Þessu ættir þú að venja þig af fyrir fertugt

Ljósmynd / Getty Images

Margir segja að lífið hefjist um fertugt, og enn fleiri segja að 40 sé hið nýja 30. Því er þó ekki að neita að eftir því sem árin færast yfir verður mikilvægara að hugsa vel um líkamann. Það er því ekki úr vegi að taka lifnaðarhættina til skoðunar og jafnvel láta af gömlum ósiðum.

Vefurinn Prevention tók saman nokkra ósiði sem fertugir ættu að endurskoða.

Sleppa styrktarþjálfun
Vöðvamassi fólks byrjar gjarnan að minnka upp úr þrítugu, en í kringum fertugt verður ferlið hraðara en áður. Vöðvamassinn hefur mikið með grunnbrennslu líkamans að segja, en eftir því sem hann er minni hægist á brennslunni. Styrktaræfingar, svo sem tvisvar í viku, hjálpa til við að byggja upp vöðvamassa og halda brennslunni í góðu horfi.

Háma í sig sykur
Best er að hugsa sig tvisvar um áður en kexpakkinn er opnaður, eða bragðarefnum sporðrennt. Of mikil neysla á sykri getur leitt til þess að líkaminn á erfiðara með að vinna úr honum, sem síðan getur leitt til sykursýki af gerð tvö. Sjúkdómurinn er algengari meðal fólks sem komið er á miðjan aldur, svo það er gott ráð að draga úr neyslu á sætindum áður en fólk nær fertugu.

Fresta krabbameinsskoðun
Eftir fertugt aukast líkurnar á því að konur þrói með sér brjóstakrabbamein, og því er mikilvægt að mæta reglulega í læknisskoðun.

Vaka fram eftir öllu
Þegar dagskráin er þéttskrifuð getur verið erfitt að festa svefn á kvöldin, en ansi margir fá að jafnaði ekki nægan svefn. Þegar fólk nær fertugu getur verið enn erfiðara að ná góðum nætursvefni, enda verða ýmsar hormónabreytingar í líkamanum. Því er mikilvægt að tileinka sér góðar svefnvenjur, fara ætíð í rúmið á sama tíma og takmarka snjalltækjanotkun á kvöldin.

Styrktarþjálfun er mikilvæg.
Styrktarþjálfun er mikilvæg. Ljósmynd / Getty Images

Skrópa í leghálsskoðun
Þótt konur fari reglulega í krabbameinsskoðun þýðir það ekki að þær ættu að hundsa lækninn þess á milli. Gott er að fara í árlega skoðun, til að ganga úr skugga um að allt sé með kyrrum kjörum.

Gleyma sólarvörninni
Það er ekki aldrei gott að brenna, en eftir því sem árin færast yfir verður mikilvægara að bera á sig sólarvörn. Þá er einnig gott að fylgjast vel með fæðingarblettum og fara reglulega til húðlæknis í eftirlit.

Virða augnlækninn að vettugi
Einstaklingar sem eru með stórgóða sjón, eða þeir sem hafa ekki orðið varir við neinar breytingar undanfarin ár, telja sjaldan að þeir þurfi að hlaupa til og panta tíma hjá augnlækni. Eftir fertugt er þó líklegra að fólk fari að þróa með sér sjúkdóma, líkt og gláku, en fyrstu merkin eru gjarnan óljós.

Slugsa við tannumhirðu
Sumir eiga það til að nenna ekki að bursta tennurnar, eða nota tannþráð, svona endrum og sinnum. Læknar benda þó á að það sé sérlega mikilvægt að halda tannheilsunni í  góðu lagi, enda sé góð umhirða nauðsynleg til að halda tannholdinu góðu, og hjartasjúkdómum og sykursýki í skefjum.

Fá ekki næg vítamín
Við tíðahvörf minnkar framleiðsla á estrógeni sem getur leitt af sér minnkaða beinþéttni. Það er því mikilvægt að huga að D-vítamín og kalkinntöku áður en breytingaskeiðið skellur á.

Best er að halda sykurneyslu í lágmarki.
Best er að halda sykurneyslu í lágmarki. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál