fyrir svefninn er síðan uppáhaldið og það er súkkulaði casein prótín. Guð minn góður hvað mér finnst það gott og svo klárlega uppáhalds.

Síðan er ég að drekka tvo kaffibolla á dag og tvo til þrjá lítra af vatni og stundum með amino. Ég ætla mér alltaf að taka CLA-töflur en það gleymist því miður ítrekað þó ég ætli að gera mitt allra besta til að bæta mig. Sælgæti er horfið af listanum sem og áfengi (ókei, nema einu sinni), en ég leyfi mér popp og dökkt súkkulaði og jafnvel smá ís til hátíðarbrigða. Þegar þeim árangri er náð sem ég sækist eftir, mun ég síðan einfaldlega bæta þessu inn aftur, en líkt og áður, í hófi.

Þá er líðanin hjá mér afar góð. Mér finnst ég þurfa aðeins minni svefn eða a.m.k. vakna ég alltaf löngu á undan klukkunni, þ.e. um 6 leytið en ég passa að fara að sofa milli 10 og 11 á kvöldin.

En þetta er nú orðið ágætt í bili. Það er mæling á morgun og ég veit varla hvað ég vil helst sjá. Vonandi verður einhver breyting en ég geri ekki ráð fyrir að hafa lést nokkuð. Þetta verður klárlega æsispennandi.

Brynhildur Aðalsteinsdóttir.
Brynhildur Aðalsteinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál