Sigraðist á matarfíkn og missti hátt í 50 kíló

Rebekka Ósk Sváfnisdóttir er hætt að láta mat stjórna lífi …
Rebekka Ósk Sváfnisdóttir er hætt að láta mat stjórna lífi sínu. mbl.is/Hari

Fyrir rúmu einu og hálfu ári var Rebekka Ósk Sváfnisdóttir tæpum 50 kílóum þyngri en hún er í dag. Líkami hennar var í slæmu ástandi og hún glímdi við matarfíkn. Einn daginn vaknaði hún og ákvað að nú væri komið nóg.

Rebekka segir að sér hafi liðið eins og gamalli konu í ungum líkama, svo slæmt var líkamlegt ástand hennar. „Á þessum tíma þegar ég var sem þyngst þá fór ég í gegnum hvern dag sem hálfgerður draugur. Það var allt rosalega erfitt. Ég forðaðist tröppur eins og heitan eldinn og tók alltaf stystu vegalengdir hvert sem ég fór, einfaldlega vegna þess að þetta var of erfitt fyrir mig. Ég varð andstutt við minnstu hreyfingu, ég var með slæma mjóbaksverki, og oft þreytt í hnjám. Bara það að standa upp úr sófa var álag eða fara inn og út úr bílnum var erfitt,“ segir Rebekka.

Matur og sælgæti var huggun

Rebekka, sem á tvö börn, var í sínu versta ástandi þegar hún ákvað að taka til í mataræðinu. „Það má eiginlega segja að einn daginn hafi ég vaknað og ákveðið að ég yrði að gera eitthvað í mínum málum því mig langaði ekki að lifa lífinu óhamingjusöm lengur,“ segir Rebekka um þá ákvörðun að breyta til. Fyrir þetta hafði hún reynt ýmsa megrunarkúra og oft náð af sér tíu til fimmtán kílóum en ekkert dugði til lengdar.

Rebekka hefur náð glimrandi góðum árangri.
Rebekka hefur náð glimrandi góðum árangri. mbl.is/Hari

Rebekka glímdi við matarfíkn og var það ein aðalástæðan fyrir slæmu líkamlegu ástandi hennar. „Í mínu tilfelli þá leita ég rosalega í mat og sælgæti sem huggun fyrir öllu eða bara verðlauna mig fyrir allt með mat. Alveg sama hvað það var þá verðlaunaði ég mig með sælgæti eða skyndibita og ég gat ekki hætt,“ sagði Rebekka.

Rebekka byrjaði því rólega og tók fyrst út glúten og mjólkurvörur en hún er með óþol fyrir hvoru tveggja. „Ég borðaði grænmeti, fisk, kjöt, egg, kjúkling og ávexti og drakk vatn í öll mál. Þetta var sjúklega erfitt fyrst um sinn og hugurinn reyndi allt til að fá mig til að fá mér eitthvað gott. En ég var þarna komin á botninn og ég ákvað að vera sterkari og komast í gegnum þetta,“ sagði Rebekka sem lagði ekki einu sinni í að leyfa sér nammidag fyrst um sinn því alla hennar tíð hafði það endað með óstjórnlegu áti alla vikuna.

Keppnisskapið hjálpaði

Eftir átta mánuði á þessu mataræði leyfði Rebekka sér aftur að fá sér eitthvað óhollara, sérstaklega ef hún var í matarboði eða eitthvað slíkt. Ástæðan fyrir því að hún gat leyft sér það var sú að hún fann að matur stjórnaði ekki lengur lífi hennar, hana langaði hreinlega ekki í skyndibita og sælgæti. 

Eftir átta mánuði fór hún líka að hreyfa sig með því að fara í göngutúra en hún hafði fram að þessu misst 35 kíló bara með breyttu mataræði. Hins vegar þegar hún var búin að missa 42 kíló stóð hún bara í stað. Rebekka þakkar keppnisskapinu árangurinn og vegna þess sætti hún sig heldur ekki við að standa í stað. Rebekka skráði sig í fjarþjálfun hjá Jóhanni Norðfjörð og segist hafa dottið í lukkupottinn þegar hún kynntist honum.

Rebekka er gjörbreytt manneskja.
Rebekka er gjörbreytt manneskja.

„Jóhann var ekki lengi að búa til fyrir mig matarprógramm og æfingaplan og ég byrjaði að mæta í ræktina. Hann er svakalegur i að peppa mann upp og halda manni við efnið. Í dag eru kílóin orðin 47 og ég er komin með tónaða handleggi; nokkuð sem ég hef aldrei séð áður gerast með líkama minn,“ segir Rebekka, sem er æst í að halda áfram.

Rebekka, sem er einstæð tveggja barna móðir, lætur ekki annríki hversdagsins eyðileggja fyrir sér. Á hverju kvöldi undirbýr hún mat fyrir morgundaginn sem hún tekur með sér í vinnuna. Börnin fara í pössun í ræktinni eða hjá ömmu sinni þegar Rebekka hreyfir sig. „Þeim þykir þetta mjög skemmtilegt og þau eru ánægð að sjá breytingarnar á mömmu sinni og eru áhugasöm um hvað mamma er að gera,“ segir Rebekka ánægð.

Megrunarkúrar skila ekki árangri

Rebekka hefur fundið mikla breytingu á sér eftir að hún breytti um lífsstíl. „Það er svolítið sérstakt hvað bragðlaukarnir breytast svakalega eftir vissan tíma af því að borða bara hreina fæðu. Mér þykir margt mjög vont á bragðið í dag sem ég leitaði mikið í áður fyrr. Ég er hins vegar mannleg og það hafa komið stundir þar sem ég er við það að gefast upp en í stað þess að brjóta mig niður þá bara fæ ég mér eitthvað gott þann daginn og sleppi ræktinni og mæti svo öflugri en áður daginn eftir. Þetta gerist þó ekki oft og í raun örsjaldan,“ segir Rebekka sem fær sér frekar góðan mat, sushi eða steik, í stað þess að fá sér nammi.

Rebekka mælir með því að fólk sem er í sömu stöðu og hún var í hætti að pæla í þessum endalausu megrunarkúrum sem eru í boði og fari að borða alvörumat. „Það er það eina sem hefur virkað fyrir mig. Annað ráð er að gera ekki allt í einu, takið eitt skref í einu og sýnið þolinmæði því þetta gerist ekki hratt. Þetta tekur tíma og þrautseigju og allan þinn kraft og þolinmæði,“ segir Rebekka sem mælir einnig með að fólk leiti sér aðstoðar fagfólks þegar það er tilbúið að hreyfa sig. „Þegar boltinn fer að rúlla og vellíðan í stað vanlíðanar kemur inn í líf þitt þá verður ekki aftur snúið,“ segir Rebekka.

Rebekka segir að það sé ekki aftur snúið þegar vellíðan …
Rebekka segir að það sé ekki aftur snúið þegar vellíðan kemur í stað vanlíðan. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál