Glúten leynist í þessum tíu vöruflokkum

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef þessi fyrirsögn vekur áhuga og forvitni hjá þér eru allar líkur á að þú sért annaðhvort nú þegar búin að komast að raun um að þú þarft að forðast glúten, eða þig grunar að það gæti verið orsök ýmissa heilsufarsvandamála hjá þér. Nýjustu rannsóknir sýna að glútenlaust líf gæti verið besti valkostur þinn er þú vilt bæta heilsu þína, einkum ef þú þjáist af sjálfsónæmissjúkdómum eða skjaldkirtilssjúkdómum eins og Hashimoto’s eða annarri van- eða ofvirkni í skjaldkirtlinum,“ segir Guðrún Bergmann í sínum nýjasta pistli: 

Glúten í mataræðinu leiðir til lekra þarma, eykur bólgur í líkamanum og getur valdið því að líkaminn ræðst á sjálfan sig. Glúten er eins og olía á elda krónískra sjúkdóma og bólgusjúkdóma. Því skiptir það miklu máli fyrir heilsu þína, sjúkdómseinkenni og bólguköst að taka það alveg úr mataræðinu.

Það dugir samt ekki bara að taka út hveiti eða eitthvað sem sýnilega er með glúteni, því glútenið finnur sér ýmsar leiðir á eða inn í líkama okkar, ef við erum ekki vakandi fyrir því hvar það er að finna, því það er ekki bara í brauði og kökum, heldur í ýmsum öðrum vörum sem koma okkur á óvart.

1 – LÍKAMS- OG FÖRÐUNARVÖRUR
Glúten getur verið í varalit, tannkremi, líkamskremi (body lotion), sjampói, sápu, hárnæringu, barnapúðri og sólarvörn. Mér vitanlega eru ekki margir sem bjóða upp á glútenlaus afbrigði af þessum vörum, en það er hægt að panta þær af vefsíðu W3LL PEOPLE eða Babo Botanicals fyrir ungabörn og mæður.

2 – LYF, BÆTIEFNI OG JURTABLÖNDUR
Margar vörutegundir í þessum flokki eru með fylliefni eins og dextrin, sem getur verið unnið úr maís eða hveiti. Til eru vefsíður með upplýsingum um glútenlausar vörur í þessum vöruflokkum.

3 – LEIR OG MÁLNINGARVÖRUR
Play-Doh-leirinn er búinn til úr hveiti, salti og vatni, og mikið af málningarvörum er unnið úr efnum sem innihalda hveiti.

4 – SÓSUR, KRYDD OG BRAGÐAUKAR
Glúten getur verið í tómatsósum, majónesi, ostasósum og tilbúnum sósum eins og Worcestershire-sósu og salatsósum. Einnig í kryddblöndum.

5 – EGGJAHRÆRA
Sum veitingahús (í USA) bæta pönnukökudeigi út í eggjahræruna, eða kaupa tilbúnar eggjablöndur sem innihalda deig til að gera eggjahræruna fislétta og loftkennda. Því er alltaf best að spyrja ef maður er í vafa hvort maturinn sé glútenlaus.

6 – FRÍMERKI OG UMSLÖG
Ef þið eruð með frímerki eða umslög sem þarf að bleyta (sleikja) til að líma, eru líkur á að í líminu sé glúten. Notið svamp eða sjálflímandi umslög.

7 – KJÖTÁLEGG, KRABBAKJÖT OG VEGAN KJÖTLÍKI
Hveiti er oft notað við framleiðslu á kjötáleggi og í þurrkuðu nautakjöti (beef jerky) er að finna sojasósu sem inniheldur hveiti. „Krabbakjötið“ sem notað er í flestar sushi-rúllur er eftirlíking af krabbakjöti og inniheldur hveiti sem bindiefni. Nánast allar pylsur og pylsuálegg innihalda hveiti. Mikið af vegan „kjöti“ og grænmetisborgurum eru annaðhvort gerð með hveiti eða innihalda eitthvað af 20 innihaldsefnum sem talin eru viðsjárverð – en þau eru:

  1. Gervilitarefni (artificial color)
  2. Lyftiduft (baking powder)
  3. Karamellulitur eða -bragð (caramel color/flavoring)
  4. Sítrónusýra (citric acid, sem getur verið unnin úr hveiti, maís, molassa eða rófum)
  5. Litarefni (coloring)
  6. Dextrósi sem er sykur unninn úr sterkju (dextrins)
  7. Diglycerides (innihalda transfitur)
  8. Ýru- eða bindiefni (emulsifiers)
  9. Ensím (enzymes)
  10. Fitulíki (fat replacers)
  11. Bragðefni (flavorings)
  12. Sterkjuefni (food starch)
  13. Glúkósasíróp (glucose syrup)
  14. Glýseríð (glycerides)
  15. Maltódextrín-sætuefni (maltodextrine)
  16. Breytt fæðusterkja (modified food starch)
  17. Náttúrulegir safar (natural juices)
  18. Bindiefni (stabilizers)
  19. Sterkja (starch)
  20. Hveitisterkja (wheat starch)

8 – ÁFENGI
Bjór er yfirleitt með glúteni, en mér skilst þó að í Vínbúðunum sé nú hægt að fá glútenlausan bjór. Eimað áfengi eins og vodki getur líka innihaldið glúten. Best er að halda sig algerlega frá áfengum drykkjum meðan verið er að hreinsa glúten úr líkamanum, en það getur tekið þrjá til fjóra mánuði.

9 – KARTÖFLUMÚS og KARTÖFLUFLÖGUR
Hveiti er stundum bætt út í kartöflumús til að þykkja hana. Í pakkamús er yfirleitt eitt af innihaldsefnunum hveiti og það kann að vera það líka í frosnum frönskum kartöflum og kartöfluflögum.

10 – SÆLGÆTI
Mikið af sælgæti inniheldur hveiti, eins og til dæmis lakkrís. Einnig er mikið notað af maís við sælgætisframleiðslu, meðal annars sem sætuefnið maíssíróp (HFCS eða high fructose corn syrup), sem er mikill bólguvaldur.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

www.gudrunbergmann.is 

Heimildir: Greinar af vefsíðu Amy Myers M.D.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál