Allt í lagi að gúffa í sig alvöru súkkulaði

Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir.
Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir.

„Súkkulaði getur verið hin mesta heilsufæða ef við veljum okkur hágæða dökkt súkkulaði og notum það smart og í hófi til þess að sæta tilveruna okkar og gera vel við okkur. Í staðinn fyrir „allt eða ekkert“ aðferðina er mun skynsamlegra að njóta þess að fá sér einn súkkulaðimola við og við yfir vikuna eða mánuðinn í þess að innbyrða mikið magn af sætindum hverju sinni. Þannig náum við betur að halda sykurpúkanum í skefjum og er í raun mun heilbrigðara viðhorf gagnvart sætindum í stað þess að vera með boð og bönn í mataræðinu,“ segir Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir. 

Hún segir að það sé til mikið af alls konar súkkulaði og það beri að velja það vel.  

„Það er til ógrynni, úrval tegunda af súkkulaði og mikið af því súkkulaði sem er fáanlegt í dag er fullt af hvítum sykri, transfitu og aukefnum og er í raun afar slök gæði. Við þurfum að vera vandlát þegar við veljum okkur súkkulaði og leitast eftir að nota súkkulaði sem er með háu kakóinnihaldi eins og til dæmis 70-85% og reyna velja lífrænt súkkulaði ef mögulegt. Þannig getum við verið viss um að við séum að fá mikil gæði og virkni úr súkkulaðinu. Eins er gott að vera meðvitaður um hvaða sætuefni er í súkkulaðinu okkar því það getur haft misgóð áhrif á blóðsykurinn okkar og þar með sykurlöngum. Nú til dags fást til dæmis súkkulaði sem innihalda ýmis náttúruleg sætuefni eins og kókóspálmasykur, lífrænt hunang, stevíu, erythriol og maltitol en þessi sætuefni hafa mun minni áhrif á blóðsykur en hvítur sykur og hrásykur og eru því vænlegri kostur,“ segir hún. 

Ásdís Ragna segir að súkkulaði sé mjög andoxunarríkt og hafi góð áhrif á efnaskipti líkamans. 

„Kakóbaunin inniheldur mikið magn af virkum efnum og andoxunarefnum og hafa rannsóknir á kakóbauninni leitt í ljós að það að borða dökkt súkkulaði í hóflegum skömmtum getur beinlínis verið heilsueflandi, en m.a. er talið að dökkt súkkulaði hafi mögulega jákvæð áhrif á efnaskiptin okkar sem og hjarta- og æðakerfi. Kakóbaunin inniheldur þar að auki ýmis næringarefni svo sem magnesíum, sínk, amínósýruna tryftofan sem er mikilvæg fyrir geðið okkar sem og góðar trefjar fyrir meltinguna,“ segir Ásdís. 

Nú þegar hátíðahöld eru fram undan er ekki úr vegi að spyrja Ásdísi Rögnu hvernig best er að bera sig að í mataræðinu til þess að hafa allt í jafnvægi. 

„Sætindi eru víðsvegar á borðum um allt og þá er mjög snjallt að passa vel upp á að gæta hófs í mat og drykk og muna eftir að næra sig vel og reglulega yfir daginn til þess að halda blóðsykrinum og orkunni í góðu jafnvægi. Muna líka eftir hreyfingunni í amstri dagsins þó ekki sé nema einn góður röskur hverfisgöngutúr þegar mikið er að gera, svona til að halda kroppnum glöðum og til þess að lækka streituhormónin í öllu jólastússinu. Ef við pössum upp á þessi grunn element hjá okkur eins og svefninn, borðum tiltölulega hreina fæðu, hreyfum okkur regulega og höfum stjórn á streitunni, þá rúllum við ansi smart í gegnum þetta í flottu ​​jafnvægi. Svo getur verið sniðugt þessu til viðbótar að nota matcha grænt te, arctic rót (burnirót) eða spirulinu til þess að hressa orkuna okkar við og passa upp á að taka omega 3 fitusýrur, góðgerla og D-vítamín til þess að viðhalda sterku og hraustu ónæmiskerfi yfir vetrarmánuðina,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál