Sætti sig ekki við að vera undirmálsmaður

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Hvað er það fyrsta sem fólki dettur í hug ef það meiðir sig eða veikist líkamlega? Jú kannski að taka því rólega og jafnvel leita hjálpar hjá lækni? Eftir eðli veikindanna. Sinna sem sé veikindum af ábyrgð.

Hvað er það fyrsta sem fólki dettur í hug ef því líður illa vegna kvíða, þunglyndis eða annarra andlegra veikinda? Það felur veikindin! Reynir að þrauka alla daga í fullri vinnu eða skóla. Af hverju?  Ótti! Já ótti við að verða fordæmdur og fá ekki skilning hjá t.d. vinnuveitanda, vinnufélögum, fjölskyldu og vinum,“ spyr Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Fyrst ég hef treyst mér að segja opinberlega frá minni reynslu þá hef ég fengið á  móti mikla endurgjöf  frá fólki. Því miður frá of mörgum í þessari stöðu. Mér finnst það sorglegra en orð fá lýst! Vill einhver frambjóðandi velta fyrir sér þá líkunum á sjálfsvígum innan þessa hóps? Nei, ég veit, það er of óþægilegt. Sorglegt að segja frá en hef líka fengið endurgjöf um slík tilfelli! Það vill enginn deyja. Fólk gefst upp á þjáningunni.

Hef ekki grandskoðað né er með allar upplýsingar á stöðu íslenska geðheilbrigðiskerfisins. Mér skilst á þeim sem þekkja betur að úrræði geðheilbrigðiskerfins séu sprungin og/eða anni engan veginn eftirspurn. Tekur óratíma að fá viðtal hjá geðlækni. Jafnvel sálfræðingi. Að auki er einn sálfræðitími rándýr sem ég veit að fælir fólk frá sem hefur ekki mikið á milli handanna. Þetta ku vera orsökin að neyðarmóttaka geðdeildar hjá LSH sé yfirfull alla daga. Fólk fari beint þangað til að fá fyrstu hjálp. Staða geðheilbrigðismála er þannig að þó fólk fái kjark til að leita sér hjálpar, þá er hægara sagt en gert að fá hjálpina! Ekki beint hvetjandi fyrir fólk. Mín skoðun? Þetta er gjörsamlega óviðunandi í þjóðfélagi sem státar sig af velferð handa okkur íbúunum!

Eru fordómar nokkuð að flækjast fyrir? Ég upplifði þöggun þegar ég kynntist samfélagi andlegra veikra. Það var kannski lán í óláni að ég var svo illa farinn að það fór ekkert á milli mála að ég var veikur. Ég komst strax yfir skömmina sem margir glíma við. Hef alltaf verið með ríka réttlætiskennd. Mér gekk ómögulega að sætta mig við að það væri litið á mig sem undirmálsmann í þjóðfélaginu af því ég var andlega veikur! Ekki nógu góður? Dæmdur úr leik? Halló! Kommon! Auðvitað ganga ekki allir um með fordóma og hugsa niðurlægjandi til andlegra veikra. En of margir og þessi þöggun er skýr mælikvarði. Þeir sem eru að tala um þessi mál opinberlega er fólk sem þekkir veikindin af eigin reynslu. Hellir sér út í baráttu fyrir aðra. Svo virðingarvert. Þess vegna hafa orðið til afdrep og þjónusta fyrir andlega veika. Það datt engum stjórnmálamanni þetta í hug! Sjálfsagt er staðan í dag miklu betri en áður. Vond hefur hún þá verið. Það gengur ekki að árið 2016 þar sem hægt er að afla upplýsinga á nokkrum sekúndum, skuli ekki ríkja meiri skilningur á málefnum andlegra veikra. Ég hef tvisvar gert atrennur að opna umræðu innan íþróttahreyfingarinnar. Skrifaði pistla og setti mig í samband við forsvarsmenn samtaka, íþróttafélaga og fjölmiðlafólk. Jú jú.. takk Einar og flott hjá þér. Alltaf verið góður drengur. Svo heyrist ekki meira. Nú er nóg komið. Að það þyki tabú að ræða þessi mál opinskátt er til skammar fyrir þá sem taka þátt í þögguninni. Ómanneskjulegt. Má ég nefna eitt? Aldrei gleyma að það eru aðstandendur í kringum þann sem er veikur. Þeir þjást líka. Maki, börn, foreldrar, systkini og aðrir ættingjar. Það eru heilu fjölskyldurnar sem þjást. Eru sumir stjórnmálamenn með fordóma? Ef þessir 63 eru þverskurður þjóðfélagsins þá er líklegt að svo sé. Það felst gríðarleg ábyrgð að starfa sem alþingismaður haldinn fordómum út í þjóðfélagshópa. Ef það eru m.a. fordómar sem ráða því að skorið sé fé til geðheilbrigðismála þá ættu viðkomandi að líta í eigin barm. Henda þess í stað 100 milljónum í einhver gæluverkefni, með fullri virðingu fyrir þeim! Minn kæri frambjóðandi. Að gera þetta er verið að auka líkur að veikt fólk þori ekki að leita sér aðstoðar og/eða fái ekki aðstoð. Mig langar ekki að minnast aftur á líkur á sjálfsvígum!

Andlega veikt fólk eru venjulegar manneskjur. Ekkert öðruvísi en manneskjur sem þurfa að fara í hjartaaðgerð eða kransæðastíflu. Fólk er misjafnlega veikt og batalíkur mismunandi. Með fljótri, góðri og réttri hjálp getur stór hluti fólks náð bata og/eða lifað ágætu lífi með veikindunum. Er það ekki þjóðhagslega hagkvæmt að hjálpa fólki svo það geti til langframa starfað á vinnumarkaðinum og greitt sína skatta í ríkissjóð? Jú vissulega ekki allir sem það geta vegna alvarleika veikindanna. Það er þá lágmarkskrafa að það fólk fái mannsæmandi stuðning og ekki síst virðingu.

Kæri frambjóðandi. Í hvaða flokki sem þú ert. Þú ert manneskja eins og ég. Ef þú hefur ekki kynnt þér staðreyndir um þessi mál, gerðu það þá strax. Völdin sem þér hlotnast að verða alþingismaður þýða að þú berð mikla ábyrgð. Viðhorf þitt, þekking og áhugi hefur mikil áhrif á líf og líðan allt of margra í þjóðfélaginu! Má ég treysta að þú skiljir það og standir undir þessari ábyrgð? Ég er reiðubúinn að borga mína skatta í ríkissjóð. Ég er ekki reiðubúinn að sætta mig við að almannafé sé illa varið. Það er lágmarkskrafa að fólk sem er kjörið á alþingi láti ekki dómhörku eða þekkingaleysi stýra sínum verkum. Ég neita að trúa því að þú munir gera það. Ekki síst þú sem einbeitir þér að heilbrigðismálum. Eða menntamálum. Er að tabú að krökkum og unglingum í grunn- og/eða framhaldsskóla sé boðið upp á geðfræðslu? Fordómar hverfa ekki nema með öflugum forvörnum. Því fyrr sem kynslóð framtíðarinnar fær fræðslu um að verða andlega veikur sé ekki tabú, þeim mun betra. Þætti vænt um að þú skoðaðir þetta kæri frambjóðandi.

Gangi þér vel og farnist þér vel innan alþingis náir þú kjöri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál