Ætlaði ekki að vera sjúklingur allt sitt líf

Margrét Sigurðardóttir segir heilbrigða skynsemi skipta máli þegar kemur að …
Margrét Sigurðardóttir segir heilbrigða skynsemi skipta máli þegar kemur að því að taka heilsuna í gegn.

Margrét Sigurðardóttir er með vefjagigt og áunnin hjartasjúkdóm vegna streitu en hefur náð að halda sér betri með góðu matarræði og hreyfingu. Eftir að hún eignaðist dóttur í apríl hefur hún verið að taka sig í gegn en þetta er í þriðja skiptið sem hún hefur þurft að byrja alveg frá grunni. Margrét hefur náð góðum árangri án allra öfga.

Var rúmliggjandi í fimm mánuði

Á tæpum fjórum mánuðum hefur Margrét lést um 18 kíló en hún átti mjög erfiða meðgöngu. „Ég átti alveg skelfilega meðgöngu, var nánast rúmliggjandi í fimm mánuði, gat verið á fótum í 3 tíma á dag,“ segir Margrét. „Andleg líðan krassar svolítið, ég fann það eftir að ég átti hana. Viku eftir fæðingu fékk ég fæðingarþunglyndi var með það í svona 3 vikur,“ segir Margrét sem ákvað þá að taka sig í gegn og byrjaði að hreyfa sig en hún fékk góðan stuðning frá bæði eiginmanni sínum og systur.  

Margrét er ekki á neinum megrunarkúr heldur fer hún bara eftir heilbrigðri skynsemi. „Þetta er bara hollt og fjölbreytt mataræði. Ég borða sex sinnum á dag, eina góða máltíð á kvöldin og hrökkbrauð og skyr inn á milli,“ segir Margrét en hún reynir eftir bestu getu að sneiða hjá sykri, brauði og unnum matvörum. Hún er þó með valmáltíð einu sinni í viku þar sem hún leyfir sér eitthvað aðeins óhollara og eftirrétt. „Ég nota engin fæðubótaefni ég tel að það sé bara góð markaðssetning. Ég var einu sinni í þeim pakka en það hafði ekkert að segja.“

Myndirnar eru teknar með fjögurra vikna millibili. Um er að …
Myndirnar eru teknar með fjögurra vikna millibili. Um er að ræða fyrstu fjórar vikurnar í einkaþjálfun.

Hún segist þó ekki hafa byrjað að borða svona skynsamlega strax en eftir fæðinguna datt hún fljótlega í gamla farið að borða einu sinni til tvisvar á dag, eitthvað sem hún gerði stundum fyrir tíu árum. Hún hafði þá samband við einkaþjálfara sem lét hana hafa matarplan og nú er hún einnig í þjálfun hjá henni. En hún æfir fimm sinnum í viku.

Leyfir tilfinningunum að koma

Þó svo að Margrét sé búin að léttast um 18 kíló á tæpum fjórum mánuðum er hún ekki hætt en hún stefnir á að missa 10 til 12 kíló í viðbót. „Þetta geta allir gert við þurfum ekki öll þessi bætiefni sem er verið að troða ofan í okkur til þess að ná einhverjum árangri það er vel hægt að ná árangri á skynsamlegu matarræði og hreyfingu og hreyfingin þarf ekkert að vera öfgakennd. Það er náttúrulega maturinn sem er númer er eitt, tvö og þrjú. Maturinn er alveg 70 til 80 prósent af þessu. Svo þurfum við að gera æfingar til þess að styrkja okkur á móti,“ segir Margrét.

Eins og áður sagði þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem Margrét hefur þurft að byrja upp á nýtt. Þegar hún byrjaði í annað skipti frá grunni þá léttist hún um 18 kíló á einu ári. Spurð hvort að hún hafi aldrei verið við það að gefast upp viðurkennir hún það alveg. „Ef ég datt niður í volæði, að þetta tæki of langan tíma, þá leyfði ég þeim tilfinningum alveg að koma. Fannst þetta ömurlegt, grenjaði eða hvað sem er, en svo bara daginn eftir hélt ég bara áfram. En það mikilvægt að leyfa þessu að koma og vera ekkert að hunsa þessar tilfinningar.“

Margrét hreyfir sig til þess að halda heilsunni.
Margrét hreyfir sig til þess að halda heilsunni.

En Margrét hefur líka verið á þeim stað að hreyfingin snérist um að missa kíló en þá gerðist ekki neitt. „En svo þegar maður fór að gera þetta til gamans, að fá útrás, líða vel þá fóru kílóin að hrynja af mér. Þannig að neikvæðni skilur engum árangri.“

Hreyfingin hjálpar

Hreyfingin snýst um svo miklu meira heldur en að missa kíló hjá Margréti en hún heldur sjúkdómum sínum niðri með hreyfingu. „Ég er með mjög slæma vefjagigt. Ég var svo slæm 2010 að maðurinn minn þurfti að klæða mig í og úr peysum og brjóstahöldurum, axlirnar voru það ónýtar. Ég var bara sprautuð í axlirnar,“ segir Margrét og bendir að að þá hafi læknir rætt mataræði og hreyfingu við hana en það var ekki fyrr en hún fór í tæpt ár í endurhæfingu að hlutirnir fóru að gerast. „Þar var íþróttaþjálfari og þarna var ég komin í ofþyngd og var rosalega slæm af þessari vefjagigt,“ segir Margrét og bætir því við að íþróttaþjálfarinn hafi bent henni á að taka taka mataræðið í gegn en á þessum tíma reykti hún líka. „Ég tók minn tíma ég byrjaði á því að breyta mataræðinu áður en ég hætti að reykja, ákvað að taka mataræðið fyrst í gegn og svo reykingarnar,“ segir Margrét sem vildi ekki lenda í því að leita í sykurinn þegar hún væri að hætta að reykja. Þessar breytingar tóku hana tvö ár en hún segir líka þetta sé langhlaup en ekki spretthlaup.

„Ég ætlaði ekki að verða sjúklingur allt mitt líf mér var boðið örorka og hitt og þetta af læknum en ég var ekki tilbúin í þann pakka. Ég var ekki tilbúin að verða sjúklingur ef ég gat breytt því. Ef ég hafði val í því að breyta ástandinu mínu og að vera á vinnumarkaði og sjá um börnin mín og það tókst svona rosalega vel,“ segir Margrét.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál