Gekk á milli lækna í 20 ár

Helga Kristín Hermannsdóttir og börnin hennar fjögur.
Helga Kristín Hermannsdóttir og börnin hennar fjögur.

Helga Kristín Hermannsdóttir er 36 ára fjögurra barna móðir og glímir við endrómetríósu eða legslímuflakk. Hún gekk á milli lækna í tæp 20 ár þangað til að hún fann loksins lækni sem gat hjálpað henni.

Helga Kristín segir köstin sem fylgja sjúkdómnum geti verið ótrúlega slæm og líkir því við að eignast barn.

„Það verða hins vegar engin verðlaun í lokin eins og þegar þú eignast barn,“ segir Helga Kristín. „Þetta heltekur þig og það er ekkert hægt að gera, þú verður að bíða þetta af þér. Þú getur ekki staðið upp heldur engist bara um, líður út af og ælir. Maður kemst ekki einu sinni hjálparlaust fram úr rúminu.“

Fór í fyrstu aðgerðina 19 ára

Helga Kristín fann fyrst fyrir miklum verkjum nokkrum árum eftir að hún byrjaði á blæðingum eða þegar hún var 18 ára. Hún fór síðan í sína fyrstu aðgerð aðeins 19 ára gömul þar sem hreinsað var út úr leginu.

„Það sem gerist eftir svona aðgerð er að sjúkdómurinn jafnar sig í nokkur ár áður en hann tekur sig upp aftur. Ég byrjaði að eignast börn þegar ég var 22 ára og það má segja að barneignirnar hafi haldið köstunum niðri.“

Nú er Helga Kristín hins vegar búin að eignast fjögur börn og orðin 36 ára. Köstin eru því byrjuð að gera vart við sig aftur og hafa haft áhrif á líf hennar. Hún hefur þurft að vera í veikindaleyfi frá því í desember síðastliðnum. Hún sér þó fram á bjartari tíma þar sem eftir að hafa gengið á milli lækna er hún á leið í aðgerð.

Fann rétta lækninn

Í desember fór Helga Kristín til kvensjúkdómalæknisins síns. „Það sem hann hafði að segja við mig var að ég mundi verða svona áfram næstu 15 árin. Mér leist ekkert á það enda búin að vera svona nógu lengi. Þannig að ég fór að googla, það hlyti að vera eitthvað sem væri hægt að gera.“

Helga Krístín komst í samband við endrómetríósu-félagið á Íslandi, sem benti henni á réttan lækni. En að mati Helgu Kristínar vantar þekkingu á sjúkdómnum hjá læknum og heilbrigðisstarfsfólki á Íslandi. Læknirinn sem Helga Kristín fór til heitir Ragnheiður Árnadóttir.

„Þvílíks guðsgjöf sem þessi kona var. Númer eitt tvö og þrjú vissi hún um hvað ég var að tala og skildi mig. Hún ákvað að ég mundi fara í aðgerð þar sem teknir yrðu báðir eggjaleiðararnir, hægri eggjastokkurinn og legið.“

Erfiðir biðlistar

Þó svo að ákveðið væri að Helga Kristín færi í aðgerð dróst það á langinn vegna langra biðlista. Helga Kristín var hins vegar komin með nóg af verkjunum og hafði sjálf samband við Kvennadeildina á spítalanum á Akureyri og komst fljótlega að þar. Helga Kristín segist hafa heyrt um konur sem eru að reyna að fara utan í aðgerðir vegna legslímuflakks vegna þess að þær komist ekki að á Landspítalanum.

Helgu Kristínu finnst nauðsynlegt að auka vitundarvakningu um legslímuflakk. „Það er ekki eðlilegt að þurfa parkódín forte og íbúfen til þess að komast í gegnum daginn. Ég á sjálf þrjár dætur og ég vona innilega að þær verði ekki bara sendar heim með nýjan og nýjan lyfseðil.“

skjáskot/endo.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál