Aldrei komist eins nálægt himnaríki

Friðrika Hjördís Geirsdóttir.
Friðrika Hjördís Geirsdóttir.

Friðriku Hjördísi Geirsdóttur fjölmiðlakonu sem stofnaði nýverið framleiðslufyrirtækið Klaki Production ásamt Tómasi Marshall er margt til lista lagt en þegar hún er ekki að vinna og mennta sig hleypur hún upp fjöll, eldar góðan mat, les góðar bækur og nýtur þess sem lífið hefur upp á að bjóða. 

Rikka, eins og hún er kölluð, hefur iðkað göngur og almenna útivist frá blautu barnsbeini, enda alin upp við Esjurætur og því hæg heimatökin.
„Ég man eftir mér alltaf eitthvað að vesenast utandyra. Ég keypti mér gönguskó fyrir fyrstu útborguðu launin mín þegar ég var rétt í kringum fimmtán ára aldurinn. Skóna á ég ennþá og nota öðru hvoru, reyndar á ég launaseðilinn líka einhvers staðar.“
Þó svo að fyrstu gönguskórnir komi sér stundum vel, dugðu þeir þó ekki til í göngunni sem Rikka fór í nýverið en hún gerði sér lítið fyrir og gekk upp í grunnbúðir Everest. Það voru kærasti Rikku og pólfarinn Haraldur Örn Ólafsson og bróðir hans Örvar Þór Ólafsson sem stóðu að ferðinni. „Þeir bræður standa fyrir Fjallafélaginu sem er framúrskarandi flottur hópur af fólki sem er í áskrift að fjallgöngum. Allan ársins hring er gengið á tvö fjöll í mánuði sem eru mislétt. Þeim bræðrum datt í hug að bjóða upp á ferð til Nepal og ganga upp í grunnbúðir Everest í tengslum við það að nú eru tæp fimmtán ár frá því að Haraldur fór sjálfur á toppinn á fjallinu. Þetta var í raun ákveðin tilraunastarfsemi sem gekk betur upp en við þorðum að vona og ekki ólíklegt að fleiri ferðir af þessu tagi séu í bígerð.“
Friðrika Hjördís Geirsdóttir og Haraldur Örn Ólafsson.
Friðrika Hjördís Geirsdóttir og Haraldur Örn Ólafsson. Ljósmynd/Úr einkasafni

Mikilvægt að þekkja mörkin sín

Undirbúningsvinna fyrir gönguna stóð yfir í tæpt ár en hópurinn samanstóð af vönu fjallafólki. „Við vorum samt sem áður dugleg að kynna okkur svæðið og þær hættur sem gætu leynst á ferðalaginu. Fyrir utan æfingar á fjöllum og djúpar pælingar varðandi allan búnað þá fengum við Tómas Guðbjartsson lækni og fjallagarp til að fara með okkur yfir þau atriði sem hafa ber í huga og þarf að varast á ferðalagi sem þessu. Þegar farið er upp fyrir 2500 metra hæð yfir sjávarmáli er hætta á því að maður finni fyrir svokallaðri háfjallaveiki sem getur dregið ansi hratt úr líkamlegum styrk og þoli og þá er mikilvægt að þekkja einkennin og kunna að bregðast við þeim á skjótan hátt.“ Rikka segir afar mikilvægt að þekkja mörkin sín og sjálfan sig vel í ferð sem þessari því að öryggi og vitneskja þurfi að vera í fyrirrúmi. „Svo má ekki gleyma því að njóta undirbúningsins og leyfa sér að hlakka til, það er ekki síður hluti af eftirminnilegu og skemmtilegu ferðalagi.“ Líkamlega formið er ekki síður mikilvægt eins og gefur að skilja. „Formið hefur svo sannarlega áhrif eins og í öllum öðrum líkamlegum áskorunum. Það sem kom mér hinsvegar mest á óvart var hvað maður getur verið þrjóskur í hausnum þegar líkaminn er í einhverri ládeyðu. Andlegur styrkur og jákvæðni er ekki síður mikilvægur hluti, sumir dagar voru hreinlega örlítið erfiðari en aðrir og skipti þá máli að góður andi væri í hópnum og að fólk stæði saman eins og ein heild. Það felst mikill styrkur í því að brosa þegar manni líður ekki nægilega vel.“

Ljósmynd/Úr einkasafni

Þrjóskan tók yfir

Hvernig æfir maður sig fyrir Everest? „Við fórum nú ekki á toppinn sjálfan, við létum duga að heimsækja grunnbúðirnar í þetta skipti en þær eru í tæplega 5400 metra hæð, en toppurinn sjálfur er í 8848 metra hæð. Við fórum hæst á fjall sem heitir Kala Patthar sem eru tæpir 5600 metrar. Æfing fyrir svona ævintýri felst hreinlega í almennri góðri hreyfingu og að sjálfsögðu reglulegum fjallgöngum.“ Rikka segir því miður lítið hægt að undirbúa sig undir háfjallaveiki og hún geti sótt á hvern sem er. „Læknar eru enn að rannsaka þetta fyrirbæri og virðist sem eina lækningin við kvillanum sé að færa sig aftur nær sjávarmáli.“ Rikku leið vel mestallan tímann á fjallinu og segir að loftið í ca 3-4000 metra hæðinni hafi hentað sér best.„Ég fann aftur á móti fyrir súrefnisskortinum þegar við gengum upp á Kala Patthar. Kvöldið áður var súrefnisupptakan komin niður í 65% en undir eðlilegum kringumstæðum á hún að vera 95-100%. Ég fann fyrir miklum slappleika og var lengi að hunskast upp þennan hól. Það er ansi gloppótt minnið frá þessari stundu en ég man bara eftir því að finna fyrir mikilli þreytu og ískulda. Halli minn hvatti mig til að snúa við en þrjóskan tók yfir og ýtti mér áfram. Hann þurfti aftur á móti að blása lífi í bláa putta og hrista mig í gang reglulega, en þetta tókst en fyrir og eftir þetta þá var ég bara með besta móti.“

Ljósmynd/Úr einkasafni

Með húmorinn að vopni

Spurð um fæðið á fjallinu viðurkennir hún fúslega að ævintýraljóminn renni aðeins af ferðinni þegar hún hugsi um matinn, sérstaklega þar sem hún sé matsárari en flestir. „Ég var þó búin að undirbúa mig andlega fyrir þetta og setti húmorinn í aðalhlutverk þegar kom að máltíðunum. Við lifðum að mestu á steiktum hrísgrjónum, kartöflum og eggjum. Það voru steikt egg ofan á flestum réttum, ég er mikil eggjakona þannig að ég gat nú ekki kvartað yfir því. Þetta gaf manni orku og hélt manni gangandi, það var fyrir öllu. Merkilegt nokk þá vorum við stundum það heppinn að finna nokkuð góð kaffihús á ólíklegustu stöðum og fengum þar ljúffengt kaffi og kökur. Flestir misstu nokkur kíló í ferðinni en ég missti ekki eitt gramm, ég get því ekki kvartað yfir mataræðinu.“ Rikka sem hefur ferðast víða um heiminn segir ekkert toppa fegurðina eins og á þessum slóðum. „Ég hef náttúrulega aldrei komist eins nálægt himnaríki eins og á þarna. Þegar við gengum til baka frá grunnbúðunum fór að rökkva, ég hef aldrei séð himininn eins fallegan og stjörnurnar eins stórar og fallegar. Himinninn varð fjólublár og stjörnumergðin með ólíkindum. Sólarupprásin var ekki síðri og mögnuð upplifun að sjá sólina snerta toppinn á hæsta fjalli heims.“

Ljósmynd/Úr einkasafn

Skrifað í skýin að fara aftur

Rikka viðurkennir að eftir ferðalagið og dvölina í fjallinu þar sem hreinlætið var ekkert í sérstöku fyrirrúmi hafi verið afar gott að komast heim í rúmið sitt, heita sturtuna og getað opnað ísskápinn. „Stuttu eftir heimkomuna fór ég í barnaafmæli, ég skammast mín ennþá fyrir það hvernig ég hagaði mér en ég nánast lá með andlitið ofan í hverri kökunni á eftir annarri.“ Hvaða markmið setur maður sér svo þegar maður er búin að fara til Nepal, eða liggur leiðin kannski þangað aftur? „Mér finnst skrifað í skýin að ég eigi eftir að fara aftur fljótlega, já. Þarna eru mörg fjöll sem þarf að skoða, hvert öðru fallegra og svo langar mig að sjá Annapurna. Ég er líka með það að markmiði að skutlast upp á Kilimanjaro og kannski í framhaldinu að klífa Mt. Blanc. Svo eru ansi mörg fjöll sem ég á eftir að ganga á hérna á Íslandi,“ segir Rikka að lokum.

Friðrika Hjördís Geirsdóttir.
Friðrika Hjördís Geirsdóttir. Ljósmynd/Úr einkasafn
Ljósmynd/Úr einkasafn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál