Léttist um 25 kg með sykurleysi

Kristinn Sigurðsson er 25 kílóum léttari eftir að hann kvaddi …
Kristinn Sigurðsson er 25 kílóum léttari eftir að hann kvaddi sykurinn. Ljósmynd/Samsett

Kristinn Sigurðsson ákvað að taka sykur út úr mataræðinu því hann var að eigin sögn orðinn allt of feitur. Í viðtali við Smartland segir hann frá því hvernig líf hans breyttist eftir að hann tók sykurinn út. Í dag er hann 25 kílóum léttari og hefur aldrei verið á betri stað, andlega og líkamlega. 

„Aðalástæðan var sú að ég var orðinn allt of feitur. Ég fór að þyngjast í kringum þrítugt og svo hélt talan á vigtinni bara áfram að hækka þrátt fyrir að ég færi reglulega í ræktina og reyndi að hreyfa mig mikið. Low karb var mikið í umræðunni þannig að ég ákvað að kynna mér þar það og fór svo að lesa mér til um sykur, sá líka heimildarmynd á Youtube sem kallaðist The toxic sugar þar sem talað er um sykur sem eitur og að það sé sannað að hann valdi offitu, krabbameini, sykursýki og hjartasjúkdómum. Það þurfti einfaldlega vitundarvakningu hjá mér og ég áttaði mig á því að margt sem hefur verið sagt við okkur um mataræði í gegnum árin er rangt. Enn í dag stinga upp kollinum fólk sem titlar sig sem næringarfræðinga og segir að sykur sé bara ekkert slæmur og við eigum að nota hann í staðinn fyrir sætuefni, svona fólk er að mínu mati hættulegt lýðheilsu almennings. Sykur er í rauninni fíkniefni, líkaminn kallar á meiri sykur. Gervisæta hefur ekki þessi áhrif á líkamann þar sem hún er bara bragðefni,“ segir Kristinn sem talar af eigin reynslu. 

Kristinn segist hafa þekkt nokkra einstaklinga sem höfðu tekið allan sykur út úr mataræði sínu og gefist vel. Hann hafði þessar reynslusögur á bak við eyrað áður en hann hófst handa sjálfur.

„Ég vissi af fólki sem hafði tekið út allan sykur og að það hafi gefist vel. Það eru margar rannsóknir sem sýnt hafa hvað sykur er mikið eitur fyrir líkamann. Það er samt erfitt að taka allan sykur út þó að maður vilji því matvælaframleiðendur eru duglegir að bæta sykri við nánast allt.“

Kristinn segir sjálfur að hann hafi verið orðinn aðeins of …
Kristinn segir sjálfur að hann hafi verið orðinn aðeins of feitur þegar hann ákvað að kveðja sykurinn.

Hvernig voru fyrstu dagarnir?

„Þetta er ekkert mál, maður þarf bara að vera ákveðinn og tilbúinn að skipta um lífsstíl og setja sér reglur. Ég gerði þetta hægt og rólega, þetta var ekki eitthvað sem gerðist á einni nóttu. Fyrst tók ég allt sælgæti, sætabrauð, sykrað gos og ávaxtasafa út. Ég fór svo að gjörbreyta mínu mataræði, minnkaði einföld kolvetni eins og brauð, fór að borða feitari mat og próteinríkari. Það kemur í veg fyrir hungur þar sem fitan og prótein eru mettandi og gefa orku og halda blóðsykrinum í jafnvægi. Ólíkt sykrinum sem hækkar bara blóðsykurinn upp úr öllu valdi og svo hrapar hann aftur og við viljum meiri sykur og erum alltaf svöng. Að taka út sykur er ekki eitthvað tímabundið, maður þarf að vera tilbúinn að taka hann alveg út úr sínu lífi fyrir lífstíð og setja sér strangar reglur um hann,“ segir Kristinn. 

Hann segist mjög fljótlega hafa fundið fyrir breytingu á sér sem hafi hvatt hann áfram. 

„Ég grenntist frekar hratt, talan á vigtinni hætti að hækka og fór að minnka [sic] án þess að ég væri að svelta mig eða hamast í ræktinni. Ég varð himinlifandi þegar vigtin fór að sýna tveggja stafa tölu sem hélt svo áfram að minnka. Ég tók mest eftir hvernig buxurnar fóru að verða allt of stórar í mittið. Buxur sem voru orðnar of þröngar urðu allt of stórar,“ segir hann. 

Hvað ertu að borða í staðinn fyrir sykur?

„Það er vel hægt að skipta út sykri án þess að það komi niður á bragðinu. Nota sætuefni mikið og kaupi vörur sem innihalda sætuefni í stað sykurs. Til dæmis skipti ég öllum sykruðum mjólkurvörum út fyrir sykurlausar mjólkurvörur. Kaupi bara sykurlaust skyr og sykurlaust jógúrt. Nota sætuefni í kaffið og alla matargerð auk þess að kaupa eingöngu sykurlaust gos. Það eru rosalega mikið úrval orðið af góðum sætuefnum sem hafa sömu eiginleika og sykur, bæði í áferð og bragði. Það er leikandi hægt að baka gómsæta súkkulaðiköku án þess að það sé gramm af sykri í henni. Við getum útrýmt sykri úr okkar mataræði á einni nóttu án þess að tapa áferð eða bragði, vandamálið er bara fólkið og matvælaframleiðendur. Það spretta upp alls konar þvælu greinar með engar vísindalegar rannsóknir á bak við sig um að gervisykur sé eitraður og við eigum frekar að notast við hreinan sykur í staðinn. Rökin sem þetta fólk kemur oft með er að ef þú færð þér sykurlaust gos þá étirðu meira sælgæti. Þessu er öfugt farið í raunveruleikanum, sykur er í rauninni fíkniefni, sykraðir drykkir kalla eftir meiri sykri en það gera sykurlausir drykkir ekki þar sem þeir hafa ekki áhrif á blóðsykurinn. Gervisæta er eitt mest rannsakaða innihaldsefni í heiminum og það hefur ekki tekist að finna að hún valdi okkur skaða, hún inniheldur engar kaloríur, hefur engin áhrif á blóðsykur, lifur eða insúlínframleiðslu, hins vegar er sannað hvað sykur gerir okkur en það er alltaf þaggað niður,“ segir hann. 

Saknar þú einhvers úr fyrra mataræði?

„Nei get ekki sagt það, það kemst upp í vana að kaupa ekki sykur. Þetta er jú eitur. Mér líður mikið betur í dag. En hef samt sett mér ákveðnar reglur, sykrað gos og ávaxtasafar eru á bannlista og ég kaupi aldrei sælgæti eða sætabrauð og þar er aldrei gerð undantekning. Hins vegar má fá sér kökubita eða vínarbrauðssneið við sérstök tilefni, til dæmis ef það er afmælisveisla.“

Kristinn ætlar að halda áfram á sinni braut enda fann …
Kristinn ætlar að halda áfram á sinni braut enda fann hann sína hillu.

Síðan Kristinn tók út sykurinn hefur hann lagt mikið af eða misst 25 kíló. 

„Ég minnkaði líka brauð- og pastaát. Í stað þess að borða brauð eða kolvetnaríka máltíð í öll mál eins og ég gerði þá setti ég mér reglu um að það mætti bara vera ein brauð/kolvetna máltíð á dag. Því meira sem maður tekur út af einföldum kolvetnum því hraðar grennist maður. Ég var mjög strangur á þetta til að byrja með en slakaði svo aðeins á. Tók líka alla gervifitu út, eins og repjuolíu og gervismjör þar sem þetta er slæm fita sem líkaminn á erfitt með að brenna. Skipti þessu út fyrir ólívuolíu og hreint smjör.“

Mataræði Kristins hefur tekið stökkbreytingum, en hvað er hann að borða á venjulegum degi?

„Ég byrja daginn alltaf á kaffi með sætuefni og rjóma, sem er mjög mettandi. Svo fæ ég mér oftast skyr, jógúrt, próteinsjeik eða lágkolvetnabrauð. Á kvöldin er svo bara venjulegur heimilismatur en notast við sætuefni í stað sykurs, til dæmis er ekkert mál að búa til súrsæta sósu án sykurs. Svo er stundum pítsa eða hamborgari,“ segir hann. 

Drekkur þú áfengi?

„Já, en það varð breyting á því hvað ég drakk. Ég hætti allri notkun á sykruðum líkjörum og blanda ekkert út í sykrað gos eða ávaxtasafa. Kaupi aldrei „gosbjóra“ þar sem þeir eru bara sykurvatn. Ég fæ mér samt aðallega bjór þar sem hann inniheldur ekki sykur. Þegar talað er um að fólk sé með bjórvömb held ég að sú vömb sé frekar út af því að það setur 4-5 sykurmola út í kaffið á morgnana.“

Kristinn segir að hann hafi fengið nýtt líf við það að hætta að borða sykur en það taki tíma að venjast því að vera ekki að moka í sig sykri stefnulaust. Hann mælir með því, ef fólk vill taka sykurinn út úr mataræði sínu, að byrja á því að taka út allar vörur sem innihalda hreinn sykur eins og sykrað gos, ávaxtasafa og sælgæti. 

„Fólk verður að átta sig á því að sykur er eitur. Það er eitthvað svo sterkt í undirvitundinni á okkar að sykur sé bara saklaus og er ekki fitandi. Fullt af mat er auglýst sem hollustu vara þó hann sé stútfullur af sykri, þetta á sérstaklega við um mjólkurvörur og oft og tíðum próteinbari. Fólk verður að læra að lesa innihaldslýsingar. Lífrænn Faitrade-vottaður hrásykur og Agave-síróp eru alveg jafnóholl og hvítur sykur. Það skiptir máli að taka út vörur sem innihalda mikinn viðbættan sykur eins og margar mjólkurvörur en hafa í huga að hrein mjólk inniheldur um það bil 5 gr. sykur en það er mjólkursykur og hann hefur ekki áhrif á blóðsykurinn,“ segir Kristinn. 

Ertu að taka þátt í Sykurlausum september á Smartlandi? Skráðu þig í lokaða hópinn okkar á Facebook ef þú vilt vera með. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál