„Minn helsti löstur er sykurinn“

Hanna Kristín Skaftadóttir.
Hanna Kristín Skaftadóttir. Ljósmynd/Haraldur Guðjónsson

Hanna Kristín Skaftadóttir, viðskiptafræðingur og athafnakona, tekur virkan þátt í Sykurlausum september. Hún hefur góða reynslu af því að kasta sykrinum út úr mataræði sínu en hún fór í Detox í Austurríki og segir það hafi hjálpað henni mikið. 

„Viva Mayr Altaussee er lúxus heilsuhótel staðsett í alpasmáþorpi Austurríkis við Lake Altausse í um 700 m hæð yfir sjávarmáli. Viva Mayr „Cure“ eins og þeir kalla það byggir á 5 grundvallargildum fx Original Mayr Cure sem eru: hvíld, hreinsun, þjálfun, jafnvægi og meðvitað fráhald. Prógrammið gengur út á, í stuttu máli, að ná jafnvægi á líkamanum og neyslu okkar. Hvort heldur sem er í mat, drykk, notkun á snjalltækjum, hreyfingu og fleiru. Þetta er heildrænt heilsuprógramm sem snýst ekki bara um hreinsun heldur aðallega jafnvægi,“ segir Hanna Kristín en hún dvaldi á hótelinu í sumar. 

Aðspurð hvers vegna hún hafi farið segist hún hafa þurft að komast í gott frí og því hafi þessi staður orðið fyrir valinu. 

„Ég hef frá því ég var yngri í ballettinum hugsað vel um næringu og jafnvægi fyrir líkamann. Mig langaði að fara í gott frí og afslöppun og fyrir mig var algjör lúxus að komast í gott prógram þar sem engin koffínneysla eða sykur væri í boði,“ segir hún. 

„Þetta var 10 daga prógramm og ferðaðist svo í nokkra daga til viðbótar um Austurríki.“

Hvernig voru dagarnir?

„Viva Mayr Cure er með stífa dagskrá. Það er vaknað snemma og hver einstaklingur hefur sérsniðna dagskrá fyrir sig. Það er allt frá paddle boarding, gönguferðum, bátsferðum, jóga og fleira í boði. Dagskráin er sniðin í kringum matmálstímana. Hver einstaklingur fær sinn matseðil og það má ekki tala við matarborðið, það má ekki lesa eða skoða síma – bara njóta og upplifa. Dagurinn byrjar á Magnesium Citrate-drykk og olíumunnskoli sem þarf að veltast um munninn í 2-3 mínútur. Það er lögð rík áhersla þarna á að meltingin byrji í munninum og mikið notast við olíur og salt. Í stuttu máli þá byggja þeir sína aðferðafræði á nokkrum þumalputtareglum um venjur tengdar matmálstímum sem flestir hafa gott af að temja sér eins og að njóta þess að finna lyktina af matnum, tyggja hvern bita oft, 30-40 sinnum, og borða mjög rólega. Við matarborðið eru engin snjalltæki og það má ekki spjalla, ekki drekka vatn með matnum, bara fyrir og eftir mat. Fólk á að láta 4-5 klukkutíma líða milli máltíða og það má ekki borða nein millimál. 

Fólk á að hætta að borða þegar það finnur að það sé mátulega mett. Drekka að lágmarki 2,5L af vatni á dag. Mikið er um tedrykkju á Viva Mayr. Og það sem þeir leggja ríka áherslu á er að borða engan óeldaðan mat eftir klukkan 16.00 á daginn, ekki einu sinni ávexti eða salat. Á meðan maður er þarna þá er maður á „mild elimination diet MED“ sem þýðir enginn sykur, hveiti, unninn matur, kaffi, litlir skammtar og kvöldmaturinn var iðulega þunn súpa/seyði og kartöflur. Þarna er mantran „It doesn’t matter what you eat, but how you eat.“

Það var lögð áhersla á gufu í að minnsta kosti 20-30 mínútur á dag og nudd annað slagið, ég synti svo líka daglega, sérstaklega meðan koffínfráhvörfin voru að ganga yfir. Allt til að stuðla að slökun. Það var mælt með því að reyna að taka 60 mín. á dag í að gera ekkert sérstakt, labba um án þess að hafa plan, sitja og horfa á umhverfið. Lifa og njóta, slaka á og leyfa sér að upplifa fráhvörfin frá sykrinum og koffíninu.“

Hvað var erfiðast?

„Líkamlega tók aðeins á að sleppa kaffidrykkjunni. Fyrstu 2-4 dagarnir voru verstir en það er við því að búast og þá skiptir miklu máli að vera í þessu afslappaða umhverfi og hreinlega takast á við þetta og læra að slaka á. Maður veit að þetta líður hjá. Allt spurning um hugarfar. Og auðvitað var áskorun að fá engan sykur eða skyndiorku úr matnum en það sömuleiðis vandist og á 5-6 degi var maður strax orðinn orkumeiri, ferskari og svaf betur en áður.“

Hvernig leið þér eftir þetta?

„Það kom virkilega mikil aukin og jákvæð orka eftir fyrstu vikuna. Þegar koffínfráhvörfin voru á undanhaldi og líkaminn farinn að aðlagast breyttu matarræði þá var líðanin algjörlega frábær. Og sumir af gestunum þarna voru að koma í 2-3 skiptið og allir höfðu svipaða upplifun. Það kemur einhver innspýting af léttleika og bættri líðan strax eftir fyrstu vikuna. Svo maður fékk frábæra hvatningu til að þrauka því árangurinn lét ekki á sér standa. Það þarf oft að erfiða til að uppskera ánægju.“

Hefur þú náð að halda þér á mottunni í mataræðinu eftir að þú fórst í þetta prógramm?

„Hjá Viva Mayr þá líta þeir á þetta heildrænt prógramm og næringu fyrir líkama og sál. Þegar maður klárar prógrammið þá koma þau með tillögur um hvernig sé best að aðlagast aftur því neysluumhverfi sem við komum úr og förum aftur í. Ég hélt mig alfarið frá kaffinu í rúmlega mánuð eftir prógrammið og sykrinum hélt ég í lágmarki. En svo fór maður að falast aftur eftir skyndiorkunni þegar það  komu álagspunktar í vinnunni. Margt gott sem ég fylgi enn, til dæmis að muna að borða sem mest af elduðum mat og súpum, „eat warm“ var mantran þarna. Og að drekka nóg af te og vatni. Hef náð að halda í lágmarki koffínneyslunni en sykurinn er alltaf áskorun fyrir mig. Svo #sykurlausseptember er góð áminning,“ segir Hanna Kristín. 

Fyrir hverja er þetta?

„Alla sem eru tilbúnir til að gefa sér 7-10 daga í að kúpla sig alveg frá daglegu amstri og treysta þessu frábæra fagfólki fyrir handleiðslu á heildrænni útfærslu á matarskipulagi, hreyfingu og hvíld. Algjör paradís fyrir áhugafólk um heilsusamlegan lífsstíl.“

Hvað gerir þú dagsdaglega til að lifa heilsusamlegu lífi?

„Hreyfing, algjörlega ómissandi hluti af minni daglegu rútínu, hleyp að minnsta kosti 4 daga vikunnar og einkaþjálfun 2 daga. Svo vil ég meina að sjósund sé allra meina bót! Minn helsti löstur er samt sykurinn en ég reyni að friða samviskuna þar sem ég borða ekki rautt kjöt, lítið hveiti, megin undirstaða fæðu minnar er grænmeti og baunir/ertur og kornmeti. Svo held ég að allir geti verið sammála um að það að drekka nóg af vatni sé alveg frábær heilsubót! Mér finnst mjög gott að bragðbæta vatnið mitt með ávaxtate og drekka nóg af te. Í uppáhaldi eru myntu- og rauðrunnate.“

Hvað hefur hjálpað þér mest við að gera það?

„Að halda æfingaplani: njóta, alltaf að hafa gaman af því sem maður er að gera. Það á að vera skemmtilegt að hreyfa sig og hver og einn þarf að finna hreyfingu sem viðkomandi hefur gaman af.

Að halda matarplani: auðvelt með grænmetið og kornmetið þar sem það er minn uppáhaldsmatur. Sérstaklega indverskir grænmetisréttir. Þigg öll góð ráð með hvernig skuli taka alveg út sykurinn,“ segir hún. 

Ertu með í Sykurlausum september? Þú getur skráð þig HÉR ef þú þráir stuðning. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál