Höfuðstaða í stað bótox

Gyða Þórdís Þórarinsdóttir jógakennari.
Gyða Þórdís Þórarinsdóttir jógakennari. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gyða Þórdís Þórarinsdóttir, 51 árs jógakennari og jóganuddari, hefur alltaf verið mikið fyrir hreyfingu og næringu fyrir líkama og sál. Hún kynntist jóga og jógafræðunum hjá Kristbjörgu Kristmanns eftir að hafa nánast hlaupið yfir sig. 

„Ég byrjaði á að fara í tíma til Kristbjargar Kristmundsdóttur eftir langan hlaupaferil og áralangar líkamsræktaræfingar. Ég var farin að hlaupa langar vegalengdir og endaði hlaupaferilinn á því að hlaupa Laugaveginn árið 2009, sem var dásamlegt. Þvílík fegurð sem bar fyrir augu allan tímann, án efa skemmtilegasta og fallegasta hlaupið mitt á ferlinum. Ég hljóp meiðslalaus og kom í mark meiðslalaus, sem er alltaf markmiðið í öllum íþróttum,“ segir Gyða.

Frá því að hún byrjaði jógaiðkun sína hefur jógaástríðan einungis farið stigvaxandi en í dag rekur hún Shree Yoga-stöðina í Versölum í Kópavogi.

Vandaðu óskir þínar

„Jóga er mér allt í rauninni. Jóga snýst ekki um að fara í erfiðar og flóknar jógastöður, eða um að sitja og anda í margar klukkustundir og hugleiða daginn út og daginn inn. Jóga er bara lífið.“

Gyða útskýrir þetta enn frekar og segist draga fræðin inn í sitt daglega líf og halda sínum hefðum í þeim tilgangi að öðlast aukin lífsgæði „Ég tileinka mér það til dæmis að tala fallega, hugsa fallegar hugsanir og gera góðverk. Allt þetta kemur svo margfalt til baka til mín í formi stórkostlegrar líðanar, hamingju og fegurðar. Það að sjá það fallega í öllu, leitast eftir því góða í hverjum og einum og fyrirgefa fólkinu sínu er lykillinn. Það getur reynst mörgum erfitt að fyrirgefa og vera ekki reiður og neikvæður út í sjálfan sig, maka, börn, fjölskyldu, vini og vinnufélaga en það hefur ekkert upp á sig.“

Gyða bendir á að í erfiðum aðstæðum sé mikilvægt hvernig fólk tekst á við mótlæti og vinnur úr því. „Jóga snýst svolítið um listina að lifa. Hvernig lífi maður vill lifa og hvað mann langar að fá út úr lífinu. Meistarinn minn segir þetta: „Vandaðu vel óskir þínar því þær gætu orðið að veruleika. Að vera sáttur í eigin skinni, í líkamanum sem þér var skaffaður í þessu lífi og gera það besta úr öllu sem þú hefur í hendi er lykillinn.“

Gyða bendir þó á að það taki ævina alla að æfa sig í því hugarástandi að vera hér og nú og njóta augnabliksins. „Ekki horfa löngunaraugum á framtíðina, hún er óskrifað blað, ekki líta um öxl og vera í baksýnisspeglinum og vilja fortíðina til baka. Gærdagurinn er liðinn og það er dagurinn í dag sem skiptir öllu máli. Svona grínlaust þá held ég að það taki heila ævi að átta sig á þessu. En ef við vöndum okkur og hættum að stíga í hælana og tærnar og stígum bara í iljarnar finnum við núið sem skiptir öllu máli til þess að fara með meðvitund í gegnum lífið.“

Verum stöðugt vakandi

Gyða segir að hægt sé að tileinka sér ýmsar hugsanir og athafnir til þess að grípa inn í þegar hugurinn byrjar að vera neikvæður, sem á það til að gerast hjá öllum. „Þetta fallega orð, varurð, að vera vakandi – stöðugt vakandi og læra að skoða hugann og snúa honum strax við þegar neikvæðu kallarnir birtast er mikil list. „Halló, hvað er það sem ég þarf að skoða hjá mér núna og hvað get ég gert til að vera ekki svona gagnrýninm og harður við sjálfan mig?““

Hvað varðar líkamlegan þátt jógaiðkunarinnar segir Gyða jógastöðurnar vissulega skemmtilegar og krefjandi en hún segir að allir geti stundað jóga, karlmenn, konur, börn, unglingar, eldri kynslóðin sem og þeir sem eru veikir fyrir. Sjálf er Gyða með sérstakt námskeið fyrir eldri kynslóðina og hefur einstaklega gaman af. „Ég elska að kenna og leiða eldri kynslóðina í gegnum jóga og svo hef ég líka verið svo ljónheppin að fá að leiða jóga í Ljósinu sem er endurhæfing fyrir krabbameinsgreinda.“

Framkvæmdi höfustöðu 365 daga í röð

Þeir sem sótt hafa tíma til Gyðu í Shree Yoga í Kópavoginum vita að um hörkutíma er að ræða. Ekki eingöngu líkamlega heldur einnig andlega. Hún segir það ekki endilega jógastöðurnar sem eru erfiðar heldur hvernig hver og einn nálgist þær. Hvernig fólk andar í stöðunni og hvernig það upplifir þig í jógastöðunni. „Ég elska allar viðsnúnar jógastöður; höfuðstöðuna, herðastöðuna og handstöðuna til dæmis. Ég hóf einmitt áskorun á Instagramminu mínu árið 2014 og birti mynd á hverjum degi í 365 daga. Ég segi bara af hverju að lyfta lóðum ef þú getur ekki lyft eigin líkama. Viðsnúnar stöður hafa gríðarlega góð áhrif á líkamann, hugann, húðina og hægja á öldrun og eru ef svo má að orði komast sem sagt náttúrulegt bótox.“

Að auki hefur Gyða lagt mikla stund á Ayurveda-fræðin en þau eru systurvísindi jóga, hið forna og hefðbundna form læknisfræðinnar á Indlandi. „Ayurveda eykur skilning okkar og ábyrgð á eigin heilsu og að ná jafnvægi með einstaklingsmiðaðri næringu og lífsstíl. Það virðist vera tilhneiging þjóðfélagsins að líta svo á að heilsan sé sú sama hjá öllum, þegar kemur að næringu og þess háttar. En við lítum öll mismunandi út, erum mismunandi byggð og gerð og þurfum því öll mismunandi hluti til að öðlast sem besta líkamlega og andlega heilsu. Það hentar sumum að borða heitan mat en öðrum kaldan, sumum að stunda jóga og öðrum kraftlyftingar og svo framvegis.“ Gyða bendir á að í Ayurveda-fræðunum séu aðeins fjórir hornsteinar og sá fyrsti sé einmitt fæða. Hún segir þá staðreynd koma mörgum á óvart. „Fólk virðist vanmeta mátt réttrar fæðu. Við þurfum að vanda valið einstaklega vel þegar það kemur að fæðunni okkar og velta fyrir okkur bæði gæðum fyrir okkur hvert og eitt okkar sem og magni.“

Langar að læra út ævina

Gyða segir það mikla gjöf að fá að læra og vinna við það sem hún elski mest vegna þess hve nærandi það sé. Að sama skapi þá gefi hún mikið af sér í hvoru tveggja og þurfi því að halda vel í sína „varurð“ og vera meðvituð um það þegar hún fer yfir strikið sitt. „Ég þarf að hugsa vel um mig svo ég geti hugsað vel um aðra.“ Gyða er enn í námi hjá Kristbjörgu Kristmanns og Swami Sri Ashutosh Muni eða Babuji, framhaldsnámi í jóga og jógaheimspekinni sem og Ayurveda-fræðunum. „Ég fer einu sinni til tvisvar á ári til Bandaríkjanna til að hitta meistar-ann minn, svo er ég endalaust að bæta við þekkingu mína bæði hér heima hjá erlendum kennurum sem og erlendis. Nú í byrjun árs fór ég í fimm vikna ferð til Taílands og lærði Anusara-jóga, sem er jóga hjartans, byggt á sama grunni og og allt annað jóga sem er Hatha-jóga.“ Þessu öllu til viðbótar lærði Gyða Thai Yoga Body Massage og er enn að bæta við sig í því. „Ég vona að ég verði í námi út ævina.“

Nú eru komin tvö ár frá því að Gyða tileinkaði jógakennslunni alfarið líf sitt og ánægjan leynir sér ekki. „Þetta er búinn að vera lærdómsríkur og dásamlegur tími og gengið ansi vel.

Til þess að styðja við kennsluna hef ég líka haldið úti lítilli jógaverslun eða jógasjoppu eins og kalla hana. Í jógasjoppunni sel ég jógadýnur og aukahluti frá Manduka, Kdeer-leggings og jógatoppa, handgerðar leður-töskur frá Indlandi og ýmislegt fleira fallegt sem tengist jóga og jógahugsun,“ segir Gyða að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál