„Algjör viðbjóður í lokin“

Hjálmar og Þorbjörg litu vel út daginn eftir keppni.
Hjálmar og Þorbjörg litu vel út daginn eftir keppni. mbl.is/Árni Sæberg

Ljósmyndari Morgunblaðsins hitti fitnesparið Hjálmar og Þorbjörgu brún og stælt daginn eftir bikarmót í fitness í nóvember. Þegar blaðamaður heyrir í Hjálmari eru þau löngu búin að skola af sér sprey-tanið og hafa verið að taka það því rólega vikurnar fyrir jól en Hjálmar segir mótsundirbúninginn vera stífan.

Hjálmar fór heim með tvenn verðlaun af mótinu og Þorbjörg kærasta hans vann einnig í sínum flokki þó svo að mótið hefði verið hennar fyrsta. Þorbjörg smitaðist af fitness-áhuganum frá Hjálmari en hann byrjaði að keppa árið 2014. „Ég var búinn að æfa líkamsrækt í nokkur ár og það voru margir í þessu sporti niðri í World Class Laugum,“ segir Hjálmar um það hvernig áhuginn kviknaði. 

Æfa mikið

Það fer mikil vinna í að ná þeim árangri sem Hjálmar og Þorbjörg náðu en venjulega fara þau að lyfta um fimm sinnum í viku en æfa mun meira nokkrum vikum fyrir mót. Sömuleiðis breytist mataræðið en venjulega reyna þau að borða hollan mat eins og flestir aðrir. Þau borða þá kannski hafragraut í morgunmat og tvær stórar máltíðir, í hádeginu  og á kvöldin. Þau forðast sykur en leyfa sér þó meira um helgar.

Þorbjörg æfði stíft með Hjálmari fyrir keppnina.
Þorbjörg æfði stíft með Hjálmari fyrir keppnina. mbl.is/Árni Sæberg

Prógrammið verður þó öllu strangara á undirbúningstímabilinu sem hefst 14 vikum fyrir mót. Þá fjölgar æfingum hægt og bítandi upp í tvisvar á dag þar sem þau taka brennsluæfingu á morgnana. „Við notum langmest stigvélin bara. Engar þolæfingar, bara ná púlsinum upp og brenna fitu,“ segir Hjálmar. „Ætli við höfum ekki verið til að byrja með í 30 mínútur og svo hafi þetta endað í 60, 70, 80, 90 mínútum í lokin.“

Blaðamaður - sem finnst fimm mínútur á stigvélinni alveg nógu leiðinlegar - spyr hvort Hjálmari leiðist ekki í einn og hálfan tíma á stigvélinni? „Jú,“ viðurkennir Hjálmar. „Maður horfir stundum á einhverja þætti í símanum, hlustar á tónlist eða hugsar um mótið,“ segir Hjálmar sem veit að æfingarnar skila sér á mótsdegi.

Hjálmar æfir stíft fyrir mót með góðum árangri.
Hjálmar æfir stíft fyrir mót með góðum árangri. mbl.is/Árni Sæberg

Passa vel upp á mataræðið

Þrátt fyrir að þau Hjálmar og Þorbjörg borði frekar hollt venjulega þurfa þau að taka til í mataræðinu þegar undirbúningstímabilið fyrir keppni hefst. „Við byrjum að borða mikið af kolvetnum, höfrum en alltaf tvær stórar máltíðir eins og vanalega. Þegar líða fer að móti  borðum við minna af kolvetnum. Minnkum matinn, færri hitaeiningar. Síðustu fjórar vikurnar vorum við að borða mikið af hreinum eggjahvítum og hvítum fiski,“ segir Hjálmar og bætir því við að með fiskinum fái þau sér aspas eða strengjabaunir.

„Þetta er algjör viðbjóður í lokin,“ segir Hjálmar þegar blaðamaður spyr hvernig þetta fari í geðheilsuna. „Þetta er alltaf þess virði þegar maður stígur upp á sviðið. Þú ert að uppskera eftir alla þessa vinnu,“ segir Hjálmar sem er klár á því að einhæfnin sé þess virði. 

„Það þarf svo að hlaða inn kolvetnum fyrir mót. Stelpurnar byrja kannski deginum fyrir mót og strákarnir þremur dögum fyrir mót. Þessi kolvetni nýtast síðan bara sem fylling í vöðvana,“ segir Hjálmar sem fær aðallega þessi kolvetni úr kartöflum, sætum kartöflum og hrísgrjónum.

Á keppnisdeginum er keppt um morguninn og svo aftur um kvöldið. Hjálmar segir að á milli keppna hafi þau farið og fengið sér hamborgara og allt sem því fylgir, líka kokteilsósu.

Þorbjörg náði góðum árangri á sínu fyrsta móti.
Þorbjörg náði góðum árangri á sínu fyrsta móti. mbl.is/Árni Sæberg

Brúnkan hefur tilgang

Hjálmar og Þorbjörg eru vanalega ekki jafn brún og á myndunum. „Brúnkan hefur þann tilgang að sýna allar línur og vöðva betur. Ef við færum ekki í þessa brúnku og stæðum uppi á sviði undir öllum þessum ljósum myndum við bara hverfa. Hún hefur mjög mikinn tilgang,“ segir Hjálmar sem fer í sprey-tan fyrir keppni en þess á milli hangir hann ekki í ljósabekkjunum.

Þegar dómarar dæma í karlaflokki horfa þeir á hvernig keppandi samsvarar sér. Breiðir fætur á móti mjóu mitti þykir gott sem og breitt bak. Best er að vera mjög skorin/n þá sjást allir vöðvar, allar línur á milli vöðva. Einnig er horft á hvernig keppendur pósa. Hjálmar segir að allir geti keppt í fitness en genin skipta þó máli, til þess að ná langt í íþróttinni skiptir máli að vera með góð gen.

Það eru ekki bara ófeimið fólk sem hoppar upp á svið á nærfötunum. Hjálmar segir að það sé fólk með allskonar persónuleikagerðir sem taki þátt og tekur dæmi um Þorbjörgu kærustu sína. „Hún er ekkert vön að standa fyrir framan margt fólk en hún bara brosti í gegnum þetta.“

Vatnslosun mikil

Eitt af því sem vekur jafnan athygli og er stundum umdeilt er vatnslosunin en keppendur drekka nánast ekkert vatn rétt fyrir mót. Hjálmar segir vatnslosunina vera nauðsynlega til þess að allar línur sjáist. „Þú getur tapað mörgum stigum ef það sést einhver vatnsfilma utan á þér,“ segir Hjálmar um vatnslosunina.

„Maður byrjar að drekka meira af vatni svona tíu dögum fyrir mót. Þú drekkur fimm lítra fyrsta daginn og svo næsta dag sex og svo framvegis. Það er mismikið hversu mikið fólk drekkur.“ Hjálmar segir að sumir drekki 12 lítra á dag en hann sjálfur fór upp í níu og hálfan og Þorbjörg fór upp í sex og hálfan lítra. „Deginum fyrir mótið máttum við drekka fjóra og sex lítra en þurftum að hætta drekka vatn klukkan átta um kvöldið. Við fáum þó alltaf einhvern smá vökva kannski 300 millilítra yfir daginn,“ segir Hjálmar en þau máttu byrja að drekka vatn aftur um kvöldið þegar keppni var lokið. 

Gott að telja hitaeiningar

Hjálmar og Þorbjörg hafa mætt rólega í ræktina undanfarnar vikur og leyfa sér alveg að borða kræsingar yfir hátíðirnar en Hjálmar býst við að þau muni byrja af fullum krafti á nýju ári, svona eins og flestir aðrir landsmenn.

„Það virkar alltaf að telja ofan í sig hitaeiningar. Að borða minna af hitaeiningum á daginn en þú brennir. Þetta snýst allt um hitaeiningar inn og út,“ segir Hjálmar spurður hverju hann mælir með fyrir fólk sem vill taka sig á á nýju ári. Hjálmar mælir með smáforritinu MyFitnessPal fyrir þá sem vilja halda utan um hitaeiningainntöku.

Hjálmar æfir pósurnar vel fyrir keppni.
Hjálmar æfir pósurnar vel fyrir keppni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál