Sexý að vera til staðar

Guðni Gunnarsson.
Guðni Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðni Gunnarsson, stofnandi Rope Yoga-heilsuræktarkerfisins, segir gott í upphafi árs að minna sig á nándina, veita fólkinu sínu meiri athygli og vera til staðar. Guðni sem hefur kennt og þjálfað fólk í gegnum Rope Yoga í áraraðir, segir það ásetning sinn á árinu að vinna betur með nándina.

„Þetta er eitthvað sem hægt er að æfa sig endalaust í, að hlusta og vera til staðar,“ segir hann og bætir við:

„Að segja ekkert nema það sem er fallegt og hvetjandi. Ef maður hefur ekkert til málanna að leggja þá lætur maður það bara vera. En ef þú ert með jákvæðar innlagnir í aðstæður og samtöl, beinir athyglinni að því sem er uppbyggjandi, gefandi og hlustar, þá breytist umhverfið í kringum þig, því allt sem þú veitir athygli vex og dafnar,“ segir Guðni. 

Hann segir að í janúar þegar fólk sé opnara fyrir breytingum, setji sér markmið og ásetning sé gott að beina athyglinni að persónulegum vexti. Það þurfa ekki að vera háfleyg markmið, getur verið jafneinfalt og að hlusta. Kraftaverkið liggi í augnablikinu og þeir sem vinni með nándina og að vera til staðar, skynja umhverfi sitt betur, upplifi meira og fái meira út úr lífinu. Þetta sé svipað því að tyggja matinn betur sem gerir upplifun matarins miklu ríkari.

Guðni skrifaði bókina um Mátt athyglinnar sem komst á metsölulista Amazon þegar hún var gefin út í Bandaríkjunum og heldur reglulega námskeið í tengslum við bókina. Á námskeiðunum sem taka sjö vikur fer hann í ferðalag með þátttakendum um sjö skref að varanlegri velsæld. Hann segir okkur öll skapara, viljandi skapara í vitund því við erum þar sem við viljum vera. „Við getum ekki farið fyrr en við höfum komið og því ekki vaxið fyrr en við höfum komið. Það sé gott veganesti í þær lífsstílsbreytingar sem fólk vill gera,“ segir hann. 

Guðna finnst einnig gaman að leika sér með tungumálið, kryfja þýðingu orða. Þannig talar hann til dæmis um að við séum fullkomin = komin til fulls í augnabllikið, eyði-lagðan mat = mat sem hefur verið tekinn úr samhengi við náttúruna, rúinn öllu innihaldi sínu og lagður í eyði, áhengju = tilbúna forsendu sem fólk notar til að viðhalda eigin sögu og skortdýrið =  þá hlið okkar sem þrífst á skorti, þjáningu og fjarveru.

„Það eru margir að bíða eða leita að einhverju og með því að vera fjarverandi vegna leitarinnar fara þeir á mis við það að upplifa augnablikið en augnablikið er bæði mátturinn og dýrðin. Máttugur er mættur maður, hann getur ráðstafað sínu ljósi. Það kemur berlega í ljós á námskeiðunum hjá okkur því fólk fær tækifæri til vaxtar að velsæld,“ segir Guðni og bætir við brosandi: „Það er nefnilega sexý að vera til staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál