Þurfti að létta sig fyrir kynleiðréttingu

Snædís Yrja Kristjánsdóttir fer í kynleiðréttingu 30. janúar næstkomandi hjá Hannesi Sigurjónssyni lýtalækni. Hún átti að fara í aðgerðina í fyrra en það gekk ekki upp því hún var of þung á sér. Nú er hún á fullu í ræktinni og að borða hollt til þess að af þessu geti orðið. Í millitíðinni fór hún í magaminnkunaraðgerð sem gerði það að verkum að hún losnaði við 30 kíló. Magaminnkunaraðgerðin gerði það að verkum að hún hafði minni matarlyst. 

„Þótt ég sé búin að léttast um 30 kíló þá þarf ég að skafa meira af mér. Ég hef sjö vikur til þess en þetta er nauðsynlegt svo aðgerðin gangi betur,“ segir Snædís Yrja.

Aðspurð hvað hún þurfi að missa mörg kíló í viðbót segir hún að læknirinn hafi ekki gefið það upp, bara passa mataræðið og æfa. 

„Planið var að fara í þessa aðgerð í fyrra en það gekk ekki því ég var of feit,“ segir hún hreinskilin og segir að þetta sé ekkert til að skammast sín fyrir.

Þegar ég spyr hana að því hvernig hún skafi af sér segist hún forðast hveiti og sykur. Auk þess er hún farin að borða hafragraut sem hún segir að geri sér gott þótt henni finnist hann samt vondur. 

„Ég reyni að mæta í ræktina daglega og geri léttar æfingar. Ég reyni að fara á hlaupabretti í korter og geri svo fótapressu og nokkrar handaæfingar í tækjunum. Svo fer ég á mottuna og geri rass- og magaæfingar. Svo reyni ég að borða hlutfallslega minna,“ segir hún. 

Ferlið sjálft, að breyta sér úr karli í konu, hófst fyrir fjórum árum. Í janúar fer lokaaðgerðin fram en þá verður kynfærunum breytt, limur skorinn af og leggöng búin til. Snædís Yrja segist aðallega vera spennt fyrir ferlinu þótt hún kvíði því örlítið að finna fyrir sársauka eftir aðgerðina.

„Það er svo skrýtið, ég er ekkert stressuð fyrir aðgerðinni. Ég hlakka meira til því þetta er bara svo rétt. Ef ég á að vera hreinskilin þá hlakka ég bara til að verða ég,“ segir hún og bætir við:

„Typpið verður tekið af og snúið inn og þar verða búin til leggöng. Svo eru teknar ákveðnar æðar úr kónginum og settar þar sem snípurinn á að vera. Eftir sex mánuði þarf ég að fara í aðra aðgerð þar sem kynfærin verða löguð útlitslega séð.“

Hún segir að fólk sem farið hafi í kynleiðréttingu fái í 90% tilfella fullnægingu. „Rannsóknir sýna fram á að þetta geti alveg gengið.“

Þegar Snædís Yrja er spurð út í ástarlíf sitt segist hún enn ekki hafa fundið hinn eina rétta. 

„Ég er að bíða eftir rétta prinsinum. Hann kemur þegar ég verð tilbúin. Hann mun koma 2018. Nóg er nú athyglin,“ segir hún og hlær.

Snædís Yrja er ekkert feimin við að deila lífi sínu með fólki og er sérstaklega opin og einlæg á Snapchat. Hún játar að fólk sé mjög forvitið um hana og yfirleitt kunni hún að meta athyglina. Það koma þó tilvik þar sem karlmenn fara yfir strikið. 

„Það sem mér finnst óþægilegast er að karlmenn halda að þeir geti komið illa fram við mig. Þeir adda mér á snapchat eða facebook á föstudegi og eyða mér út á mánudegi. Þeir halda líklega að ég hoppi upp í rúm með hverjum sem er, en ég geri það ekki.“

Þrátt fyrir að hafa lent illa í nokkrum körlum er hún alls ekki búin að missa trúna á ástina og karlkynið. Þegar ég spyr hana hvernig mann hana langi í segist hún þrá mann sem fái hana til að hlæja. 

„Hann má gjarnan vera hávaxinn og góður. Það skiptir mestu máli. Hann verður að vera góður.“

Áður en Snædís Yrja hóf kynleiðréttingarferlið lét hún frysta úr sér sæði til að eiga möguleika á því að eignast afkvæmi í framtíðinni.

„Það er hægt að geyma sæði í tíu til tólf ár og fyrir þetta borga ég 22 þúsund krónur á ári. Mér finnst nauðsynlegt að halda í vonina að eignast barn. Ég er viss um að það komi upp löngun til þess síðar.“

Það er kannski ekki alveg hefðbundið lífsmunstur að skipta um kyn. Þrátt fyrir að Snædís Yrja sé í óvenjulegum aðstæðum þá segist hún lifa ósköp venjulegu lífi.

„Ég vakna á morgnana og fer í ræktina. Ég hef áhuga á heilsu og útliti. Ég reyni að vera jákvæð alla daga og vera góð við fólkið í kringum mig. Um síðustu áramót strengdi ég ekki áramótaheitið að missa tíu kíló heldur að hrósa einhverjum á hverjum degi og það hefur komið með jákvæða strauma inn í líf mitt,“ segir hún.

Hér er hægt að fylgjast með Snædísi Yrju á Snapchat. …
Hér er hægt að fylgjast með Snædísi Yrju á Snapchat. Hún er opin og einlæg á þessum vettvangi og dregur ekkert undan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál