„Ég hafði prófað allan andskotann“

Ragnheiður Kristjónsdóttir.
Ragnheiður Kristjónsdóttir. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ragnheiður Kristjónsdóttir þekkir það vel af eigin raun að vera of þung. Í mörg ár burðaðist hún með allt of mörg aukakíló og var búin að reyna allt til þess að léttast. Það var ekki fyrr en hún áttaði sig á því að hún væri með matarfíkn að jafnvægi komst á lífið. Í dag er hún 40 kílóum léttari. 

Hvað varð til þess að þú snérir vörn í sókn hvað varðar aukakíló sem hlaðist höfðu upp?

„Málið var að ég hafði margoft snúið vörn í sókn en án árangurs til langs tíma. Það sem var ólíkt í þetta skiptið var að ég fann loksins réttu lausnina. Ég hafði farið mjög oft í megrun, mýmarga kúra og átök sem öll eiga það sameiginlegt að þeim lýkur á endanum og þetta var orðið að endalausum vítahring. Það sem ég þurfti var hjálp þeirra sem skildu það sem gekk að mér – þ.e. matarfíkn – og að láta stjórnina frá mér, hætta að reyna að stjórnast í matnum, enda var það orðið augljóst að ég gat þetta ekki ein, og gera það sem mér var sagt,“ segir Ragnheiður.

Hér er Ragnheiður ásamt syni sínum þegar hún var þyngri ...
Hér er Ragnheiður ásamt syni sínum þegar hún var þyngri á sér.

September 2010 er minnisstæður fyrir margar sakir en þá byrjaði Ragnheiður í fráhaldi frá matartegundum sem hún er ekki fær um að borða í hófi. Hún hefur verið á þessu mataræði síðan þá með örfáum undantekningum. Þegar ég spyr hana hvernig fyrstu vikurnar og mánuðirnir hafi verið játar hún að þetta hafi verið snúið.

„Þetta var mjög erfitt til að byrja með og fyrstu sólarhringana fannst mér ég vera komin í fangelsi þar sem allt var grátt og ég sá ekkert bjart eða skemmtilegt framundan. Það sem var svo merkilegt var að fangelsisvistin varði stutt og brátt fór ég að upplifa áður ófundið frelsi. Það að fylgja þessum ramma sem ég borða eftir er nefnilega svo rosalega frelsandi. Ég þarf ekki stöðugt að pæla í hvort ég eigi að borða hitt eða þetta og hversu mikið,“ segir hún.

Ragnheiður og sonur hennar á sólarströnd fyrir meira en áratug.
Ragnheiður og sonur hennar á sólarströnd fyrir meira en áratug.

Ragnheiður var fljót að sjá árangur.

„Fyrsta mánuðinn missti ég sex kíló og þegar ég steig á vigtina þann daginn var ég einnig komin á mjög gott ról andlega,“ segir hún en í dag er hún 40 kílóum léttari en hún var í byrjun september 2010.

Það er eitt að léttast og annað að halda sér í ákveðinni þyngd. Þegar ég spyr Ragnheiði hvað hún borði á hverjum degi segist hún borða eftir ákveðnu prógrammi.

„Þar komum við aftur að ranghugmyndinni um megrun og kúra. Bæði fer líkaminn í sveltiástand og svo virkar bara megrun ekki til lengri tíma enda er hún, eðli málsins samkvæmt, tímabundin lausn. Fjölmargar rannsóknir sýna einnig að gamla, útþvælda tuggan, borða minna – hreyfa sig meira – virkar ekki í um 99% tilvika hjá þeim sem eru í yfirþyngd; hvað þá mikilli yfirþyngd. Þetta er nefnilega svolítið snúið því miðað við niðurstöður þeirra rannsókna sem ég hef kynnt mér sem gerðar hafa verið á fólki í ofþyngd sem reynir að létta sig þá er það því miður svo að líkurnar á því að komast í kjörþyngd eru því ekki hliðhollar. Líkaminn fer að brenna hægar og berst á hæl og hnakka við að endurheimta fyrri þyngd og setur íbúann í erfiða stöðu. Sumir rannsakendur halda því fram að það sé nánast ómögulegt fyrir fólk í ofþyngd að léttast til lengri tíma og telja að aðeins um 5% þeirra sem reyni að létta sig takist að halda kílóunum í burtu. Ég er allavega hingað til í þessum þrönga hópi og það er eflaust vegna þess að ég fylgi ansi öfgafullu prógrammi. Ég hef tekið út ákveðnar matartegundir, borða þrisvar á dag og aðeins fyrirfram ákveðinn mat sem ég vigta og mæli. Að auki hitti ég aðra sem eru að gera það sama og ég og við veitum hvert öðru styrk. Ég hreyfi mig vissulega líka talsvert en ég tel það ekki vera ástæðu þess að ég hef lést um þessi kíló. Hreyfingin er bónus, gerir mig sterkari og úthaldsbetri og hefur kannski átt þátt í því að einhver kíló hafa fokið hraðar en hún virkar mest á mig sem þunglyndislyf og gleðigjafi. Ég borða yfirleitt frekar hreinan mat; ávexti, mikið grænmeti, kjöt, fisk, mjólkurvörur og hveitikím. Mér þykir maturinn minn góður og ég hlakka oft til matartímanna. Það sem er einnig svo frábært við fráhaldið mitt er að ég þjáist ekkert af hungri nema bara eins og aðrir þegar það er liðið langt frá síðustu máltíð,“ segir Ragnheiður.

Hún fann sig í fráhaldinu og segir að allt annað sé fullreynt.

Ragnheiður var búin að gera margar heiðarlegar tilraunir til að létta sig.

„Ég hafði prófað allan andskotann. Ég fór í fyrstu megrunina mína ellefu ára gömul. Þá var ég farin að fá mjaðmir og brjóst sem ég ruglaði saman við fitu og ákvað því að borða aðeins epli og kotasælu í einhvern tíma og stunda djassballett af kappi. Ég hef þrælað ofan í mig óætum Herbalife-sjeikum í bílförmum, verið á sítrónuteskúr, svelt mig, borðað minna og hreyft mig meira og farið á skrilljón átaksnámskeið. Ég hef farið í Trimform og í margar vikur fylgdi ég gríðarlega geðþekkum kúr sem gekk út á það að borða aðeins töflur og drekka vatn annan hvern dag. Það er skemmst frá því að segja að þegar ég féll flöt á bossann eftir töflukúrinn stórsá á Hagabúðinni eftir innrás mína í samloku- og sælgætisdeildina,“ segir hún og hlær.

Það gerðist margt hjá Ragnheiði eftir að hún léttist.

„Hjá mér fylgdi því aukið sjálfstraust, ánægjulegra líf, meiri hreyfigeta og miklu meira úrval í fatakaupum. Mér er mikilvægt að muna örvæntingarástandið sem ég var í þegar ég gafst upp, viðurkenndi að ég væri haldin matarfíkn og fór í fráhald. Með því er ég ekki að segja að allt hafi verið ömurlegt á meðan ég var feit eða að ég hafi verið lélegur pappír, alls ekki, en ég vildi bara hvorki burðast um með öll þessi aukakíló, né vera svona heltekin af ákveðnum matartegundum,“ segir hún.

Ragnheiður elskar að lyfta lóðum og labba á Esjuna.
Ragnheiður elskar að lyfta lóðum og labba á Esjuna.

Til að byrja með var Ragnheiður upptekin af því að standa sig í fráhaldinu en í seinni tíð hefur hún bætt inn hreyfingu og æfir nú af fullum krafti.

„Þegar ég hafði verið í rúmt ár í fráhaldi kynnti samstarfskona mín mig fyrir Body Combat og ég varð ástfangin. Ég stundaði það í þrjú ár eða þar til ég varð að sætta mig við að það hentaði mér ekki alveg nógu vel þar sem ég var sífellt að slíta einhverja vöðvaþræði í kálfanum á mér. Þá fór ég að bauka eitthvað í ræktinni og var aðallega í tækjasalnum. Systir mín, Agnes Kristjónsdóttir, er einkaþjálfari í World Class á Nesinu og í vetur fór ég í sex mánaða kraft- og styrktarþjálfun til hennar. Það fannst mér ótrúlega skemmtilegt og góð útrás og systir mín vill meina að ég sé nautsterk og finnst að ég ætti að æfa lyftingar að staðaldri.“

Það skiptir Ragnheiði miklu máli að hreyfingin sé fjölbreytt og skemmtileg.

„Ég hreyfi mig svona 3-4 sinnum í viku og fer þá í salinn og er aðallega í tröppuvélinni og á hlaupabrettinu og/eða geng á Esjuna. Ég þyrfti að vera að lyfta á móti og ég stefni á að byrja aftur í haust,“ segir hún og bætir við:

„Ég hef þróað með mér smá Esjuáráttu og fer nokkrum sinnum í viku upp að Steini nema á veturna, ég er nefnilega algjör sparibomsa og hef engan áhuga á að berjast um í snjó, stormi og hálku. Það er eitthvað svo stórkostlegt við þessa hreyfingu. Ég verð endurnærð af áreynslunni, náttúrunni og hreina loftinu og líður vel með mig. Ég elska Esjuáráttuna mína og vel hana alla daga fram yfir gömlu snickers- og Nóakroppsáráttuna. Það er alveg hægt að draga mig á önnur fjöll en Esjan er í uppáhaldi. Í mér blundar keppnismanneskja og ég er alltaf að reyna að toppa tímann minn. Í Esjubröltinu fæ ég útrás fyrir keppnisperrann í mér og það veitir mér ómælda ánægju þegar mér gengur vel.“

Langar þig aldrei í sykur og sætindi?

„Yfirleitt ekki. Það kemur fyrir en það er sjaldan og þegar ég skoða það þá reynist það yfirleitt gerast þegar ég er eitthvað óhagstæð eða hef lítið sinnt andlega prógramminu mínu eða þegar mataráreitið er með mesta móti eins og þegar Nói frændi heldur innreið sína og heldur matvöruverslunum landsins í gíslingu um páska og jól.“

Ragnheiður er ekkert feimin að viðurkenna að líf hennar hafi breyst mjög mikið, ekki bara eftir að hún byrjaði í fráhaldi heldur hætti hún að drekka vín fyrir 12 árum.

„Breytingin hófst eiginlega með því að ég hætti að drekka fyrir tólf árum. Það fór talsverður tími í að djamma, horfa á sjónvarpið og borða slikkirí og reykja af kappi. Í dag lifi ég heilbrigðara lífi. Ég bý yfir mun meiri ró í líkamanum og er ekki alltaf að leita að næsta fixi. Ég hef meira sjálfstraust og líður betur í eigin skinni. Ég kynntist kærastanum mínum fyrir fjórum og hálfu ári svo ég er í fyrsta sinn í sambúð sem er voðalega gaman.“

Hvað gerir þig hamingjusama í dag?

„Að sumu leyti gera aðrir hlutir mig hamingjusama í dag en áður. Ég veit ekki hvort það er breytingin sem ég hef gengið í gegnum – andleg og líkamleg – eða það að eldast. Ég held að það sé blanda beggja. Með hverju árinu sem líður fæ ég meiri áhuga á alls konar drasli, langar að læra eitthvað nýtt og prófa eitthvað nýtt. Verð áhugasamari og í senn verður mér það ljóst hvað ég kann og veit lítið í stóra samhenginu. Það er fjölmargt sem gerir mig hamingjusama. Sonur minn, kærastinn, góður veðurdagur á Esjunni, vel heppnað verkefni í vinnunni, krúttleg dýr í náttúrunni, ljúffeng máltíð, góður félagsskapur, að spila með fyndnu fólki, lykt af grasi og grilli á sólardegi, notaleg stund með sjálfri mér og hugsunum mínum í sófanum í Laugum eftir sveitta æfingu, sjávarniður við strönd, Chie Mihara-skór og margt, margt fleira.“

Upplifir þú að þú hafir fengið nýtt líf við að léttast?

„Stutta svarið er já! Lengra svarið er það að ég hef gengið í gegnum miklar breytingar samfara því að léttast. Ég hef unnið mikið í sjálfri mér á mörgum sviðum og það að taka út matartegundir sem ég get ekki neytt í hófi, eða mér að skaðlausu, hefur gefið mér mikið frelsi og tekið frá mér þráhyggju. Þá skapast mikið rúm og tími fyrir margt skemmtilegt. Hvað varðar sjálfa líkamsþyngdina þá er ég mun ánægðari með mig núna. Mér finnst skemmtilegra að kaupa föt og enn skemmtilegra að klæðast þeim. Ég hef meiri orku og það er óhætt að segja að það munar miklu að skottast um 40 kílóum léttari. Ég er ekki lengur sú sem situr hjá þegar það á að fara í adrenalíngarðinn, river rafting eða fjallgöngur. Ef ég hef áhuga á því, þá geri ég það. Litlu hlutirnir gleðja mig.“

Hárskrautið toppar jólahárið

16:20 Hugrún Harðardóttir, hárgreiðslumeistari á Barbarella, er komin í hátíðarskap og segir að jólahártískan einkennist af miklum glamúr og að hárskraut hafi aldrei verið vinsælla. Meira »

Tveggja hæða penthouse í 101

13:20 Hvern dreymir ekki um tveggja hæða penthouse-íbúð á besta stað í 101 Reykjavík með útsýni út á sjó? Ef þú ert einn af þeim þá er þessi 121 fm íbúð við Klapparstíg 7 tilvalin fyrir þig. Meira »

Hlýlegt og nýmóðins í Kópavogi

10:29 Við Ásaþing í Kópavogi stendur ákaflega huggulegt 257 fm raðhús á tveimur hæðum. Raðhúsið er með innbyggðum bílskúr og stendur á fallegum útsýnisstað. Björgvin Sæbjörnsson, arkitekt á arkitektastofunni Apparat, hannaði húsið að utan og innan. Meira »

Þegar lífið var „fullkomið“

07:15 „Ég var áður fyrr ein af þessum brjálæðislega flottu húsmæðrum sem sá um að ekkert væri óhreint á heimili mínu fyrir jólin… silfrið var pússað, gluggar þvegnir og Guð forðaði mér iðulega frá því að skáparnir, ísskápurinn og ofninn urðu ekki út undan í þessari árlegu hreingerningu.“ Meira »

Heimsins flottasta hönnunarteiti

Í gær, 23:28 Það var glatt á hjalla á Skólavörðustígnum þegar Geysir svipti hulunni af glænýrri verslun sem sérhæfir sig í heimilisvöru. Geysir heima á Skólavörðustíg er svo sannarlega verslun fyrir fagurkera. Meira »

Þráir að komast á hundasleða

Í gær, 20:28 Þorbjörn Sigurbjörnsson, kennari og þriggja barna faðir í Kópavogi, ákvað að venja sig á að segja alltaf já, ekki nei, þegar hann var beðinn um eitthvað. Meira »

Svona bjó Meghan þegar hún kynntist Harry

í gær Áður en að Meghan Markle flutti í lítið hús við Kensington-höll bjó hún í leiguhúsnæði í Toronto. Húsið er kannski ekki mjög stórt en þó feiki nógu stórt fyrir þau Meghan, hundana hennar og Harry þegar hann kíkti í heimsókn. Meira »

Pólitísk plott og átök

í gær Það var glatt á hjalla þegar Björn Jón Bragason fagnaði útkomu bókar sinnar, Í liði forsætisráðherrans eða ekki? í Máli og menningu á Laugavegi. Bókin fjallar um pólitísk plott og hvað gerist að tjaldabaki í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi frá aldamótum. Meira »

Í 140 þúsund króna sokkum

í gær Sokkar eru ekki bara sokkar, Gucci-sokkarnir sem söngkonan Rihanna klæddist á dögunum kosta meira en ársbirgðir af sokkum.   Meira »

Þetta er Pantone litur 2018

í gær Hönnunarþyrstir einstaklingar eru yfirleitt í stuði á þessum árstíma þegar nýr Pantone litur er kynntur. Litur ársins 2018 er Ultra Violet eða Útfjólublár og ber litaheitið PANTONE 18-3838. Meira »

Arnar Gauti verður listrænn stjórnandi

í gær Arnar Gauti Sverrisson hefur verið ráðinn listrænn stjórnandi heimilissýningarinnar Lifandi heimili og hönnun sem fram fer í Laugardalshöll 1.-3. júní 2018. Sýningin var haldin í fyrsta skipti í fyrra undir nafninu Amazing home show en breyttu nafni fylgja breyttar áherslur. Meira »

Framhjáhaldið hófst í hádegismatnum

í gær „Hann sótti mig og við keyrðum á sveitahótel þar sem við borðuðum yndislega máltíð. Hann fór frá borðinu og bókaði herbergi. Við vissum bæði hvað við vildum.“ Meira »

Guðni Már skilinn

í fyrradag Guðni Már Henningsson útvarpsmaður á Rás 2 er skilinn við Mariu Ylfu Lebedeva sem er ljósmyndari. Eiríkur Jónsson greinir frá þessu. Meira »

Viltu skarta þínu fegursta um jólin?

í fyrradag Þegar einn annasamasti tími ársins er á næsta leiti hættir okkur til að gleyma gleðinni í amstri dagsins. Auk daglegra verka eru flest okkar í óðaönn að skipuleggja hátíðina, skreyta húsið að utan og innan, undirbúa að pakkarnir verði á sínum stað. Meira »

Eftirlætismaskari Lilju Ingva

10.12. Lilja Ingvadóttir einkaþjálfari er mikil áhugamanneskja um snyrtivörur en hún segist gjarnan verða eins og krakki í nammibúð þegar hún kíkir í snyrtivöruverslanir. Við fengum að kíkja í snyrtibuddu Lilju og forvitnast um eftirlætis maskarann. Meira »

Christian Louboutin hannaði Stjörnustríðsskó

10.12. Skóhönnuðurinn Christian Louboutin hannaði fjögur skópör í tilefni af frumsýningu Star Wars: The Last Jedi. Skórnir eru hannaðir út frá fjórum kvenpersónum en bera um leið helsta einkenni Louboutin, rauða sólann. Meira »

Stella ofursvöl í Spaksmannsspjörum

í fyrradag Stella Blómkvist hefur slegið í gegn í Sjónvarpi Símans Premium en hún fer með hlutverk lögfræðings sem blandast inn í æsispennandi mál. Leikkonan Heiða Reed, sem leikið hefur í þáttunum Poldark, leikur Stellu. Meira »

Fimm merki um að rassinn sé of aumur

10.12. Það er ekki nóg að gera bara magaæfingar þar sem það skiptir líka máli að hafa sterka rassvöðva. Þú færð ekki bara kúlurass af því að gera rassæfingar heldur getur líkamsstaðan líka batnað. Meira »

Nýtt útlit fyrir 6.000 kr.

10.12. Eftir langt tímabil hvítra veggja eru litaðir veggir að verða móðins á ný. Fyrir um fimm árum fór að bera á gráum tónum og að heilu íbúðirnar væru málaðar í sama lit, bæði veggir og loft. Síðan tók blái liturinn við en nú er grænn að verða vinsælli. Meira »

Líkamstjáning sem margborgar sig

9.12. Til þess að koma vel fyrir getur ekki bara borgað sig að halda augnsambandi og heilsa fólki af öryggi þar sem það er líka ráðlagt að spegla hreyfingar fólks, þó ekki á kjánalegan hátt. Meira »
Meira píla