Átta kílóum léttari eftir lyftingarnar

Sesselja Ómarsdóttir er átta kílóum léttari eftir að hún byrjaði …
Sesselja Ómarsdóttir er átta kílóum léttari eftir að hún byrjaði að lyfta lóðum. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sesselja Ómarsdóttir, framkvæmdastjóri efnagreininga og gæðarannsóknadeildar hjá Alvotech og prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hefur æft kraftlyftingar í tvö ár og hefur síðan þá náð miklum árangri.

Sesselja kemur alltaf endurnærð út úr tækjasalnum.
Sesselja kemur alltaf endurnærð út úr tækjasalnum. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég byrjaði í einkaþjálfun hjá Ingimundi Björgvinssyni í World Class á Seltjarnarnesi fyrir tveimur árum. Vinkonur mínar voru þá þegar byrjaðar að æfa og voru svo ánægðar með árangurinn. Ég fékk að slást í hópinn og sé svo sannarlega ekki eftir því. Fyrstu vikurnar var ég að mestu í styrktarþjálfun enda ekki í neinu toppformi en fljótlega færðist þjálfunin yfir í kraftlyftingar. Í mars keppti ég svo á mínu fyrsta móti,“ segir Sesselja.

Þegar Sesselja er spurð að því hvað kraftlyftingar geri fyrir hana segir hún þær hafa styrkt hana heilmikið – bæði andlega og líkamlega.

„Ég hef ekki verið í betra formi síðan á unglingsárunum þegar ég æfði sund níu sinnum í viku og ég hef sjaldan verið jafnsátt og -ánægð með sjálfa mig,“ segir hún.

Hún er með skýr markmið fyrir 2017.
Hún er með skýr markmið fyrir 2017. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Síðan hún byrjaði að æfa kraftlyftingar hefur hún misst rúmlega átta kíló. Til að byrja með æfði hún bara en um þarsíðustu áramót ákvað hún að taka mataræði sitt föstum tökum.

„Um áramótin síðustu ákvað ég að setja mér markmið. Að taka mataræðið í gegn og létta mig. Ég fékk góð ráð frá Ingimundi og byrjaði að halda matardagbók sem hann yfirfór vikulega. Fyrstu mánuðina minnkaði ég hitaeiningainntökuna umtalsvert auk þess að sleppa öllum sætindum, sætum drykkjum, áfengi og brauði. Á fjórum mánuðum náði ég að létta mig um átta kíló og nú hef ég haldið þeirri þyngd en aukið hitaeiningainntökuna. Ég reyni að hafa matinn sem minnst unninn og borða mikið af eggjum, ósætum mjólkurvörum, banönum, lárperum, hnetum og möndlum, fiski og kjöti. Á æfingum drekk ég alltaf æfingadrykk sem ber nafnið Formúla sem er þróaður af tveimur íslenskum lyfjafræðingum. Mér finnst hann gefa mér aukinn kraft á meðan á æfingum stendur og ég er fljótari að jafna mig eftir erfiðar æfingar. Í sumarfríinu las ég svo bók sem heitir „Nutrient timing“ og ég nýti mér eitt og annað úr henni. Ég hef mikinn áhuga á vísindum almennt og er nú farin að lesa meira og meira um samspil næringar og æfinga,“ segir Sesselja.

Spurð að því hvað hún fái út úr æfingunum segist hún fá útrás fyrir keppnisskapið.

„Ég er alltaf að keppa við sjálfa mig og finnst fátt ánægjulegra en að sjá árangur og bæta mig. En ég verð þó að viðurkenna að stundum er hugurinn á undan getunni. Ég setti mér markmið fyrir árið 2016 og hef náð þeim öllum. Það skiptir engu máli hvort ég mæti þreytt, stressuð eða í vondu skapi í salinn, ég fer alltaf út endurnærð og glöð í bragði. Þetta er mín hugleiðsla. Í æfingunum skiptir öllu máli að einbeita sér, halda spennu og vanda sig og þá komast aðrar hugsanir og stress ekki að. Auk þess er félagsskapurinn alveg hreint frábær. Einstaka sinnum spjöllum við vinkonurnar kannski aðeins of mikið saman og þá hækkar þjálfarinn bara tónlistina. Það eru skýr skilaboð um að halda áfram,“ segir hún.

Sesselja æfir fimm sinnum í viku í um tvær klukkustundir í senn.

„Þrjá daga æfi ég kraftlyftingar, þ.e. hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu auk mótvægisæfinga, og tvo daga er ég í ólympískum lyftingum, þ.e. snörun og jafnhöttun,“ segir hún.

Þegar Sesselja er spurð að því hvað hún sé að borða á venjulegum degi kemur í ljós að mataræðið er mjög skipulagt.

„Morgunmatur: Tvö egg og banani eða grísk jógúrt, múslí og banani. Hádegismatur: Eitt, tvö egg, fiskur eða kjúklingur, hrísgrjón, kúskús eða bygg, salat og kotasæla Kvöldmatur: Kjöt eða fiskur og kartöflur eða hrísgrjón. Borða yfirleitt bara það sem er í kvöldmatinn á heimilinu hverju sinni en reyni að sneiða hjá óhollustu. Millimál: Formúla, banani, hnetur, möndlur og harðfiskur.“

Sesselja skráir mataræði sitt samviskusamlega inn í appið MyFitnessPal.

„Þannig get ég fylgst nákvæmlega með hversu margar hitaeiningar ég hef borðað yfir daginn og hversu hátt hlutfall af prótínum, kolvetni og fitu ég innbyrði.“

Hefur þú hætt að borða eitthvað eftir að þú byrjaðir að lyfta? „Ég reyni að sleppa sætindum, sætum drykkjum og skyndibitamat. Ég hreinlega tími ekki að eyða hitaeiningakvótanum mínum í óþarfa.“

Lyftir þú bara eða stundar þú einhverja aðra hreyfingu líka? „Lyftingar eru eina reglulega hreyfingin sem ég stunda. Ég fer samt á skíði á veturna og svo er alltaf hressandi að fara í góðan göngutúr.“

Eins og fyrr segir er Sesselja í krefjandi starfi. Þegar hún er spurð að því hvort lyftingarnar hafi hjálpað henni að ná árangri í vinnunni segir hún svo vera.

„Ég hef meiri sjálfsaga og úthald. Auk þess skipulegg ég mig betur og vinnan verður markvissari. Ég vil ekki missa úr æfingu svo að ég verð að hugsa um að fá nægan svefn og borða reglulega.“

Hvaða markmið ertu með í ræktinni núna? „Ég er búin að setja mér markmið í öllum greinum og langtímamarkmið mitt er að keppa á heimsmeistaramóti öldunga (40-49 ára) árið 2018. Við sjáum svo bara til hvort mér takist að ná þessum markmiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál