Löðrandi sveittar og eiga 27 börn samtals

Hópurinn Löðrandi sveittar mæður.
Hópurinn Löðrandi sveittar mæður. Ljósmynd/Ólöf

Ólöf Daðey Pétursdóttir tilheyrir hópnum Löðrandi sveittar mæður sem ætlar að hjóla hringinn í kringum landið til styrktar björgunarsveitum landsins í WOW Cyclothon á morgun. Hópurinn samanstendur af tíu mæðrum sem samanlagt eiga 27 börn.

WOW Cyclothon er keppni þar sem tíu manna lið skiptist á að hjóla hringinn í kringum landið. 

Flestallar óreyndar

„Við bara ákváðum að fá smá áskorun í lífið og sjá hvort að við gætum þetta,“ sagði Ólöf. „Við köllum þetta svona nett húsmæðraorlof.“

Mæðurnar eru blanda af frænkum og vinkonum sem þekkjast allar innbyrðis en samkvæmt Ólöfu eru þær flestallar nýbyrjaðar að hjóla. „Við erum enn að læra á hjólaskóna og gírana og svona,“ sagði Ólöf.

Þrátt fyrir að sumar þeirra séu fyrrverandi íþróttakonur segir Ólöf þær alls ekki vera neinar afreksíþróttakonur. „Við erum bara svona venjulegar konur, en allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ sagði hún.  

Æfðu ekki eins mikið og þær ætluðu

Hópurinn hefur verið að æfa á fullu fyrir cyclothonið síðan í haust og það var einmitt á æfingu sem nafnið Löðrandi sveittar kom til. „Við vorum alltaf að hlæja að því á æfingu hvað við værum nú löðrandi sveittar og okkur fannst nafnið bara passa vel við okkur.“

Mæðurnar hafa verið að hittast allar einu sinni í viku og hjóla saman og fá svo ákveðinn kílómetrafjölda sem þær eiga að klára sjálfar. „Æfingaplanið okkar gekk ekki alveg upp eins og það átti að gera eins og gengur og gerist með 27 börn samtals, en við höfum verið duglegar,“ sagði Ólöf.

Aðalmarkmið hópsins er að komast í mark en Ólöf segir að þær ætli að leggja áherslu á að hlæja, hafa gaman að þessu og sjá landið.

Vilja hvetja fleiri til að taka þátt

Það kom hópnum á óvart hvað það voru fáar konur og óreyndir hjólreiðamenn að keppa í cyclothoninu og vilja hvetja fleiri í að taka þátt. „Ef sveittar mæður geta þetta þá geta þetta allir. Við segjum bara allir út að hjóla og leggja góðu málefni lið,“ sagði hún. Ólöf bætti við að hún hefur fundið fyrir því að margar mæður, ungar sem aldnar, væru að sýna áhuga á að taka þátt á næsta ári sem er ekkert nema jákvætt.

Ólöf sagðist vera stolt af því að hjóla fyrir björgunarsveitina því hún gerir svo margt gott og vonast til að fólk styrki liðin sem eru að keppa. „Ég vona að flestir leggi málefninu lið og heiti á hvaða lið sem er, þetta fer allt á sama stað í lokin.“

Hræðast ekki veðrið

Ólöf sagði að það væri mikill spenningur í hópnum ásamt smá fiðringi í maga en þrátt fyrir slæma veðurspá eru þær ekkert hræddar við veðrið. „Við erum frá Grindavík og erum vanar slagvirði þannig að það hefur ekkert áhrif á okkur,“ sagði hún.

Hægt er að fylgjast með hópnum á Facebook og á heimasíðu WOW Cyclothon en þar er einnig hægt að heita á lið og styrkja málstaðinn í leiðinni.

Hópurinn hefur verið að æfa síðan í haust.
Hópurinn hefur verið að æfa síðan í haust. Ljósmynd/Ólöf
Löðrandi sveittar mæður ásamt Þorvaldi Daníelssyni.
Löðrandi sveittar mæður ásamt Þorvaldi Daníelssyni. Ljósmynd/Ólöf
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál