Markaðu skrefin að betra lífi

Þóra Hrund Guðbrandsdóttir og Erla Björnsdóttir.
Þóra Hrund Guðbrandsdóttir og Erla Björnsdóttir. mbl.is/Stella Andrea

„Í amstri dagsins getur verið erfitt að finna jafnvægi á milli fjölskyldu, vinnu, félagslífs og heilsu- og sjálfsræktar. Það er því afar mikilvægt að skipuleggja tíma sinn vel og setja sér skýr markmið. Rannsóknir hafa sýnt að einungis um 15-20% fólks setja sér hnitmiðuð markmið til lengri og skemmri tíma, sem er sorgleg staðreynd þar sem skýr markmið geta stórlega aukið árangur og greitt leiðina að betra lífi,“ segja þær Þóra Hrund Guðbrandsdóttir og Erla Björnsdóttir, höfundar Munum dagbókarinnar.

Munum dagbókin er bók sem er hönnuð með það að leiðarljósi að auðvelda markmiðasetningu og tímastjórnun, auka yfirsýn, efla jákvæða hugsun og ekki síður hvetja til framkvæmda. Í því hraða umhverfi sem við lifum í er mikilvægt að vera skipulagður, fá sem mest út úr hverjum degi og umfram allt muna að njóta líðandi stundar.

Þau skref sem þarf að hafa í huga til að hámarka líkur á að markmið náist eru:

Munum að hafa markmiðið krefjandi en raunhæft.

Mikilvægt er að velja sér markmið sem er krefjandi en jafnframt raunhæft. Til dæmis er ekki sniðugt að ákveða að hlaupa maraþon eftir mánuð ef þú hefur aldrei hlaupið meira en fimm kílómetra.

Munum að hafa markmiðið sértækt.

Forðast skal að hafa markmið of almenn, t.d. er markmiðið „ég ætla að verða betri manneskja“ mjög almennt og erfitt er að mæla árangur í að nálgast markmiðið. Betra er að ákveða að hvaða leyti þú vilt bæta þig, t.d. „ég ætla að hafa meira samband við vini mína“. Hér er markmiðið orðið aðeins mælanlegra en þó er enn hægt að gera það skilvirkara.

Munum að hafa markmiðið mælanlegt.

Sem dæmi er markmiðið „ég ætla að hitta vini mína a.m.k. tvisvar í viku“ mun sértækara og vænlegra til árangurs. Þegar markmið eru vel skilgreind og auðvelt er að mæla árangur þeirra er mun líklegra að við fylgjum þeim eftir.

Munum að búta markmiðið niður.

Ef markmiðið er stórt getur verið gott að skipta því niður í nokkra litla hluta sem eru viðráðanlegri. Með þessu móti er mun líklegra að þú gefist ekki upp. Ekki hugsa of mikið um lokamarkmiðið, einbeittu þér frekar að einum hluta í einu. Settu upp aðgerðaáætlun að markmiðunum og fylgdu henni. Því nákvæmari sem áætlunin er, því betra.

Munum að hafa markmiðið innan ákveðins tímaramma.

Mikilvægt er að ákveða hvenær þú ætlar að ná markmiðinu og setja þér tímaáætlun. Gott er að setja sér bæði skammtíma- og langtímamarkmið.

Myndræn framsetning.

Finndu/búðu til mynd af markmiðinu þínu og hafðu myndina sýnilega. Það er ótrúlega skemmtilegt að búa til myndir af draumum sínum, þannig lifna þeir við og við þráum þá enn heitar! Skrifaðu markmiðið niður, rannsóknir hafa sýnt að þá er mun líklegra að þú fylgir því eftir.

Munum að deila markmiðinu með öðrum.

Ef þú segir öðrum frá markmiðum þínum er mun líklegra að þú náir þeim. Það er oft auðveldara að svíkja sjálfan sig en þegar maður hefur sagt öðrum frá getur það sett á mann auka pressu.

Munum að verðlauna okkur þegar vel gengur.

Ekki gleyma að verðlauna þig þegar þú hefur náð settum markmiðum. Ákveddu fyrir fram með hvaða hætti þú ætlar að verðlauna þig. Umfram allt er mikilvægt að hafa þetta skemmtilegt, ekki setja þér markmið sem eru þér mikil kvöð.

Það að skrá niður markmið sín á hnitmiðaðan hátt eykur stórlega líkur á árangri. Við það eitt að setja sér markmið má margfalda líkur á árangri, ef markmiðin eru einnig skrifuð niður aukast líkur á árangri um rúm 40% til viðbótar. Með því að skilgreina markmiðin vel, skipta þeim niður í minni skref og hafa á þeim fastan tímaramma aukast líkur á árangri svo enn frekar. Á þennan hátt má hugsa Munum dagbókina sem verkfæri fyrir fólk til að skilgreina og fylgja eftir markmiðum sínum á einfaldan og skilvirkan hátt og auka þannig líkur á árangri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál