Hætti að borða sykur og lífið gjörbreyttist

Albert Þór Magnússon eigandi Lindex á Íslandi hætti að borða …
Albert Þór Magnússon eigandi Lindex á Íslandi hætti að borða sykur og finnur mjög mikinn mun á heilsunni. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Albert Þór Magnússon rekur Lindex á Íslandi ásamt eiginkonu sinni. Líf hans hefur tekið miklum breytingum eftir að hann hætti að borða viðbættan sykur. 

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að taka sykurinn út úr mataræðinu?

„Fyrir þremur árum fengum við, ég og synir mínir, einkirningasótt sem varð til þess að ónæmiskerfið varð fyrir „árekstri“ eins og einn læknir orðaði það. Í tvær vikur var ég hörkuveikur og í kjölfarið var ég drulluslappur næstu mánuði á eftir og flakkaði milli lækna í leit að lausn við stöðugum höfuðverkjum, lungnakvillum og almennu heilsuleysi. Ég hitti svo frábæran lækni sem var með á hreinu hvað þetta var og sagði að sennilega væri hægt að finna leið í gegnum fæðuna en hann gæti ekki sagt hvað það væri, þetta væri misjafnt milli manna og ég þyrfti bara að prófa mig áfram.

Leitin hófst og prófaði ég alls kyns útgáfur eins og að verða vegan, grænmetisæta o.fl. með akkúrat engum árangri. Ég varð bara slappur og orkulaus og verri ef eitthvað var,“ segir Albert.

„Fyrsta uppgötvunin lá í því að ég hætti að drekka kaffi og koffíndrykki en það er um það bil ár síðan ég drakk minn síðasta kaffibolla, enda sennilega búinn að fylla kvótann hvað þann drykk snertir. Það sagði mér að það gæti leynst meira í þessu og ég hélt áfram leit minni. Það var síðan þegar ég var að lesa greinar á netinu að ég las um konu sem lýsti ástandi sínu nánast upp á punkt og staf eins og mínu. Lausn hennar var að hætta að borða hvítan sykur. Þegar ég lagðist á koddann það kvöld ákvað ég að morgundagurinn skyldi verða sá fyrsti í sykurleysi en síðan eru liðnir um sex mánuðir,“ segir hann.

Borðaðirðu mikinn sykur?

„Mér fannst það ekki sjálfum og í raun gat ég alltaf réttlætt mínar matarvenjur þar sem ég æfði slatta á móti og fann því ekkert fyrir því. Ég var ekki mikið í sælgæti en þótti gott að fá mér gos og eftirrétti af ýmsum toga. Eftir einkirningasóttina breyttist þetta þannig að ég varð að skoða þetta af alvöru og þá fattaði ég hvað sykurinn var mikill hluti af minni daglegu fæðu, allt frá morgunkorninu, gosdrykkjum með matnum í hádeginu og á kvöldin og svo eftirmatnum ásamt alls kyns sykruðum millimálum sem söfnuðust upp þegar saman kom.

Einn samstarfsfélagi minn í Svíþjóð sagði mér í vor, eftir að ég byrjaði á þessu, að hann hefði tekið eftir því að ég fékk mér alltaf og þá meina ég alltaf eftirrétt þegar við fórum út að borða. Þetta sagði mér að mín hugmynd um það hvað ég var að setja ofan í mig var ekki á rökum reist.“

Fannstu strax mun?

„Í raun var þetta eins og hulu væri svipt af augunum eftir um það bil 2-3 daga. Ég fann strax að það var eitthvað að gerast og fór strax að líða betur. Ég skal þó viðurkenna að fyrstu þrjár vikurnar voru erfiðar í að stilla sig inn á að allur sykur væri út af borðinu.

Eftir þessar þrjár vikur fór þetta að verða auðveldara og ég var farinn að finna fleira sem mér þótti gott sem gat komið í staðinn fyrir sykurinn og hefur satt að segja orðið sífellt auðveldara með hverjum deginum sem líður.“

Hvað færðu þér þegar þig langar í eitthvað gott?

„Jarðarber og bláber eru í rosalegu uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Ég er að plana að fara í berjamó og fá mér slatta af íslenskum bláberjum til að eiga í frysti yfir köldustu mánuðina. Svo ef það er algjör nauðsyn að hafa eitthvert aukasætuefni er hægt að teygja sig í Stevia sem er plöntusætuefni sem hækkar ekki blóðsykurinn og þú þarft mun minna af þar sem þetta er miklu sætara en hvítur sykur.

Sódavatn með ferskri sítrónu og klökum er gjörsamlega að gera það fyrir mig þessa dagana líka.

Svo eru alls kyns útgáfur af smoothies sem ég fæ mér og passa ég mig á því að eiga nóg til af frosnum ávöxtum ef hungrið steðjar að.

Í heild er ég að borða meira af ávöxtum en ég gerði en lykilatriðið í þessu er að verða ekki mjög svangur, nokkuð sem ég klikkaði reglulega á áður en ég breytti um matarlífsstíl.“

Er löngunin í sykur alveg horfin?

„Nánast. Ég skal viðurkenna að þegar ég sit á veitingastað og fólkið í kringum mig er að panta ís með súkkulaðisósu og franska súkkulaðiköku þá á ég mín „móment“, ég hef þó staðist það hingað til og eins og áður sagði verður þetta sífellt auðveldara.

Svo kemur fyrir að veitingastaðir eru með sykurlausa lausn á boðstólum og þá er ég með, alsæll!“

Hvað hefur sykurleysið gert fyrir þig?

„Ég til dæmis ætla að fara á skíði í vetur en eitt af því sem ég hef ekki getað gert eftir þetta allt saman er að fara í brekkurnar þar sem ég varð veikur án undantekninga ef ég reyndi.

Einnig er ég að stunda seglbretti og var að byrja að surfa í vor. Þetta hefði ég ekki getað gert með góðu móti ef ég hefði ekki snúið við blaðinu hvað varðar þennan hluta mataræðisins.

Ég er ekki týpan sem er að stíga oft á vigtina enda getur það verið mjög misvísandi en ég get sagt að ég þarf að fara að endurnýja í fataskápnum og m.a. beltin sem eru flestöll hætt að passa.“

Sérðu fyrir þér að geta gert þetta að lífsstíl að vera sykurlaus?

„Þetta er svona „einn dagur í einu“ dæmi held ég.

Sonur minn, sem ætlaði að taka upp sykurleysið eftir pabba sínum kom inn í bíl, eftir að hafa fengið að fara sjálfur í eina verslunarferðina, með kexpakka og orkudrykk og horfði á mig og sagði: „Ok, pabbi, ég get bara ekki lifað án sykurs.“ Að það eigi við um mig tel ég ekki vera, mér líður frábærlega og ég er ekki að fara að breyta því sem gott er – þetta er því orðið lífsstíll.“

Langar þig að taka virkan þátt í Sykurlausum september á Smartlandi? Skráðu þig í stuðningshópinn okkar á facebook. 

Ertu að fylgja okkur á Instagram? 

 

Tinna Marína þyngdist um 22 kíló og hefur aldrei verið hamingjusamari. Lestu viðtalið á www.smartland.is

A post shared by Smartland (@smartlandmortumariu) on Sep 5, 2017 at 2:40am PDT

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál