Tekur collagen til að viðhalda unglegri húð

Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Ankra.
Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Ankra. Eggert Jóhannesson

Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Ankra ehf. hugsar vel um heilsuna. 

Hvað gerir þú til að hugsa sem best um heilsuna?

„Ég hreyfi mig reglulega, reyni að borða sem hollast og tek inn vítamínin mín en það sem gerir gæfumuninn er hugleiðsla. Ég er nýlega búin að uppgötva hugleiðsluna og finnst hún alveg nauðsynleg til að minnka stress og ná að slaka almennilega á.“

Hreyfir þú þig dagsdaglega?

„Já, ég reyni að gera það, en ég er samt ekki alltaf í ræktinni. Ég æfi blak á veturna og á sumrin spila ég golf, svo fer ég út að ganga með hundinn. Ég tek svo reglulega tarnir í ræktinni en oft finnst mér erfitt að koma því inn í pakkaða dagskrá, en ef ég er með fasta tíma sem ég mæti í klikkar það síður. Ég hef verið í einkaþjálfun hjá henni Helgu Lind og finnst það alveg frábært, þá missir maður ekki úr tíma.“

Hvernig hugsar þú um mataræðið?

„Ég vildi óska þess að ég borðaði bara hollan mat, en það er því miður ekki alltaf þannig. En ég geri alltaf mitt besta og borða mikið af próteini, grænmeti og ávöxtum og forðast unnin matvæli. Ég drekk líka mikið vatn og fæ mér oft heilsudrykki stútfulla af næringu og vítamínum. Þegar maður fer svo út af sporinu finnst mér best að taka góða æfingu og þá hef ég ekki lyst á óhollustu lengur.“

Hvað varð til þess að þið fóruð að framleiða próteinduft með collageni?

„Þegar við kynntumst áhrifunum sem kollagen hefur á líkamann vorum við alveg heillaðar. Japanskar og kóreskar konur hafa tekið inn kollagen í fjöldamörg ár til að viðhalda unglegri húð og líkama. Þegar við komumst svo að því að það væri hægt að framleiða þetta frábæra hráefni úr góða íslenska fisknum okkar sem kemur úr hreinum sjálfbærum fiskimiðum þá var þetta engin spurning.“

Vörurnar frá Feel Icleand eru búnar til úr íslenskum fiski.
Vörurnar frá Feel Icleand eru búnar til úr íslenskum fiski.

Hvað drekkur þú mikið af því á dag?

„Ég blanda tveimur matskeiðum út í heilsusjeika eða skyrdrykki á hverjum degi, yfirleitt á morgnana en það er líka mjög gott að fá sér einn sjeik á kvöldin ef nammiþörfin er farin að segja til sín.“

Hvað er í uppáhaldssjeiknum þínum?

„Uppáhaldssjeikinn minn þessa dagana er kallaður Andoxunar-skrímslið og er byggður á uppskrift frá heilsuhóteli í Kaliforníu. Ég blanda saman jarðarberjum, bláberjum, ananas, kókosvatni, kókosolíu, grænu dufti, collagen-dufti og vanillupróteini. Hann er rosalega ferskur og góður og minnir mig á Karíbahafið, sem er ekki slæmt í skammdeginu.“

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

„Við fjölskyldan vöknum saman og fáum okkur morgunmat, mjög oft eggjahræru eða hafragraut og heilsusjeik með. Svo fer maður að leita að skóladóti og fötum á börnin, eitthvað sem ég ætla alltaf að vera búin að hafa klárt kvöldið áður en gerist ekki oft en það er einmitt eitt af áramótaheitunum að breyta því. Allir hafa sig til og minnsta krílinu er skutlað í leikskólann og ég fer í Sjávarklasann þar sem við erum með skrifstofu. Eftir vinnu eru börnin sótt og hugað að kvöldmat. Því næst skelli mér á blakæfingu eða í göngutúr með hundinn. Krökkunum er svo komið í háttinn eftir heimalestur og þá gefst smá tími í hugleiðslu, tiltekt og þvott. Það er alltaf nóg að gera.“

Hvað gerir þú til að slaka á?

„Það allra besta er að fara upp í sumarbústað með fjölskyldunni með nóg af mat, tímarit og góða bók. Það er alveg magnað að sjá hvernig allir fara í annan gír að komast út fyrir bæinn. Og svo má ekki gleyma hugleiðslunni góðu.“

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Ég drekk mikið vatn, borða mikið af hollum olíum og tek inn kollagen og hyaluronic sýru. Ég passa upp á að hreinsa húðina vel á kvöldin og set á mig andlitsserum sem innihalda ensím og kollagen áður en ég fer að sofa sem hjálpar húðinni að endurnýja sig hraðar yfir nóttina. Á morgnanna þríf ég húðina aftur og set á mig andlitskrem. Einu sinni í viku skrúbba ég húðina og set á mig rakagefandi maska. Ég nota líka alltaf sólarvörn á sumrin, minnst 50 í andlitið og svo má ekki gleyma því að svefninn skiptir líka miklu máli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál