Fullkomin leið til að komast í form

Hjónin Fríður Halldórsdóttir og Þórður Ingi Marelsson.
Hjónin Fríður Halldórsdóttir og Þórður Ingi Marelsson.

Hjónin Fríður Halldórsdóttir og Þórður Ingi Marelsson eru með fjallabakteríu á háu stigi. Þau reka fyrirtækið Fjallavinir og elska að þvælast upp um fjöll og firnindi með skemmtilegu fólki. Fríður segir að fjallgöngur séu fullkomin leið til að halda sér í formi. 

„Áhuga okkar á fjallamennsku má líklegast rekja mörg, mörg ár aftur í tímann. Ég gekk gjarnan á fjöll með afa mínum þegar ég var barn, þá helst á Úlfarsfellið og eins á Esjuna, en var einnig mikið á tjaldferðalagi með fjölskyldu minni. Þetta fannst mér mjög skemmtilegt og sjálfsagt gerði ég mér ekki grein fyrir því þá hversu vel mér leið úti í náttúrunni, en allavega sóttist ég eftir því að komast með afa á fjall. Mér hefur alltaf liðið vel á hreyfingu, hvort sem ég hef verið ein eða með öðrum, í einhverri „aksjón“ og þá helst útivið,“ segir Fríður.

Þórður hefur frá blautu barnsbeini haft ánægju af útiveru og stundaði knattspyrnu á sínum yngri árum, sem leiddi til áframhaldandi knattspyrnuiðkunar fram á fullorðinsár en hann spilaði í meistaraflokki Víkings til rúmlega þrítugs og náði m.a. nokkrum Íslandsmeistaratitlum.

„Eftir að leiðir okkar lágu saman og við eignuðumst börn fannst okkur einfaldlega eðlilegt að vera sem mest útivið með börnunum okkar, og þá bæði hjóluðum við mikið og gengum á fjöll með þau. Mörgum fannst við jafnvel eitthvað skrítin með börnin á hjólunum fyrir 30 árum, í allskonar stólum, kerrum og aftanívögnum. Mörgum árum síðar var okkur sagt að margir héldu að við værum Danir,“ segir Fríður og bætir við:

En fjallgöngurnar urðu í raun bara eðlilegur þáttur í uppeldi barna okkar, því við ferðuðumst með þau og þá lá vel við að ganga á þau fjöll sem í nágrenni okkar voru. Við bjuggum á Laugarvatni og Fáskrúðsfirði um tíma þegar elstu börnin okkar voru lítil og þá beinlínis kallaði náttúran á okkur og við nutum þess að rölta um nærliggjandi fjöll. Þannig bundumst við náttúrunni og fjöllunum enn sterkari böndum og fundum ekki síst mikla vellíðan í þessu, bæði líkamlega og andlega, en ekki síður félagslega með börnunum og öðrum vinum.“

Fríður Halldórsdóttir og Þórður Ingi Marelsson á göngu.
Fríður Halldórsdóttir og Þórður Ingi Marelsson á göngu.

Fríður segir að þau hjónin hafi alltaf verið í góðu formi og hafi fjallamennskan í raun verið eðlilegt framhald af íþróttaiðkun þeirra. 

„Við höfum alla tíð verið í nokkuð góðu formi og haft ánægju af útivist og hreyfingu þannig að fjallamennskan kom eiginlega í beinu framhaldi af íþróttaiðkun og áhuga á landinu okkar og náttúrunni.

Svo fjölgaði bæði börnum og fjallgöngum með árunum, og árið 2006 gengum við Laugaveginn með þrjú yngstu börnin okkar sem þá voru 6, 7 og 9 ára. Það var mjög ánægjuleg ferð og allir nutu hennar. Við tengdumst síðar FÍ og skipulögðum sérstaka Barna- og fjölskyldugöngu yfir Laugaveginn sem voru vel heppnaðar og í framhaldi af því vorum við beðin um að taka að okkur frekari fararstjórn fyrir félagið,“ segir hún. 

Fríður og Þórður Ingi stofnuðu Fjallavini árið 2012 og segja að þau hafi haft mikla ánægju af því þar sem gönguferðir sameini það sem þeim finnist skemmtilegast, að hreyfa sig og auka þol, styrk og andlega vellíðan. 

„Það er í raun þannig að þessi útivera reynir á marga þætti þó heilt yfir tali maður um aukið þol og styrk. Að ganga úti í náttúrunni í fersku fjallalofti er hreinlega nauðsynlegt öllum og ekki síst í nútímasamfélagi þar sem fólk vinnur innandyra langa vinnudaga, í kyrrsetu mestan hluta dagsins, í misgóðri lýsingu og loftræstingu og í misgóðri vinnuaðstöðu. Þessi kyrrseta er eins og rannsóknir benda á í dag orðin ein mesta heilsuógn mannkyns,“ segir hún. 

Frá því Fjallavinir voru stofnaðir hafa þau boðið upp á ýmsar gönguferðir bæði fyrir byrjendur og lengra komna. 

„Við höfum gengið á lægri fjöll og einnig verið með meiri áskoranir og erfiðari fjöll. Í raun er það þannig að fólk byrjar rólega og við fylgjum fólki eftir eins og við getum, förum hægt af stað þannig að hver og einn gengur í raun á sínum hraða. Við erum með fararstjóra fremstan og aftastan í öllum ferðum. Við höfum verið með ólíka hópa og ólík verkefni í gegnum árin. Þetta árið vorum við með verkefnið Fjöllin okkar 2017 frá janúar fram á sumar. Síðan bjóðum við upp á stakar göngur frá vori og yfir sumarið. Núna í haust erum við að fara af stað með verkefnið Esjan haust 2017, en Esjuverkefnin okkar hófust fyrir mörgum árum. Þá hneyksluðust nú reyndar sumir á því að ætla sér að bjóða upp á verkefni á Esjunni! En raunin er sú að Esjan er fjallið okkar Reykvíkinga og það liggur vel við, stutt að fara á  og býður jafnframt upp á marga möguleika og mikla fjölbreytni, bæði léttar og erfiðar göngur. Að sjálfsögðu fer það eftir því hvaða leið er valin og hversu hratt er farið hvert erfiðleikastigið er.“

Hvað skiptir máli að hafa í huga þegar fólk er í göngum að vetrarlagi?

„Þegar gengið er á fjöll, er sannarlega mikilvægt að klæða sig vel, því eins og allir vita þá þarf að vera við öllu búinn á fjöllum. Ef nefna ætti uppáhaldsflík, eða flík sem ég vildi ekki vera án, þá eru það ullarnærfötin, sem ég er alltaf í, en þau duga að sjálfsögðu ekki ein og sér. Við mælum alltaf með þeim innst klæða, síðan þægilegum göngufötum og svo primaloft- eða dúnúlpu og þar sem við búum við miklar veðrabreytingar er mikilvægt að geta brugðið yfir sig vatns- og vindheldum klæðnaði. Góðir gönguskór eru að sjálfsögðu afar mikilvægir og hver og einn verður að finna þá skó sem hentar. Að vetrarlagi þegar dagurinn er kaldur og stuttur og myrkur skellur snemma á er einfaldlega hlýrri klæðnaður og höfuðljós staðalbúnaður. Það er bæði hressandi og endurnærandi að skella sér í kvöldgöngu því stemningin í kvöldgöngu og kyrrðinni með höfuðljós sem lýsa upp umhverfið er einfaldlega sérstök. Þegar snjóa fer þá bætist við viðeigandi búnaður og þá koma göngustafir sér líka vel. Svo er afar mikilvægt að halda hópinn.“

Þegar Fríður er spurð að því hvað hún fái út úr fjallgöngum segist hún ekki geta hugsað sér betri heilsueflingu. 

„Það sem við fáum úr fjallgöngum er gríðarleg heilsuefling í víðasta skilningi. Við fáum mjög góða líkamlega hreyfingu því í fjallgöngum reynir á þolið þar sem brekkurnar auka erfiðið, það reynir á styrk líkt og í tröppum en að auki berum við bakpoka með aukabúnaði þannig að það er ekki bara eigin líkamsþyngd sem við berum. Á ójöfnu undirlagi reynir ekki síst á smærri vöðva og liðamót, því tauga- og vöðvaáreiti er gríðarlegt og styrking þannig mikil. Við hentug tækifæri skellum við í leiki, nú eða slökun, en fátt jafnast á við kvöldkyrrð á fjöllum undir norðurljósum. Allar göngur enda svo á góðum teygjum sem er afar mikilvægt að gleyma ekki. Við fáum að auki ánægju af að ganga með öðrum og endurnærumst bæði á fjallaloftinu og félagsskapnum. Við kúplum okkur í raun burt frá stressi og streitu hins daglega lífs og komum endurnærð til baka þrátt fyrir veður og vind.

Fjallavinir eru í raun fyrir alla, konur og karla á öllum aldri, en hjá okkur er fólk frá tæplega þrítugsaldri og upp úr. Áskorun hvers og eins er að sjálfsögðu að bæta heilsuna, líkamlega og andlega og leggja þannig inn í sinn eigin heilsubanka fyrir komandi ár. Það er undir okkur sjálfum komið hvernig við eldumst og ef við viljum búa við góða heilsu og lífsgæði á efri árum þá þurfum við að huga að því í dag með hreyfingu og aftur hreyfingu, góðri næringu, góðum svefni og slökun. Og til að hreyfingin verði fastur hluti af okkar lífsstíl er mikilvægt að okkur finnist hún skemmtileg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál