„Jóga gaf mér lífið“

Þór Jóhannesson jógakennari í World Class er búinn að vera …
Þór Jóhannesson jógakennari í World Class er búinn að vera edrú síðan 2014. mbl.is/Árni Sæberg

Það er iðulega biðröð eftir að komast í jógatíma hjá Þór Jóhannessyni, hot jóga-kennara í World Class. Þór er svo sannarlega ekki fæddur með silfurskeið í munni og hefur ýmsa fjöruna sopið, sem nýtist honum vel í starfinu. Hann þakkar jóganu fyrir að hann er edrú í dag.

Það fer ekki framhjá neinum sem sækir jógatíma hjá Þór að hann hvílir vel í sjálfum sér. Hann býður ekki bara upp á góðar rútínur í jóganu heldur talar fallega við kúnnana og fólk kemur endurnýjað út úr tímunum.

„Ég leiddist út í jóga fljótlega eftir að ég varð edrú 2014. Þá kom ég út úr mikilli áfengis- og eiturlyfjaneyslu sem hafði staðið yfir frá 2009. Ég hrökklaðist í meðferð 2014 sem varð upphafið að nýrri ævi,“ segir hann.

Þegar ég spyr hann út í neysluna segist hann hafa verið í daglegri áfengisneyslu og notað amfetamín með, en þó ekki daglega.

„Áfengi var dópið mitt en amfetamínið var meira til að halda mér í jafnvægi,“ segir Þór og játar að hann hafi verið búinn að drekka allt frá sér þegar hann fór í meðferð.

Þór vann sem kennari þegar Ísland hrundi árið 2008 og í kjölfarið missti hann vinnuna. Hann var edrú í þrjú ár á árunum 2006 til 2009 en þá fór að halla undan fæti og fíknin náði tökum á honum. Þegar Þór missti vinnuna fór hann inn í bótapakka.

„Ég var nýbúinn með kennslufræði og starfaði sem íslenskukennari í Árbæjarskóla. Planið var að fara að kenna í framhaldsskóla en það losnuðu engar stöður á þessum tíma þannig að ég datt inn í bótapakka,“ segir hann.

Alkóhólismi er flókið fyrirbæri. Þegar ég spyr Þór á hvaða stað hann hafi verið þegar hann náði botninum segir hann að sjúkdómurinn sé skilgreindur á misjafnan hátt.

„Það er erfitt að tjá sig um það. Ég er þeirrar skoðunar að þegar maður fer yfir einhverja línu þá þurfi maður hjálp. Það er fjandanum erfiðara að viðurkenna fyrir sér að maður þurfi hjálp. Ég setti hausinn undir mig og bjó mér til aðstæður,“ segir hann.

Stuttu eftir að Þór fór í meðferð lá leið hans á hugleiðsluhelgi fyrir utan bæinn. Í þessari ferð kynntist hann ekki bara hugleiðslu heldur líka jóga. Hann var að byrja 12 spora vinnu og fann hvað jógað og hugleiðslan gerði honum gott. Eins og fyrr segir náði hann að vera edrú í þrjú ár frá 2006 til 2009 en á þeim tíma hafi hann ekki tekið þátt í neinni andlegri vinnu. Það gerði það að verkum að edrúmennskan varð snúin sem leiddi til þess að hann fór aftur í neyslu.

„Á hugleiðsluhelginni kynntist ég manni sem kom mér í samband við jógamunk sem kenndi mér alvöru jógíska hugleiðslu. Ég sökkti mér í kjölfarið ofan í allt sem tengdist jóga og hugleiðslu og fékk hugleiðslu-app hjá Tolla og svo hjálpaði Ásdís Olsen líka. Jógamunkurinn var í raun hryggjarstykkið sem vantaði því hann kenndi mér alvöru hugleiðslu,“ segir hann.

Þór segir að flestir fari hina leiðina inn í jóga, byrji í jóga sem líkamsrækt og detti í hugleiðslu í framhaldinu en hjá Þór var þetta alveg öfugt. Hann segir að jóga sé svo miklu stærra en bara asanas eða líkamsræktaræfingar.

„Jógamunkurinn kenndi mér að hugleiða. Á þessum tíma átti ég ekki bót fyrir boruna á mér og hafði ekki efni á neinu. Ég hafði til dæmis ekki efni á að kaupa mér jógatíma en ég átti kort í sundlaugunum og byrjaði að iðka asanas á sundlaugarbakkanum. Þar var ég að æfa mig að standa á haus og svona. Ég hafði fengið leiðbeiningar hjá þessum munki og áhugi minn var orðinn svo mikill og ástríðan ennþá meiri að það varð ekki aftur snúið. Ég vaknaði á morgnana, hugleiddi, fór í sund og gerði asanas. Svona var dagleg rútína hjá mér.

Sumarið 2015 er ég kominn með þéttan andlegan grunn og kominn með kort í líkamsræktarstöð en þar kynntist ég hot jóga. Á þessum tíma fór ég inn í Virk og þau studdu mig inn í World Class,“ segir hann og játar að hann hafi verið dálítið hrokafullur og með fordóma gagnvart líkamsræktarstöðvum eins og World Class.

„Ég var hrokafullur með mitt jóga og fannst World Class ekki vera málið en svo lenti ég í tíma hjá Brynju Bjarnadóttur og var fljótur að finna að það voru mjög góðir jógakennarar í stöðinni,“ segir hann.

Þegar hann var búinn að stunda jóga í World Class í svolítinn tíma ákvað hann að fara í jóganám í Danmörku. Markmiðið var alls ekki að verða jógakennari heldur að verða betri í jóga. Eftir heimkomu frá Danmörku æxlaðist það þannig að hann fór að detta inn sem afleysingakennari í hot jóga í World Class og eftir það byrjaði boltinn að rúlla. Áður en hann vissi af var hann farinn að kenna jóga í stöðinni.

Í nóvember og desember á síðasta ári dvaldi Þór á Indlandi þar sem hann stundaði meira jóganám. Hann segist hafa farið í námið til að hvíla betur í sjálfum sér í jógakennslunni.

„Fyrst og fremst vil ég alltaf fá meiri og dýpri þekkingu.“

Þór kennir í World Class í Laugum og í Smáralind. Hann segist kenna eins mikið og hann þurfi til að endar nái saman.

„Ég er mjög ánægður með að vinna í World Class og Dísa er besti yfirmaður sem ég hef haft,“ segir hann og á þá við Hafdísi Jónsdóttur, eiganda World Class. Þegar ég spyr hann hvað jógað hafi gert fyrir hann segir hann svarið vera einfalt.

„Jógað hefur gefið mér lífið. Það var mín leið inn á rétta braut. Ég hef aldrei áður hvílt svona vel í sjálfum mér. Ég vakna á hverjum morgni glaður. Þetta hefur læknað öll mein í lífinu, bæði andleg og líkamleg.“

Þór er ekki bara með hóptíma því hann býður fólki upp á einkakennslu. Hann segir að það henti vel fyrir þá sem þurfi að ná einhverjum ákveðnum stöðum betur og fyrir þá sem vilja komast lengra og dýpra inn í stöður.

Þegar ég spyr hann hvað hann geri þegar hann er ekki að vinna segist hann varla eiga áhugamál nema kannski að horfa á fótboltaleiki með föður sínum. Arsenal er hans lið. Svo deilir hann því með mér að hann sé að verða tilbúinn fyrir ástina en hann hefur verið einhleypur síðustu ár.

„Það getur verið erfið orka að leita að ástinni. Ég er opinn fyrir því að ástin muni birtast. Leita er ekki rétta orðið.“

Aðspurður hvar hann haldi að ástina sé að finna segist hann ætla að halda sínu striki. „Bara leyfa flæðinu að ráða för og treysta innsæinu,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál