Skoðar landslagið í hlaupaskónum

Aldís Arnardóttir.
Aldís Arnardóttir.

Aldís Arnardóttir, rekstrarstjóri hjá 66°NORÐUR og hlaupaþjálfari hjá Laugaskokki, hlaupahópi World Class Laugum, er dugleg að prófa nýjar hlaupaleiðir og segir það frábært að skoða landslagið á tveimur jafnfljótum.

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa og af hverju?

Ég hef alltaf verið dugleg að hreyfa mig og var til dæmis í frjálsum íþróttum og fótbolta fram á unglingsaldur. Ég byrjaði samt ekki markvisst að hlaupa fyrr en í kringum 2012 - 2013 og það má eiginlega segja að kærastinn hafi smitað mig af hlaupabakteríunni en hann hleypur mikið sjálfur.

Aldís Arnardóttir fékk hlaupabakteríuna frá kærasta sínum, Kára Steini Karlssyni …
Aldís Arnardóttir fékk hlaupabakteríuna frá kærasta sínum, Kára Steini Karlssyni hlaupara.

Hvað færðu út úr því að hlaupa?

Mér finnst fátt betra en að skella mér í hlaupaskóna og fara út að hlaupa. Þetta er svo einfalt sport og fyrirhafnarlítið en gefur manni á sama tíma svo mikið frelsi, maður gleymir sér í augnablikinu og losar um streitu og óþarfa áhyggjur. Fyrir mér snúast hlaupin að miklu leyti um að láta sér líða vel og hafa gaman af, síðan er það auðvitað plús að þau halda manni í góðu líkamlegu formi.

Hvernig er að æfa hlaup á veturna?

Það er ekkert mál að hlaupa í alls konar veðrum, svo lengi sem maður er tilbúinn að aðlaga sig að aðstæðum og sætta sig við að fara hægar yfir þegar veður er slæmt. Við í Laugaskokki erum með æfingar allan ársins hring og höfum hingað til aldrei þurft að fresta eða hætta við æfingu sökum veðurs. Þetta snýst bara um að vera með rétta hugarfarið og klæða sig eftir veðri. 

Aldísi finnst gaman að njóta náttúrunnar á hlaupum.
Aldísi finnst gaman að njóta náttúrunnar á hlaupum.

Hverjar eru uppáhaldshlaupaleiðirnar þínar?

Á höfuðborgarsvæðinu finnst mér frábært að hlaupa meðfram sjónum í Reykjavík og út á Seltjarnarnes, það er bara eitthvað við sjóinn sem heillar mig og hefur alltaf gert. Annars er eitt af áhugamálunum að finna nýjar hlaupaleiðir og þá sérstaklega á ferðalögum um landið. Það er svo gaman og mikið frelsi sem felst í því að geta skoðað landið okkar á tveimur jafnfljótum.

Ertu með einhver markmið fyrir sumarið?

Markmiðið í sumar er helst að halda áfram að njóta þess að hlaupa, ferðast um landið og finna skemmtilegar hlaupaleiðir. Ég fór mitt fyrsta maraþon síðasta haust sem var algjörlega frábær lífsreynsla en ætli ég haldi mig ekki við styttri vegalengdirnar í ár. Ég er ekki enn þá búin að negla hlaupadagskrána í sumar en geri ráð fyrir að þau verði nokkur og þá sérstaklega einhver utanvegahlaup.

Aldís ráðleggur fólki sem er að byrja að hlaupa að …
Aldís ráðleggur fólki sem er að byrja að hlaupa að fara rólega af stað.

Áttu þér uppáhaldshlaup?

Ég fór í mörg skemmtileg hlaup síðasta sumar sem hluta af undirbúningi fyrir maraþonið sem ég fór í þá um haustið. Ætli það séu ekki um þrjú hlaup sem standa upp úr. Snæfellsjökulshlaupið sem er virkilega krefjandi en á sama tíma ótrúlega falleg hlaupaleið sem liggur upp að Snæfellsjökli. Síðan fór ég Vesturgötuna á Vestfjörðum sem er eitt það allra skemmtilegasta sem ég hef gert en í því hlaupi er farinn gamall vegslóði sem liggur á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Að lokum er það síðan Vestmannaeyjahlaupið þar sem ég tók hálft maraþon og þræddi eyjuna í bókstaflegri merkingu í mjög svo fjölbreyttu landslagi. Það sem öll þessi hlaup eiga sameiginlegt er ómetanlega fallegt umhverfi og ætli það sé ekki bara eitt af því sem sem heillar mig svona við hlaupin, það að hlaupa úti og njóta þess sem verður á vegi manns.   

Ef þú ættir að ráðleggja fólki sem hefur ekki hlaupið mikið en langar til að byrja í sumar, hvað myndir þú ráðleggja því? 

Ég ráðlegg þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í hlaupum að byrja rólega og muna að hlaup eiga ekki endilega alltaf að vera streð og púl, heldur líka til þess að hafa gaman af. Það er nokkuð algengt að byrjendur fari of geyst af stað og fari fram úr sér á fyrstu vikunum sem getur leitt til meiðsla. Hvað varðar búnað er síðan bara mikilvægt að vera í góðum skóm!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál