Komdu þér í form með fjallgöngum

Vilborg Arna Gissurardóttir.
Vilborg Arna Gissurardóttir.

Vilborg Arna Gissurardóttir er ein hraustasta kona Íslands. Hún segir að fjallgöngur séu frábær leið til að komast í toppform. Í nýjasta pistli sínum útskýrir Vilborg hvers vegna fjallgöngur eru snilld: 

Fjallgöngur eru frábærar sem heilsu- og líkamsrækt. Að svitna undir berum himni, fá púlsinn upp og roða í kinnar. Sumum finnst tilhugsunin um að fara í fjallgöngu yfirþyrmandi ef að reynslan er lítil eða fyrri reynsla hefur ekki verið góð.

Það geta nánast allir gengið á fjöll, þetta er bara spurning um að fara rétt að. Byrja á réttum stað og ætla sér ekki of mikið í upphafi. Algengt er að fólk velji sér Esjuna sem upphafsfjall en ég mæli með því að fólk prófi sig áfram á öðrum fjöllum fyrst. Fyrir þá sem eru að byrja myndi ég mæla með að fara á; Mosfell, Úlfarsfell, Helgafell í Hafnarfirði og reyna svo við Esjuna. Þannig má byggja upp þol og vinna sig smá saman uppá við. 

Það er ekki skynsamlegt að byrja á að keppa við tíma heldur fyrst og fremst að láta sér líða vel og læra inn á sjálfan sig í aðstæðunum. Góðri göngu fylgir ekki bara gott útsýni heldur líka ólýsanleg vellíðan þegar endorfínið byrjar að streyma um kroppinn.

Á móti fjallgöngunum er frábært að stunda styrktaræfingar, teygjur og „mobility“ æfingar. Það er gott að hafa sterkt kjarnasvæði (core), gott jafnvægi og byggja upp sterka fætur. Þeir sem eru komnir lengra í útivistinni geta notast við HIIT – æfingar, tímatökur og þjálfað upp góða tækni sem ég mun fjalla síðar um. 

Fjallgöngur hafa góð áhrif á hjarta og æðakerfið og sýnt hefur verið fram á að útivist hjálpi til við að létta lund ef svo ber undir.  Mér finnst sérstaklega gott að stunda útivist þegar ég er undir miklu álagi þar sem að maður nær að vera í algjörri núvitund. 

Að vera í formi er afar persónubundið hugtak og við eigum það til að vera miða okkur við hvort annað. Það er auðvitað allt í góðu og getur verið hvetjandi í réttum kringumstæðum. Það er þó mikilvægt að muna að maður er fyrst og fremst að keppa við sjálfan sig.

Fyrir þá sem eiga skrefa- eða púlsmæla er mjög gagnlegt að fylgjast með þeim upplýsingum og safna í sarpinn. Eins mæli ég sérstaklega með því að fylgjast með þróuninni í öppum eins og Strava eða Sportstracker. Þar er einmitt tilvalið að setja sér markmið um kílómetra eða hæðametra og verðlauna sig þegar því er náð.

Vilborg Arna er vinsæll fyrirlesari.
Vilborg Arna er vinsæll fyrirlesari. ljósmynd/Ben Gruber
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál