Yngdi upp fræga Breta

Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringaþerapisti, hjúkrunarfræðingur og eigandi Yogafood leiddi hóp af …
Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringaþerapisti, hjúkrunarfræðingur og eigandi Yogafood leiddi hóp af frægum Bretum í gegnum yngjandi prógramm. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorbjörg Hafsteinsdóttir leiddi sex fræga einstaklinga í gegnum yngingarprógramm í nýjum sjónvarpsþáttum sem sýndir verða í Bretlandi. Þættirnir heita „100 árum yngri á þremur vikum“. 

„Haustið 2017 fékk ég póst frá Jack, sem er caster og framleiðslustjóri hjá ITV, sem er ein stærsta sjónvarpsstöð Bretlands, svona álíka og BCB. Þau voru á höttunum eftir næringarsérfræðingi til að vinna að og taka þátt í nýrri röð sjónvarpsþátta byggðra á hugmynd Ians Philips sem er þekktur öldrunarlæknir í Bretlandi og hefur margra ára starfsreynslu í að kanna áhrifavalda öldrunar í fjölmörgum rannsóknarverkefnum. Í þessum þáttum sem um ræðir vildi hann skoða hvort lífsstílsþættir gætu dregið úr öldrun og líkaminn yngst í árum og í útliti,“ segir Þorbjörg Hafsteinsdóttir, næringarþerapisti og hjúkrunarfræðingur.

„Ég kom inn í myndina eftir að Jack rakst á mig og bókina mína, 10 árum yngri á 10 vikum, í gegnum Google. Bókin hefur verið þýdd á ensku. Eftir samtal við fleiri liði voru allir sammála um að ég væri sérfræðingurinn og persónan sem þau vildu. Það sem réð úrslitum var fyrst og fremst menntun mín og faglegur bakgrunnur. Ég varð að finna og senda þeim öll prófskírteini sem ég hef fengið til að sanna mitt mál, sem sýnir bara að ITV tekur enga sénsa með fagmennsku. Svo voru þau hrifin af því hvað ég lít vel og unglega út,“ segir hún og hlær. 

Þættirnir voru teknir upp á þremur vikum á Sardiníu, sem er eitt af svokölluðum Blue Zones-svæðum en í þannig umhverfi verður fólk óvenjulega gamalt.

„Maturinn sem eyjarbúar borðuðu hlýtur að vera góður og hollur fyrst þau urðu svona gömul eða hátt í 100 ára. Það var heilmikið sem ég gat notað fyrir mitt lið úr the Blue Zone diet, sérstaklega grænmetið og góða ólífuolían, en annars er borðað mikið brauð þarna, nokkuð sem ég fljótlega útilokaði algjörlega frá mínum hópi. Ég er sannfærð um að það er meira en bara maturinn sem ræður hvernig og hve hratt eða hægt maður eldist. Sardinía býður upp á sól, haf og frekar rólegt og streitulaust líf og þar að auki eru mjög sterk og náin fjölskyldutengsl og öryggi sem eldra fólkið upplifir þegar börn og barnabörn hugsa um þau daglega.“

Þau sem tóku þátt í þessari tilraun eru sex frekar þekktir einstaklingar í Bretlandi.

„Til dæmis June Brown, sem er leikkona og goðsögn Breta. Hún er 91 árs gömul og það voru virkileg forréttindi að kynnast henni og njóta samveru með henni í þrjár vikur. Hún var eiginlega best á sig komin af þeim öllum! En hún reykti og það mjög mikið og hefur gert síðan hún var unglingur. Dr. Philip og ég vorum á öndverðum meiði með hvort hún ætti að hætta að reykja eða ekki. June sjálf var alls ekki á því,“ segir Þorbjörg. 

Hitt fræga fólkið er allt leikarar, tónlistarfólk eða samfélagsmiðlastjörnur.

„Þau eru öll mjög skemmtileg og prímadonnur upp á 10! Öll áttu þau við sína næringar- og heilsudrauga að stríða. Sumir höfðu líka verið í neyslu sem setti líkamleg og andleg merki. Mitt hlutverk var að setja þau öll á einstaklingsbundið fæðuprógramm. Til þess notaði ég spurningalista, samtal og gena/DNA-próf. Ég notaðist við Life DNA sem við fengum frá Nordic Laboratories í Kaupmannahöfn. Ég þekki þau vel og kann að greina út frá þeim. Þar er hægt að fá mynd af því hvort það sé mikil eða lítil hætta á alls konar kvillum og sjúkdómum, bólgumyndun, afeitrunarhæfileikum og jafnvel áhættu á alzheimer.

Út frá öllum þessum upplýsingum gerði ég einstaklingsbundið næringarplan og allir fóru á detox. Ég hafði bara þrjár vikur þannig að það var að duga eða drepast! Samhliða voru allir í líkamsrækt og alls konar meðferðum, til dæmis hjá mér þar sem ég notaði hland úr indverskum kúm flutt inn fyrir ákveðna meðferð,“ segir Þorbjörg og brosir. 

Þorbjörg hefur um árabil leitt fólk í gegnum yngjandi prógramm en lesendur Smartlands fengu að kynnast því árið 2011 þegar fimm flottar konur fóru í gegnum „10 árum yngri á tíu vikum“. 

„Yngingarmaturinn minn er mjög svipaður því sem ég nota á Ljómandi-námskeiðunum mínum. Það getur ekki klikkað ef fólk gerir eins og ég segi og fylgir planinu og settum reglum. Það var ekki alveg að gerast hjá mínum dásamlega hóp á Sardiníu og ég má ekki ljóstra því upp eins og stendur hvernig þetta fór hjá þessum elskum. En ég stóð mig best! Engin spurning! Ég kom gráhærð heim aftur,“ segir hún og hlær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál