„Það er ekkert til sem heitir skyndilausnir“

Lilja Ingvadóttir veit hvað hún syngur þegar kemur að líkamsrækt.
Lilja Ingvadóttir veit hvað hún syngur þegar kemur að líkamsrækt. mbl.is: Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lilja Ingvadóttir starfar sem námskeiðakennari og einkaþjálfari hjá Sporthúsinu og er því vel að sér þegar kemur að heilsurækt. Þó að Lilja stundi heilbrigðan lífsstíl segist hún aðeins þurfa að stramma sig af eftir hátíðirnar, eins og flestir landsmenn.

 „Maður herðir alltaf sultarólina eftir jólahátíðina. Maður leyfir sér meira á jólunum en vanalegt er, og svo er það bara aftur í rútínu,“ segir Lilja, en hún lumar á góðum ráðum þegar kemur að því að koma mataræðinu aftur á rétt ról eftir allt jólaátið.

 „Það er að fjarlægja allar leifar af slíkum mat af heimilinu. Betra í ruslinu heldur en í kroppnum þínum ekki satt? Við þurfum ekkert að borða þetta áfram þótt það sé ekki allt búið. Höfum ekkert gott af því. Mér hefur reynst best að taka allt út strax á eftir, þá er ekkert í skápunum sem maður veit af og freistast í, einbeitingin verður betri og maður er þá fyrr komin í góða rútínu. Það tekur nokkra daga að losa sig við saltið, bjúginn og sykurlöngunina. Drekka  síðan nóg af vatni,“ segir Lilja.

Nú flykkist fólk í ræktina eftir allt jólasukkið, en hvað telur Lilja að best sé að gera til að springa ekki á limminu eftir nokkra daga?

„Fá sér góðan einkaþjálfara, fara í hóptíma eða hvað sem er með þeim sem hafa þekkinguna og hvatninguna til að koma þér af stað á raunsæjan, heilsusamlegan og góðan hátt. Ekki fara í ræktina, gera bara eitthvað og ætla að massa þetta á núll einni. Það er bara dæmt til að mistakast. Það er hægt að líkja því við að fólk keyri bara eitthvað út í buskann og viti ekkert hvar það lendi. Fólk þarf að hugsa þetta til langs tíma, gera sér langtímamarkmið, gera þetta að lífstíl. Ekki vera með óraunhæfar kröfur til sjálfs sín og ekki láta niðurrifspúkann ná tökum á þér. Því hugurinn kemur þér hálfa leiðina að markmiðinu og þar kemur trúin á sjálfan sig og bullandi jákvæðni inn sem mjög sterkur þátt. Finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg, vertu opinn fyrir nýjungum, hlustaðu á þjálfarann þinn sem þú valdir þér og fylgdu því eftir. Finndu góðan æfingafélaga, sem er hvetjandi eins og þú við hann, og mættu í ræktina. Þú sérð aldrei eftir því. Ekki gefast upp því heilsan er í húfi. Ekki vera þessi sem gefst upp eftir tvær vikur, því þá gerist auðvitað ekki neitt. Þetta tekur tíma og tíminn er fljótur að líða. Það er ekkert til sem heitir skyndilausnir og ekki vera ginnkeypt fyrir einhverjum slíkum kraftaverkum sem eru auglýst út um allt. Gullni meðalvegurinn er það eina sem dugar til frambúðar.“

Lilja starfar bæði sem námskeiðakennari og einkaþjálfari og hefur hjálpað …
Lilja starfar bæði sem námskeiðakennari og einkaþjálfari og hefur hjálpað ófáum Íslendingum að komast í form. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Getum miklu meira en við höldum

Lilja mælir með því að fólk sem er að stíga sín fyrstu skref fái sér faglega aðstoð, eða þjálfara sem getur leiðbeint því.  

„Fáðu þér þjálfara sem hefur þekkinguna og getur hjálpað þér fyrstu skrefin, komið þér í gang og kennt þér öll trixin í bókinni. Hvort sem það er einkaþjálfun, hópþjálfun, námskeið eða hvað sem er. Við myndum aldrei fara að gera við bílinn okkar ef við kynnum það ekki. Við förum á bílaverkstæði þar sem fólk kann til verka.“

Lilja segir að sömu sögu sé að segja um þá sem eru vanir að hreyfa sig, en vantar bara svolítið spark í rassinn.

„Fá sér þjálfara sem sparkar í rassinn á þeim, eða koma sér í hóp sem finnst gaman að hreyfa sig, hvernig svo sem sú hreyfing er. Fara á nýtt námskeið, fara út fyrir kassann og prófa eitthvað nýtt – því það er alveg magnað að þegar einhver stendur yfir þér ferðu lengra. Við getum yfirleitt miklu meira en við höldum,“ segir Lilja glettin.

Komin í atvinnumannadeildina

Lilja slær ekki slöku við í ræktinni og æfir sjálf af kappi sex daga vikunnar.

 „Ég lyfti sex sinnum í viku eftir hádegi og skipti dögunum upp í hvaða vöðvahópa ég æfi, þannig að hver vöðvahópur nær nægilegri hvíld á milli. Þar blanda ég bæði styrktar- og þolæfingum saman.  Einblíni mikið á djúpvöðva, en þar tvinna ég inn í alls kyns æfingar sem styrkja miðjusvæðið í leiðinni. Það er mjög mikilvægt upp á allar erfiðar æfingar og styrkir stoðkerfið gífurlega. Ég styrki þau svæði aukalega sem mér finnst þurfa, eins og til dæmis mjaðmir og rass – en ég hef 3 daga í viku sem ég tek mismunandi vöðvahópa í fótum, rassi og mjöðmum. Og þetta eru allt hrikalega skemmtilegar og fjölbreyttar æfingar. Núna er ég komin í undirbúning fyrir Íslandsmótið í fitness sem verður haldið um páskana 2017, þannig að ég er farin að bæta inn þolæfingum sex sinnum í viku á morgnana. Þannig að ég er núna komin í atvinnumannadeildina hvað það varðar og byrjuð að skera niður fituna. Það þarf að setja þetta aukalega inn til að fá aukalega út.“

Lilja segir að líkamsrækt veiti henni mikla vellíðan og að henni hafi aldrei liðið jafn-vel á sál og líkama síðan hún tileinkaði sér heilbrigðan lífsstíl.

 „Það fara að verða komin átta ár síðan ég gerði þetta að lífsstíl og ég hef ekki misst úr tíma síðan. Þetta er ótrúlega gaman, margt skemmtilegt fólk sem maður kynnist, er gefandi, hvetjandi fyrir aðra og  besta meðalið gegn öllu því neikvæða í umhverfinu. Þetta gerir þig glaða og ánægða og betur í stakk búna að takast á við erfiðleika sem óumflýjanlega verða á vegi manns,“ segir Lilja glöð í bragði.

Lilja slær sjálf ekki slöku við í ræktinni, enda er …
Lilja slær sjálf ekki slöku við í ræktinni, enda er hún á fullu að undirbúa sig fyrir Íslandsmótið í fitness sem fram fer um páskana. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Það er ekki nóg að hamast í ræktinni, því fólk þarf einnig að gefa mataræðinu gaum. Sjálf segist Lilja borða hreinan mat, og reglulega yfir daginn.

 „Ég læt ekki meira en tvo til þrjá tíma líða á milli þess að ég borða, en ég borða þrjár góðar máltíðir yfir daginn, morgun-, hádegis- og kvöldmat, og lítil millimál þess á milli. Þessa dagana elda ég allt sjálf og undirbý daginn áður. Ég borða fisk, kjöt og kjúkling, sætar kartöflur eða hýðishrísgrjón, egg, hnetur, möndlur, hafra, góða fitu og mikið grænmeti. Er lítið sem ekkert í mjólkurvörum, ávextir eru á undanhaldi meðan ég er í niðurskurðinum og að sjálfsögðu er ég ekkert í gosi eða sætindum,“ bætir Lilja við, en þvertekur þó fyrir að hún lifi einhverju meinlætalífi.

 „Mér finnst rosalega gaman að fara gott út að borða eða grilla góða nauta- eða hreindýrasteik með öllu tilheyrandi. Svo góðan desert á eftir. Ég held mig við að hafa eina góða máltíð á viku þar sem ég fæ mér að vild, en ég vel mér alltaf eitthvað sem nýtist manni vel út vikuna. Ekki eitthvert rusl sem ég fæ í magann af.“

Verðum að setja heilsuna í forgang

„Fólk þarf að fara að vakna upp og opna augun. Við græðum ekkert á því að horfast ekki í augu við þann vanda sem er að hrjá okkur flest. Aðalatriðið sem ég sé er að streitan og tímaleysi er að ganga frá okkur og heilsunni okkar. Við þurfum að  minnka streituvalda í umhverfinu eins og við mögulega getum og setja okkur sjálf og heilsuna í forgang. Við gerum stundum ótrúlega óraunhæfar kröfur til okkar sjálfra og leggjum ótrúlega mikið á okkur á kostnað heilsunnar. Og það getur orðið okkur dýrkeypt til lengri tíma. Við verðum að setja heilsuna í forgang með hreyfingu og réttu, reglulegu matarræði. Heilsubrestur vegna offitu, sem og lélegrar næringar, er alltaf að aukast. Við höfum allt að vinna, við aukum orkuna, við verðum einbeittari, glaðari og náum að vinna betur úr öllum hlutum sem á vegi okkar verða, ef við verðum fyrir slysum eða skakkaföllum skiptir gott líkamsform miklu máli um endurbata. Tíminn er núna og  það eru engar afsakanir. Tökum 2017 fagnandi með bros á vör, lifum lífinu vel  og gerum þetta skynsamlega í eitt skipti fyrir öll,“ segir Lilja að endingu, kát í bragði.

Lilja mælir með því að fólk leiti til fagaðila þegar …
Lilja mælir með því að fólk leiti til fagaðila þegar það ætlar af stað í ræktinni. mbl.is: Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál