Borðaði af sér 50 kíló

Sólveig Sigurðardóttir var einu sinni 50 kg þyngri.
Sólveig Sigurðardóttir var einu sinni 50 kg þyngri. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Heilsan var orðin svo slæm að ég var orðin öryrki. Ég var komin á botninn heilsufarslega séð og hafði engu að tapa. Ég var búin að prufa alla megrunarkúra sem til eru, eins og reyndar flestir offitusjúklingar hafa gert,“ segir Sólveig Sigurðardóttir, en fyrir fimm árum ákvað hún að taka líf sitt til gagngerrar endurskoðunar og skráði sig á námskeið hjá Heilsuborg. 

„Ég náði frábærum árangri í mörgum af þessum megrunarkúrum, en þeir eru bara kúrar og hafa sína byrjun og sinn endi. Svo fer allt aftur í sama horf. Þá er maður í verri málum, eyðileggur brennslukerfið og situr upp með depurð, uppgjöf og megrunarstreitu. Fyrir nokkrum árum sá ég síðan viðtal við konu í Heilsuborg og hugsaði með mér að ég ætti bara að drífa mig. Ég keyrði niðureftir en þorði ekki að fara inn heldur gekk hringinn í kringum húsið. Síðan hringdi ég daginn eftir og skráði mig á ársnámskeið.“
mbl.is/samsett mynd

Áður en Sólveig breytti um lífsstíl var hún 50 kílóum of þung. Þar fyrir utan var hún á fjöldanum öllum af lyfjum, en hún er greind með MS-sjúkdóminn, vefjagigt og rósroða.

„Ég var bæði á sprautu- og þreytulyfjum vegna MS-sjúkdómsins. Einnig tók ég rosalega mikið af verkjalyfjum til að geta farið verkjalaus í gegnum daginn. Svo notaði ég svefnlyf til að geta sofið, þannig að þetta var orðinn alger lyfjakokteill. Þegar rósroðinn var síðan orðinn slæmur þurfti ég að fara á sýklalyf og þá fór þarmaflóran í klessu. Að lokum veit maður ekki hvað er orsök og hvað afleiðing. Í dag er ég þó lyfjalaus með öllu,“ segir Sólveig.

mbl.is/samsett mynd

Reyndi að borða í burtu sársaukann

Sólveig byrjaði að þyngjast í kringum 12 ára aldurinn eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hendi manns innan fjölskyldunnar. Lengi vel þagði hún um það sem hafði gerst, en hefur nú ákveðið að skila skömminni.

„Ég varð fyrir kynferðislegri misnotkun af hendi stjúpafa míns. Ég gat ekki talað við neinn eða látið neinn vita. Þetta var allt saman leyndarmál. Upp úr því fór ég að leita huggunar í mat, sem ég notaði til að deyfa mig. Ég notaði allan þann pening sem ég átti til að fara út í sjoppu. Síðan settist ég niður úti í hrauni í Hafnarfirði og borðaði þangað til mig verkjaði í magann og sársaukinn í sálinni fór. Þetta er víst algengt, en ég vissi það ekki fyrr en fyrir nokkrum árum. Barn veit ekki hvernig það á að leita sér hjálpar og ef það finnur sér eitthvert haldreipi sleppir það því ekki. Það var mjög skrýtið að vinna sig út úr þessu seinna meir, því ég notaði mat sem vopn á sjálfa mig. Ég notaði hann bæði til að meiða mig og til að hefna mín á sjálfri mér. En ég notaði hann líka til að verðlauna mig. Ég þurfti í rauninni að læra að njóta þess að borða upp á nýtt og það tók mig langan tíma að átta mig á því að ég ætti skilið að borða góðan og fallegan mat. Þess vegna segi ég að ég hafi borðað af mér 50 kíló,“ segir Sólveig, sem í dag borðar hollan og bragðgóðan mat. Þess að auki stundar hún líkamsrækt, en hún hafði ekki hreyft sig að ráði síðan hún var barn.

„Fyrir 20 árum vaknaði síðan grunur um að ég væri með MS-sjúkdóminn, en í kjölfarið var mér sagt að ég þyrfti að fara varlega og mætti ekki ofkeyra mig. Fyrir 14 árum kom síðan lokagreiningin, en þá gafst ég algerlega upp. Mér var sagt að ég mætti aldrei lyfta þungu, en þessu fór ég eftir þangað til ég byrjaði í Heilsuborg. Fyrst gat ég ekkert gert, ég var fimmtíu kílóum of þung og ég varð að gera æfingar sitjandi á stól. Það tók mig heillangan tíma að geta einfaldlega staðið upp af gólfinu. Í dag hendist ég þó í planka og æfi kraftlyftingar,“ segir Sólveig.

„Ég bjó í London þegar ég fékk fyrsta stóra MS-kastið. Ég var búin að vinna mikið á þessum tíma og hneig skyndilega niður úti á götu. Fyrst hélt ég að ég hefði verið skotin eða stungin. Ég var svolítinn tíma að geta staðið upp aftur og í kjölfarið fékk ég sjóntruflanir. Ég leitaði til læknis sem sagði mér að líkast til hefði ég unnið yfir mig. Svo tók við endurhæfing, en að lokum fór ég aftur að vinna mikið og allt fór í sama farið. Nokkru síðar varð ég ólétt að dóttur minni, en þegar ég var komin sex mánuði á leið fékk ég næsta stóra kast. Þá lamaðist ég fyrir neðan mitti og þurfti að liggja inni á spítala í þrjá mánuði. Ég vissi í rauninni ekki hvort ég myndi geta gengið aftur,“ segir Sólveig.

Ekki hægt að sökkva neðar

Þegar Sólveig er spurð hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að snúa lífinu við og hætta að sætta sig við ástandið segist hún einfaldlega hafa verið komin á botninn.

„Ég þurfti að notast við hækjur, hnén voru að gefa sig og ég hafði þurft að láta laga annað þeirra. Ég var alltaf sárkvalin, með mikinn bjúg og leið hrikalega illa. Þarna var ég búin að ganga á milli lækna og var á alls kyns lyfjum. Það var búið að reyna að hjálpa mér úr öllum áttum en ég gerði ekki neitt til að hjálpa sjálfri mér. Ég held að enginn læknir geti hjálpað manni án þess að maður hjálpi sér sjálfur,“ segir Sólveig, en hún er ekki í vafa um hvað það var sem varð til þess að henni tókst ætlunarverkið í þetta sinn.

„Ég ákvað að hætta þessum skyndilausnum, hlusta og kynna mér hlutina. Ég sökkti mér í þetta. Þetta ár hjá Heilsuborg mætti ég á alla fyrirlestra og gafst aldrei upp. Ég sleit vöðva og ég tábrotnaði, en hélt áfram að mæta. Ef ég þurfti að mæta á hækjum þá bara mætti ég á hækjum. Ég gerði samning við sjálfa mig og sagðist ætla að gera þetta í eitt ár. Ef þetta myndi heppnast væri það æðislegt. Ef ekki væri þetta hvort eð er búið. Svo flæktist ég inn í þetta og fór að hafa áhuga á matargerð,“ segir Sólveig, sem játar þó að í fyrstu hafi verið erfitt að tileinka sér hollt mataræði.

„Ég gerði þau mistök að gera þetta með látum og henti öllu úr skápunum því ég taldi þetta allt vera eitur. Svo fór ég út í búð og ætlaði að koma með allt hreint og flott til baka en gekk bara um með tóma kerru því ég vissi ekki hvað ég átti að kaupa. Maður verður að læra inn á þetta. Áður fyrr fannst mér til dæmis hnetur og fræ vera fuglamatur. Í dag nota ég þetta sem tannbursta fyrir ristilinn minn,“ segir Sólveig, sem leggur mikið upp úr því að borða heilnæman, góðan og fallegan mat.

„Það eina sem ég borða hreinlega ekki er unninn matur og gos. Ég var alger gosfíkill og drakk Pepsi Max eins og mér væri borgað fyrir það. Í dag drekk ég þó bara vatn. Svo borða ég hreinan og góðan mat sem er ekki með mörgum innihaldslýsingum, gerviefnum og gervisykri. Margir halda að þetta sé bara tómt salat og sellerístönglar, en í dag borða ég raunverulegan mat. Áður borðaði ég matarlíki,“ segir Sólveig, sem neitar sér þó ekki um eftirrétt þegar svo ber undir.

„Eftirréttir geta nefnilega verið svo góðir. Það er hægt að borða alls konar góðgæti, eins og gríska jógúrt og ferska ávexti. En ef maður passar sig að borða vel frá morgni og fram að kvöldmat, og passar að halda blóðsykrinum stöðugum, hættir líkaminn að garga endalaust á nammi,“ segir Sólveig, og bætir við að í dag sé viðhorf hennar til matar gjörólíkt því sem það var áður fyrr.

„Ef ég vil gera mér gott fer ég út að labba í stað þess að fá mér eitthvað djúsí. Ég myndi til dæmis frekar verðlauna mig með flottu naglalakki en að fá mér ís,“ segir Sólveig, sem í dag hefur einnig fundið gleði í því að hreyfa sig.

„Fyrst þurfti ég að mæta þrisvar í viku í hóptíma. Mér fannst það alger óþarfi, en ég mætti samt. Ég sat á stól, sveiflaði fótunum og lyfti höndunum. Lóðin voru kannski eitt kíló, og mér fannst ég standa mig ógeðslega vel. Sem ég gerði. Ég passaði reyndar ekki í nein íþróttaföt því þau voru ekki til í minni stærð. Svo fór ég að finna að þetta gerði mér gott. Þá fór ég að hafa áhuga á hreyfingu og fór að mæta fjórum sinnum í viku. Svo fimm sinnum í viku. Ég elska líka að ganga, og spretta inn á milli. Ég get þó ekki hlaupið. Ég er einfaldlega ekki með þannig líkama.“

Ekki bara dans á rósum að léttast

Sólveig segir að það sé ekki eintómur dans á rósum að léttast, því langvarandi ofþyngd geti leitt af sér ýmsa hvimleiða kvilla.

„Eftir að ég missti svona mörg kíló sat ég til dæmis uppi með svuntu sem náði niður á mið læri. Á morgnana þurfti ég að púðra magann, rúlla honum saman og setja í aðhaldsbuxur. Það var rosalega erfitt að vera þannig og ég segi stundum að ég hafi borðað á mig gat því ég var einnig komin með kviðslit á stærð við litla vatnsmelónu. Smágirnið var komið þar út, þannig að þetta var orðið lífshættulegt ástand. Að lokum fór ég til lýtalæknisins Ágústs Birgissonar, sem er alger kraftaverkamaður, en hann hjálpaði mér út úr þessu. Það voru skorin í burtu tæp sex kíló af húð af maganum á mér, kviðslitið var lagað og maginn saumaður aftur saman. Það er ekki bara tóm glansmynd að missa öll þessi kíló. Líkaminn nær aldrei að verða aftur eins og hann var,“ segir Sólveig og bætir við að aðgerðin hafi reynt mikið á, andlega sem líkamlega.

„Ég fékk til að mynda sýkingu í naflann. Þetta eru stórar aðgerðir sem eru gerðar á einkastofu, en ekki á spítölum. Maður er sendur heim samdægurs því skurðstofunni er lokað á kvöldin. Ég var skorin frá mjaðmakúlu til mjaðmakúlu, og var í sex vikur að jafna mig.“

Það kemur mörgum í opna skjöldu hversu óhrædd Sólveig er að notast við orðið offita. Sjálf er hún ófeimin við orðið og fer ekki í grafgötur með það að hún sjálf hafi verið orðin offitusjúklingur.

„Offita er ennþá svo mikið tabú á Íslandi. Það má voðalega lítið tala um þetta. Svuntuaðgerðin sem ég fór í er til dæmis flokkuð sem fegrunaraðgerð. Ég hefði getað látið laga kviðslitið á spítala, en hina aðgerðina hefði ekki mátt framkvæma þar. Ég þurfti að borga yfir 600 þúsund krónur fyrir að láta laga magann á mér,“ segir Sólveig og bætir við að fólk sitji oft uppi með gjörónýtan líkama eftir mikið þyngdartap.

Þegar Sólveig er spurð hvort hún lumi á ráðleggingum fyrir fólk sem telur sig búið að reyna allt í baráttunni við ofþyngdina segir hún vænlegast að fá fagaðila í lið með sér.

„Hér á landi eru ekki margir sem vita hvernig á að fara að með offitusjúklinga, það er eins og fólk viti ekki hvar það á að byrja. En ef fólk er komið með nóg og vill virkilega leita sér hjálpar ætti það að leita til fagaðila,“ segir Sólveig að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál