Balí er best í heimi

Vilborg Halldórsdóttir fer með hóp til Balí í haust.
Vilborg Halldórsdóttir fer með hóp til Balí í haust.

Vilborg Halldórsdóttir ævintýrakona er á leið til Balí og Taílands með hóp af fólki þar sem hún mun verða fararstjóri í magnaðri ævintýraferð þangað. Vilborg segir Asíuáhugann hafa kviknað þegar sonur hennar fluttist til Singapore ásamt fjölskyldu sinni og fór þar í nám og skyndilega hafi eina barnabarnið hennar verið staðsett hinum megin á hnettinum. Þegar Vilborg var beðin um að vera fararstjóri í þessari ævintýraferð sagði hún strax já. Þetta er þriðja septemberferðin, en alls eru Balíferðir Farvel af þessum toga orðnar átta, þetta verður sú níunda.   

„Þetta verður 2 vikna ævintýri þar sem við byrjum á að drekka í okkur töfra bæjarins Ubud sem er menningarlegt hjarta Balí. Við munum fara í tvær skoðunarferðir meðan við erum þar en reynum að forðast miklar rútuferðir. Göngum og bara njótum þess að drekka í okkur þetta ævintýri sem Balí er, því hún er handan orða. Sumsé orð ná ekki yfir upplifunina,“ segir Vilborg.

Þegar ég spyr Vilborgu hvað hún hlakki mest til að sýna fólki nefnir hún töfrana sem þessi lönd hafa upp á að bjóða. 

„Aðallega töfrana í hinu smáa. Fegurðina sem er svo umvefjandi, helgisiðina, skrautið sem fylgir Hindúismanum.  Að sitja við lótustjörn á miðjum hrísgrjónaakri eftir himneskt nudd og sötra fljótandi ávöxt. Að vera á himneskum ströndum í tærasta sjó og hlýjum.

Mig hafði nú dreymt um að fara til Balí frá því að ég var tvítug; “ einu sinni fórum við í bað og ferðuðumst til Balí” … auðvitað bara í draumnum. Þetta skrifaði ég 1978,“ segir Vilborg og vísar í hinn þekkta texta við lagið Húsið og ég sem hljómsveitin Grafík gerði vinsælt. 

Vilborg segir að þessi tveggja vikna ferð verði allskonar en hópurinn mun dvelja á þremur stöðum á Balí. 

„Siglt verður til lítillar eyju Gili Air sem er eiginlega kóralrif. Þar eru engir bílar, né vespur. Bara litlir hestar sem á hestvögnum draga farangurinn þinn. Það tekur aðeins 20 mínútur að skokka hringinn í kringum hana. Þar er sjórinn kristaltær og þar geturðu snorklað í kringum sæskjaldbökur. Þegar ég var þar áður fannst mér ég vera á suðurhjara veraldar, bak við heiminn. Í þessari haustferð skoðum við sumsé fornminjar, verðum á strönd, förum í jóga ef við viljum og bara verðum til. Svo endum við þessa haustupplifun á því að dvelja tvær nætur í Bankok í Taílandi.“

Er þetta heilsuferð? 

„Bara að vera á Balí er heilsusamlegt. Fólk bara ákveður það. Þar færðu himneska ávaxtasafa, þeytinga, kokteila … bara nefndu það. Kókoshnetusafa beint úr hnetunni sem opnuð er fyrir framan þig með sveðju. Best í heimi. Ubud er náttúrulega með ævintýralega marga og góða jógastaði. Ég mun verða fólki innan handar við að velja sér staði, en ekkert er skylda. Svo er Balí bara þannig að hún fer að stjórna hraðanum þínum. Þarna ríkir enginn Íslendingsæsingur, þú byrjar bara hægt og hljótt að fara inn á við.“ 

Hvernig ferðalög finnst þér skemmtilegust?

„Svona, þar sem farið er á framandi staði. Þar sem maður lærir eitthvað áreynslulaust. Ég elska líka víðáttur, þess vegna elska ég hestaferðir á hálendi Íslands og fer allavega í eina slíka sem leiðsögumaður á hverju sumri. Ég elska náttúru og hita en verslunarkjarnar og loftræstingar eru sko ekki minn tebolli.“

Gili Air er mögnuð eyja.
Gili Air er mögnuð eyja.

Að ferðast til Balí er langt ferðalag. Þegar ég spyr Vilborgu hvernig hún hagi sér í flugvélum segist hún reyna að sofa og lesa. 

„Svo verð ég að vera í þægilegum fötum.“

Hvað er ómissandi í flugið? „Svefngríma, eyrnatappar og pashminu sjal.“

Það er ekki hægt annað en að spyrja Vilborgu að því hvernig hún fari að því að eldast ekki neitt. Hún er einhvern veginn alltaf eins ár eftir ár. 

„Galdurinn er nú aðallega foreldrar manns, genin sumsé. En reglulegur svefn, heilbrigt mataræði, hreyfing og hófleg víndrykkja skipta öllu máli. Svo er ég er með ofnæmi fyrir MSG og hef aldrei getað borðað skyndibita,“ segir hún. 

Þessi mynd var tekin á Gili Air sem er lítil …
Þessi mynd var tekin á Gili Air sem er lítil eyja sem farið verður til í ferðinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál