Fólk orðið opnara fyrir því að styrkja sig andlega

Bára Hilmarsdóttir kennir Hot Yoga í Sporthúsinu.
Bára Hilmarsdóttir kennir Hot Yoga í Sporthúsinu. Árni Sæberg

Bára Hilmarsdóttir er ekki bara einn eftirsóttasti miðill og dáleiðslutæknir landsins heldur er hún einnig afar vinsæll líkamsræktarkennari. En hvernig skyldu þessi störf fara saman? „Mér finnst þessi störf vinna gríðarlega vel saman. Þar sem ég nota hugann og hið andlega algjörlega í miðluninni og fæ svo gífurlega útrás bæði fyrir það líkamlega og andlega með mínum yndislegu kúnnum í líkamsræktinni.“

Meðal þess sem Bára kennir er Zumba og Vaxtarmótun en nýlega bætti hún við sig Hot Yoga-kennararéttindum. Segðu okkur aðeins frá því ferðalagi. Var námið skemmtilegt og nytsamlegt og af hverju Hot Yoga? „Ég hef verið að kenna í um tuttugu og fimm ár og var nú ekkert á leiðinni að bæta við mig einhverju nýju til að kenna svo það var einmitt svolítið sérstakt að ég skyldi fara í Hot Yoga-kennaranámið. Ég hafði beðið mína leiðbeinendur (hinum megin) um leiðbeiningar um það hvernig ég gæti nýtt mína hæfileika enn betur og þeir fóru að ýta mér í áttina að yoga. Þegar vinkona mín kom svo til mín og sagði mér að hún væri að fá frábæran kennara frá Bandaríkjunum sem ætlaði að vera með kennaranám hér heima var ég ekki alveg á því að gerast Hot Yoga-kennari, þar sem ég hafði nú frekar verið með hugann við það að minnka við mig kennsluna. En ég sló til og fór í námið. Og vá hvað það var æðislegt.“

Mikil opnun í yoga
Bára viðurkennir þó fúslega að námið hafi verið erfitt en á sama tíma afar skemmtilegt. Hún segist samt sem áður hafa velt því fyrir sér fyrstu dagana af hverju hún væri að leggja þetta á sig þar sem planið hefði ekki verið að fara að kenna. „Þarna átti sér stað alveg gríðarlega mikil andleg vinna og fór ég í gegnum mikla hreinsun. Ég áttaði mig á því hversu mikil opnun og hreinsun er í gangi hjá einstaklingum sem eru að æfa yoga, jafnvel þó að fólk átti sig ekki á því sjálft sem er að stunda það.“ Bára segist þar af leiðandi hafa áttað sig á því af hverju henni hafi verið ýtt í áttina að jóganu. „Við þessar aðstæður á ég mjög auðvelt með að heila þó svo að ég sé að kenna. Þrátt fyrir að vera með fullan sal af fólki verð ég ekki galtóm á eftir þar sem ég fæ hluta af heiluninni sem ég sendi frá mér.“

Mataræðið hefur áhrif á andlegu heilsuna
Bára segir afar mikilvægt að rækta andlegu heilsuna í því samfélagi sem við lifum í og segir hún mataræði meðal annars hafa mikil áhrif á hana. „Ég elska að skoða hvernig hugurinn virkar og hvernig við getum virkjað hann. Rétt mataræði getur bætt andlega heilsu okkar alveg gríðarlega. Og með réttu hugarfari getum við breytt orkunni okkar.“ Sjálf segist Bára mjög meðvituð um það hvað hún þoli þegar kemur að mataræði og hvað ekki og borði eftir því. „Síðan nota ég jákvætt hugarfar eins mikið og ég get. Byrja daginn alltaf á því að segja mér að þessi dagur sé yndislegur og ef ég lendi í einhverri neikvæðri reynslu þá skoða ég alltaf hvaða lærdóm ég get dregið af reynslunni og hvað styrk þessi lærdómur gefur mér. Einnig nota ég hugleiðsluna mjög mikið.“

Bára segist upplifa það að fólk sé orðið mun opnara fyrir því að vilja styrkja sig andlega og sé þar enginn munur á kynjunum.  

Bára Hilmarsdóttir hot yoga-kona.
Bára Hilmarsdóttir hot yoga-kona. Árni Sæberg

Verið jákvæð gagnvart góðum breytingum
Fólk ber mikið fyrir sig tímaskort þegar kemur að hreyfingu og heilbrigði. Lumarðu á nokkrum góðum ráðum svo að fólk komi breyttum lífsstíl að með einhverju móti og nái þannig að byrja og líða betur? „Aðallega því að breyta venjunum hægt og rólega, ekki breyta þeim öllum í einu. Finndu hvað það er sem þú hefur gaman af að gera í sambandi við líkamsrækt (þó svo að það sé bara göngutúr). Þegar þú hefur gaman þá er mun líklegra að þú haldir rútínunni. Og í sambandi við mataræðið þá skiptir öllu að hlusta á líkamann. Hvaða matur er það sem lætur þér líða vel og hvaða matur lætur þér líða illa. Það er svo einstaklingsbundið hvað hver og einn þolir í mataræði. Svo er mikilvægt að vera ekki neikvæð gagnvart breytingunum. Þær eru gerðar með það í huga að okkur líði betur og eiga því að vera jákvæðar.“

Hvíldin mikilvæg
Að lokum bendir Bára á að hvíldin sé einnig mjög mikilvæg til að líða vel. Aðspurð hvernig hún sjálf slaki á segir hún: „Ég viðurkenni að það er ekki algengt að ég taki heilaga hvíldardaga. Ekki nema þegar ég fer í sumarbústaðinn okkar.“ Hún slakar einnig á með öðrum hætti. „Ég er lærður hönnuður og hef gríðarlega gaman af að föndra og einnig elska ég að lesa. Ég þarf að fara að koma þessu oftar inn hjá mér og gera meira af þessu,“segir Bára að lokum.

 

Bára Hilmarsdóttir hot yoga-kona.
Bára Hilmarsdóttir hot yoga-kona. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál