Krónískir verkir, hin gleymda umræða?

Þórey Kristín Þórisdóttir, sálfræðinemi, félagsfræðingur og heilsumarkþjálfi.
Þórey Kristín Þórisdóttir, sálfræðinemi, félagsfræðingur og heilsumarkþjálfi.

„Bólgusjúkdómar sem valda krónískum sársauka, auk vefjagigtar, eru mein sem geta haft mikil áhrif á andlega líðan þeirra sem þjást af þeim. Ég verð að segja að mér finnst vera allt of lítil umræða um verkjasjúkdóma, ekki einungis í samfélaginu heldur líka innan akademíunnar,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðinemi, fé­lags­fræðing­ur og heil­su­markþjálfi í pistli: 

Í námi mínu við Álaborgarháskóla var eingöngu einn prófessor sem ræddi um skjólstæðinga sem þjáðust af krónískum verkjum og hvaða afleiðingar slíkt hefur í för með sér. Hann var auk þess sá eini sem benti mér á rannsóknir um króníska verki og samspil þeirra við andlega heilsu. Þessi umræða átti sér stað á síðasta árinu mínu í sálfræðináminu.

Tökum vefjagigt sem dæmi um sjúkdóm sem felur í sér króníska verki. Um 12.000 Íslendingar eru með vefjagigt á hverjum tíma og hefur hún áhrif á ýmsa vefi líkamans, m.a. bandvef, vöðvavef og taugavef. Þetta verður til þess að einstaklingar finna til í vöðvum, vöðvafestum og jafnvel húðinni.

Að auki geta einstaklingar upplifað mikla þreytu, meltingartruflanir, fótapirring, kuldanæmni, doða í útlimum, verki í liðum, minnisleysi, einbeitingarskort og depurð. Skynfærin geta einnig orðið „ofvirk“ sem hefur þau áhrif að þröskuldurinn fyrir t.d. birtustigi eða hávaða verður mun minni en ella.

Öll þessi einkenni gera það að verkum að einstaklingar með vefjagigt eru stundum „alverkja“. Þess ber að geta að mismunandi verkir eða þreyta geta hrjáð mismunandi einstaklinga, sem leiðir til þess að vefjagigtarsjúklingar hafa gjarnan mismunandi upplifanir á sjúkdómnum. Mun fleiri bólgu- eða taugasjúkdómar eru til sem fela í sér króníska verki og er þetta einungis eitt dæmi.

Langtímaálag getur orðið hvatberi að bólgu- og taugasjúkdómum og er mikilvægt fyrir vefjagigtarsjúklinga að draga úr álagi eftir besta móti. Talið er að vanstarfsemi í ósjálfráða taugakerfinu sé ein af orsökum vefjagigtar en ósjálfráða taugakerfið er náskylt þeim stöðvum heilans sem viðkoma streitu. Þar af leiðandi haldast einkenni vefjagigtar oft sterkt í hendur við andlegt álag.

Það er mín von að opin umræða og þekking geti vonandi orðið að forvörn fyrir einmitt þá sem eru undir miklu álagi. Álag getur virkað eins og eldsneyti fyrir bólgur og verki í líkamanum. Einstaklingar sem upplifa mikið álag þurfa að vera meðvitaðir ef verkir byrja að myndast í líkamanum. Að taka skref tilbaka og reyna draga úr álagi sem fyrst getur haft mikið að segja fyrir heilsuna.

Ég vil að lokum taka það fram að þessi pistill er ekki skrifaður af sérfræðiþekkingu af minni hálfu heldur er von mín sú að opna augu fólks fyrir þessu málefni. Ég hef séð hvað þetta getur lagst þungt á sálina á nánum vinum og það er erfitt að geta ekkert gert fyrir viðkomandi. Hugsanlega þarf ekki mikið til fyrir utan að sýna samhug, nærgætni eða bjóða fram einhvers konar aðstoð.

Aðstoð sem getur létt undir okkar nánustu vinum eða ættingjum gæti haft mikið að segja.

Að lokum vil ég benda á að vinkona mín hafði orð á því að henni hafði fundist erfitt að finna sálfræðing á Íslandi sem væri með þekkingu á krónískum verkum og hvað slíkt getur haft í för með sér. Hugsanlega er það eitthvað til að hugleiða, bæði fyrir verðandi sálfræðinga og þá sem eru starfandi nú þegar. Aukinn sýnileiki á samspili verkja og andlegrar heilsu er a.m.k. eitthvað sem virðist vera þörf á.

Heimildir eru aðallega teknar af http://vefjagigt.is/

Auk frásagna góðra vina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál