Gatan mín Þjóðólfsvegur í Bolungarvík

Soffía Vagnsdóttir heima á Þjóðólfsvegi í Bolungarvík. Þaðan sést inn …
Soffía Vagnsdóttir heima á Þjóðólfsvegi í Bolungarvík. Þaðan sést inn í dal, upp á Skálavíkurheiði og út á Ísafjarðardjúp hvar fylgjast má með bátaferðum. Sigurður Bogi Sævarsson

„Þjóðólfsvegur gengur eins og rauður þráður í gegnum alla mína tilveru. Ég var tveggja ára þegar ég flutti hingað með foreldrum mínum og hér bjó ég alveg fram að þeim tíma að ég fór í framhaldsskóla. Ég var fyrir sunnan í mörg ár og hafði þá viðkomu á nokkrum stöðum í borginni; svo sem á Hááleitisbraut, við Njálsgötuna, í Smáíbúðahverfinu og fleiri stöðum. Fyrir þrettán árum lá svo leiðin aftur vestur og þá æxluðust hlutirnir svo að ég flutti aftur á Þjóðólfsveginn og í hús sem mér fannst á æskuárum mínum alltaf vera eins og ævintýrahöll,“ segir Soffía Vagnsdóttir í Bolungarvík.

Þuríður og Þjóðólfur

Bolungarvíkin, sem er yst bæja við Ísafjarðardjúp, er hvað skipulag varðar áþekk öðrum íslenskum sjávarplássum. Elstu húsin standa niðri við höfnina, Brjótinn eins og Bolvíkingar segja; þar eru fiskvinnsluhúsin og íbúðarbyggingar sem voru reistar á fyrri hluta tuttugustu aldar. Ofar í bænum eru nýrri hús; við götur sem standa ýmist langsum eða þversum.

Aðalstræti er breiðstræti bæjarins og upp frá því liggur Skólastígur. Í framhaldi af Skólastígnum kemur Þjóðólfsvegur, sem nefndur er eftir Þjóðólfi, sem var bróðir landnámskonunnar Þuríðar sundafyllis. Þannig vísar heiti götunnar til ellefu hundruð ára sögu sem svo margt hefur mótað og þróast samkvæmt í aldanna rás. Og í ýmsu í Bolungarvík er til þeirra systkina vísað. Þegar komið er inn í bæinn er ekið um Þuríðarbraut og félag sjálfstæðismanna í bænum heitir Þjóðólfur. Hér þarf því ekki vitnanna við!

Bætti heilli hæð á húsið

„Ég er fædd árið 1958 í húsi sem stóð hér niðurundir fjöru og var kallað Manga Ella-búð. Málvenja var að kalla hús hér búðir og það á ekkert skylt við verslunarrekstur,“ segir Soffía. „Þegar ég var orðin tveggja ára fannst foreldrum mínum, Vagni Hrólfssyni og Birnu Pálsdóttur, nauðsynlegt að byggja, enda komin með tvær dætur og þriðja barnið á leiðinni. Því varð úr að fengin var teikning frá Byggingaþjónustu landbúnaðarins og samkvæmt henni var byggt. Og allt var þetta býsna frjálslegt; pabbi gerði flest sjálfur í húsinu og hefur líklega séð fyrir sér barnafjöld því hann bætti raunar strax heilli hæð ofan á húsið. Og veitti ekki af því í allt erum við systkinin sjö og því var oft þröng á þingi meðan allur hópurinn var heima.“

Soffía segir að Bolungarvík bernsku hennar hafi verið líkust ævintýraveröld. Höfnin og flæðarmálið var leikvöllur krakkanna og sömuleiðis nýbyggingar, en aldrei hefur meira verið byggt í Víkinni en á árunum um og eftir 1970. „Ég man eftir því þegar húsið á Þjóðólfsvegi 9, þar sem ég bý í dag, var reist. Þetta er sænskt einingahús og ég man enn eftir því þegar verið var að bera til flekana sem húsið er reist úr,“ segir Soffía um húsið sem stendur ofarlega í bænum þaðan sem sést vel inn í dal, upp á Skálavíkurheiði og út á Ísafjarðardjúp hvar fylgjast má með bátaferðum – en óvíða er smábátaútgerð í landinu jafnöflug og í Víkinni.

„Vissulega hefur talvert breyst í Bolungarvík frá því ég var að alast hér upp. Og raunar eru breytingarnar talsverðar frá 1998 þegar fjölskyldan sneri aftur vestur. Þó er sem var, að Víkin heldur afskaplega vel utan um sitt fólk. Útgerðin og fiskvinnsla eru vissulega með öðrum svip en áður og hver veit nema nýjar atvinnugreinar nemi land í öllu því húsnæði sem nú er tómt en hýst hefur sjávarútveg í gegnum tíðina, því fólkið sem hér býr er að bjástra við svo margt; til dæmis eru skapandi greinar í mikilli sókn og ferðaþjónusta er í raun nýr atvinnuvegur í bænum sem er mikilvægt að hlúa að,“ segir Soffía sem heldur úti ferðaþjónusturekstri í Bolungarvík jafnframt því sem hún er skólastjóri grunnskólans í bænum.

Tónlistarskólaafmæli Fjórir af þeim fimm sem verið hafa skólastjórar frá …
Tónlistarskólaafmæli Fjórir af þeim fimm sem verið hafa skólastjórar frá upphafi voru á hátíðinni en þau eru, frá vinstri: Kristinn J. Níelsson, Guðrún B. Magnúsdóttir, Soffía Vagnsdóttir og Ólafur Kristjánsson. Gunnar Hallsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál