Þráir að komast á hundasleða

Þorbjörn Sigurbjörnsson ásamt konu sinni og börnum þeirra þremur.
Þorbjörn Sigurbjörnsson ásamt konu sinni og börnum þeirra þremur.

Þorbjörn Sigurbjörnsson, kennari og þriggja barna faðir í Kópavogi, ákvað að venja sig á að segja alltaf já, ekki nei, þegar hann var beðinn um eitthvað. Þetta viðhorf hans til lífsins hefur leitt til þess að nú er hann að reyna að komast í 300 kílómetra hundasleðaferð frá Norður-Noregi til Norður-Svíþjóðar. Ferðin tekur fimm daga og þarf Þorbjörn á hjálp lesenda að halda til að láta kjósa sig í ferðina. 

Áður en við ræðum hundasleðaferðina spyr ég hann hvers vegna hann sé svona mikill útivistarmaður. 

„Þörf fyrir útiveru og einhvers konar útivist held ég að blundi í flestum Íslendingum. Við erum alin upp í samfélagi án veggja, ef svo má segja, í þeim skilningi að hér er fátt sem byrgir þér sýn, mikið um opin svæði, það er alltaf stutt sveitina og auðvelt að koma sér út fyrir bæinn. Við búum í landi án landamæra og það held ég að einkenni okkur að einhverju leyti. Það er allt hægt, en það þarf að hafa aðeins fyrir því, taka ákvörðun og koma sér af stað,“ segir Þorbjörn. 

Fyrir nokkrum árum tók Þorbjörn stóra ákvörðun. 

„Ég tók þá ákvörðun fyrir nokkrum árum síðan að venja mig á að segja já sem fyrsta svar ef ég var spurður eða beðinn um eitthvað. Viðbrögð mín yrðu þá til þess að ég yrði hluti af því sem væri að gerast í stað þess að vera áhorfandi. Að segja já við öllu hefur reyndar komið mér í ýmis vandræði, sem flest eru nú leysanleg og leiða yfirleitt til þess að úr verða skemmtileg ævintýri, bæði stór og smá.

Stundum er það þannig með verkefnin sem maður segir já við að maður nennir ekki af stað eða á erfitt með að byrja en þegar verkefninu er lokið þá er það yfirleitt góð minning sem að hefur þroskað mann og skilað einhverju í reynslubankann sem hægt er að lifa á. Þetta viðhorf, að segja já, hefur leitt mig hingað og þangað um heiminn og einnig í ferðalög vítt og breitt um Ísland. Ég hef hitt margt gott fólk í þessum ferðum, gert skemmtilega hluti og komið ríkari til baka í einhverjum skilningi þó svo að veskið hafi ekki gildnað á þessum ferðalögum.

Sjálfur lifi ég venjulegu og góðu hversdagslífi eins og margir aðrir. Ég vinn sem kennari, bý í Kópavoginum ásamt konunni minni og börnunum okkar þremur. Ég tel mig ekki vera harðkjarna útivistarmann þó svo ég sé að skrá mig í Fjällräven Polar-ferðina. Ég sá þessa ferð auglýsta fyrir einhverju síðan og var í smá tíma að melta hvort ég ætti að taka þátt. Eftir viku eða svo þá ákvað ég að skella mér út í þetta. Ég hef í raun ekki gert neitt þessu líkt áður,“ segir hann og bætir við: 

„Til þess að komast í ferðina þurfti ég að setja inn lýsingu á mér heimasíðu Fjällräven og reyna þannig að fá atkvæði kjósenda. Sá þátttakandi sem fær flest atkvæði vinnur sér inn sæti í ferðinni. Þessu fylgir auðvitað að hringja í vini og ættingja, fá fólk til að deila á Facebook og hvetja fólk til að kjósa.

Mér hefur fundist eins og ég sé að angra fólk þegar ég er að biðja það um að deila og kjósa, en þetta hefst ekki öðruvísi. Ég vona bara að fólk taki vel í þetta og hjálpi Íslendingi að komast í þessa ferð. Fyrir mér er þetta ekkert annað, eins konar jólagóðverk, að styðja við bakið á einhverjum manni sem langar að komast í hundasleðaferð. Kosningu lýkur 14. desember og tíminn er því naumur þegar kemur að því að smala saman atkvæðum,“ segir hann. 

Ferðin sjálf er 300 kílómetrar, frá Signaldalen í Norður-Noregi yfir til Väkkäräjärvi í Norður-Svíþjóð. Ferðin sjálf tekur um 5 daga. Það er allra veðra von í ferðinni. Kuldinn getur farið niður í -30°C á þessum slóðum, það getur verið falleg vetrarstilla eða snjóstormur. Við þekkjum þetta hérna á Íslandi en að vera á hundasleða allan daginn og gista í tjaldi á leiðinni er eitthvað sem er nýtt fyrir mér.

„Það sem mér finnst spennandi við þessa ferð er auðvitað að koma á nýja staði sem maður myndi ekki annars fara á undir venjulegum kringumstæðum en það sem heillar mest við ferðina er þó að kynnast þessari menningu og að verða hluti af heild sem samanstendur af þér og hundunum. Hver sleði er dreginn af 6 - 8 hundum og þú þarft að stóla á þá allan tímann að koma þér dagleiðina í hvert skipti og sömuleiðis þurfa þeir að treysta á að þú gefir þeim að borða og sért með góða stjórn á hópnum. Þarna fær maður tækifæri á vera í annars konar samskiptum við hunda en maður hefur áður vanist,“ segir Þorbjörn. 

„Sjálfur átti ég hund og konan mín einnig þegar við vorum yngri og það hefur alltaf blundað í manni að fá aftur hund á heimilið. Ég tel að það geti haft góð áhrif á börn að alast upp með dýrum. Þau upplifa annars konar tilfinningar gagnvart dýrum en fólki, annars konar ást ef svo má segja.“

Í ferðinni verða með í för yfir 200 síberíu- og alaska huskie-hundar. Þessir hundar eru mjög sterkir, duglegir og greindir. Þeir eru vanir miklum kulda og geta sofið úti alla ferðina, svo traustur er feldurinn og húðin. „Á kvöldin þegar dagleiðin er búin ýlfra hundarnir allir í kór og hver ofan í annan. Næsta morgun eru þeir svo klárir í ævintýri dagsins, fullir tilhlökkunar að fá að hlaupa og hamast.

Að fá tækifæri til að taka þátt í svona ferð er auðvitað stórkostleg lífsreynsla. Þetta gæti verið ein af þessum „einu sinni á lífsleiðinni“-ferðum. Öll reynsla, allar ferðir, allt nám, vinna og í raun allt sem maður gerir í lífinu mótar mann. Svona ferð á eftir að stækka mig eða minnka, það kemur í ljós. Að þeysa á hundasleða fyrir norðan heimskautsbaug með góðu fólki og fullt af hundum held ég að verði stórkostlegt.“

Ef þið viljið koma Þorbirni úr landi þá er kosið HÉR. Athugið að kosningu lýkur 14. desember og því þarf þetta að gerast sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál