Guðríður hafði reykt í áratugi en hætti í veirunni

Guðríður Haraldsdóttir blaðamaður og prófarkalesari.
Guðríður Haraldsdóttir blaðamaður og prófarkalesari. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hætti loksins að reykja í apríl sl. eftir að hafa reykt í áratugi. Vissulega hafði ég sleppt því að ferðast til útlanda og kaupa brennivín, ég drekk voða lítið, sem var oft afsökun mín þegar mér var bent á háan reykingakostnað,“ segir Guðríður Haraldsdóttir blaðamaður og prófarkalesari í sinni nýjustu bloggfærslu á Moggablogginu: 

Þegar ég svo emjaði, ekki bara fyrir mína hönd, yfir fokdýrum hættuaðreykja-lyfjum, fyrri skammtur (4 vikuna) um 15 þúsund, seinni (8 vikna) 30 þúsund, var mér bent á að það kostaði mikið að reykja. Það hjálpaði ekki neitt því ég hafði aldrei keypt sígarettur fyrir 15 þúsund eða 30 þúsund í einu.

Ég hafði sem betur fer efni á þessu, enda í tveimur, þremur störfum og hætt að fara á milli með leið 57 sem kostaði sitt (fargjöld vel yfir 100 þús. á ári) og kaupa morgun- og hádegismat daglega sem kostaði eflaust einhverja tugi þúsunda á mánuði. Ætlaði nú samt alltaf að taka nesti og gerði það stundum - en banani etinn í flýti rétt rúmlega sex að morgni dugir eiginlega bara þar til strætó kemur í Mjódd þar sem lokkandi rúnnstykki og kakó í bakaríinu björguðu. Svo var náttúrlega mötuneyti andskotans á neðri hæðinni (um hríð) þar sem maturinn kostaði 1000 kall með niðurgreiðslu, og nánast allt djúpsteikt eða brimsalt og salatið brúnt á endunum. Þegar ég kvartaði eitt sinn yfir því að auglýsti soðni fiskurinn væri nætursaltaður, sagði gáttaður kokkurinn að það væri aldrei nætursaltaður fiskur á boðstólum ... 

Ég veð úr einu í annað ... Ókei, ég fór að taka þessi lyf (Champix, minnir mig) og eiginlega gegn eigin vilja, mig langaði ekkert ofboðslega mikið að hætta en samt ... Það sem hafði mest áhrif á mig var að læknir sagði sem sá fjórði á covid-þríeykisfundi að það væri aldrei of seint að hætta, fólk fyndi mun á sér nánast eftir sólarhring. Fram að því hafði ég ekki hlustað á þá sem sögðu að reykingafólk væri viðbjóður, illa lyktandi og ... baggi á heilbrigðiskerfinu. Það, nefnilega, var svo langt frá því að vera rétt í mínu tilfelli. Ég fer nánast aldrei til læknis, aldrei veik - en það gat vissulega breyst í einu vetfangi.

Ein af aðalástæðum þess að ég hætti að reykja var að ég vildi ekki ögra þessu lengur, það er ekki sjálfgefið að búa við svona góða heilsu og meta það ekki. Að bæði vera of þung og reykja gat ekki verið gott endalaust. Ég tek íbúfen stöku sinnum ef ég fæ í bakið, að ráði Betu sjúkraþjálfara. Ég tek inn D-vítamín, stundum járn og stundum B ...búið.

Aukaverkanir af champix voru nokkrar, held að bólusetningarlyf gegn covid komist ekki með tærnar þar sem það hefur hælana ... það var ógleði hjá mér (var samt glöð) og miklar draumfarir, því miður ekki jafnspennandi og hjá sumum öðrum sem ég veit um.

Á tólfta degi átti ég að drepa í minni síðustu en ég var allllls ekki tilbúin. Svo ég hélt áfram að reykja sem var sífellt viðbjóðslegra. Á nítjánda degi náði ég að reykja eina allan daginn og hún varð sú síðasta. Þetta var á afmælisdegi sonar míns sem hefði orðið fertugur þann dag, ef hann væri á lífi, það var algjöjr tilviljun.

Alltaf þegar ég fyllist löngun til að reykja, man ég eftir mótmælunum í lungunum á mér þennan síðasta dag og hversu ógeðslegt var að reykja ... síðan hef ég verið frjáls. Þrátt fyrir að hafa bara tekið lyfið í sjö vikur í stað tólf. Ógleðin var að drepa mig og margir segja að tveir mánuðir nægi alveg - samt var ég neydd til að kaupa þriggja mánaða skammt! Hitt ekki í boði sem er bjánalegt.

Þetta champix tók frá mér fleira en löngun í tóbak, ég byrja t.d. ekki lengur daginn á því að fá mér kaffi, fæ mér það kannski korteri eftir vakn, suðursúkkulaði fær að vera í friði í bökunarskápnum og þótt ég hafi ekki verið háð sjónvarpi, nokkrir þættir þó sem ég missti ekki af, er ég nánast hætt að nenna að horfa á það. Er t.d. bara búin með fyrsta þáttinn í nýju seríunni af The Crown - sem er furðulegt því þessir þættir eru æði. Ég horfi á fréttir Stöðvar 2 og RÚV, einnig veðurfréttir - stöku bíómynd, alltaf Gísla Martein því mér finnst hann skemmtilegur og velja oftast fína gesti ... Aftur á móti horfði ég bara á einn tónlistarþátt í covid-inu, það var Páll Óskar og Sinfó. Ég vil frekar fara á tónleika, orðið langt síðan síðast, þá voru það Dúndurfréttir hér á Akranesi, gjörsamlega stórkostlegt. 

Eins og sést á myndinni er ég enn sérlega fögur þrátt fyrir að öll þessi ár hafi liðið. Grímutískan hefur á einhvern óskiljanlegan hátt aukið vinsældir mínar hjá strákunum (körlunum) sem er ekkert annað en stórkostlegt, kannski er ég loksins farin að taka eftir því þegar daðrað er við mig, eins gott ef ég á að ganga út fyrir sjötugt.

Ég veitti mér (fyrir allan sparnaðinn af því að hætta að reykja) þann munað að fá mér einkaþjálfara og tókst að fara í ræktina með ýmsum afleiðingum ... meira um það síðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál