Gatan mín Fálkagata í Reykjavík: Prentarinn í Hollywood

Baldvin Ársælsson við götuna sína, Flókagötu.
Baldvin Ársælsson við götuna sína, Flókagötu. Rax / Ragnar Axelsson

„Ég á allar mínar rætur fyrir vestan læk. Er alinn upp á Vesturgötunni en fluttist hingað árið 1969. Þú ættir kannski að tala við einhvern annan um lífið hér á Fálkagötu, ég þekki þetta ekki svo ýkja vel þó að ég hafi búið hér í 42 ár. Er tæplega hluti af þessu samfélagi. En auðvitað hef ég sitthvað séð og reynt hér,“ segir Baldvin Ársælsson sem býr á Fálkagötu 21 í Reykjavík.

Fálkagatan lætur ekki ýkja mikið yfir sér. Er þvergata sem liggur milli Suðurgötu og Dunhaga og er á miðju Grímsstaðaholti. Þetta er í hjarta Vesturbæjarins og einhvertíma var sagt – í gamni fremur en alvöru – að þeir sem hverfið byggja þurfi bæði að vera KR-ingar og sjálfstæðismenn svo þeir geti með réttu sagt sig Vesturbæinga. „Ég er þetta hvorttveggja, og er aukheldur fæddur í Vesturbænum og gekk á sínum tíma í Miðbæjarskólann. Ég er gegnheill,“ segir Baldvin og kímir.

Svartlistamaðurinn

Prentiðn var ævistarf Baldvins. Hann nam setjaraiðn hjá Steindórsprenti og starfaði þar lengi og var seinna um skeið verksmiðjustjóri hjá Pappírsveri sem framleiddi mjölpoka og sekki meðal annars fyrir síldarútveginn. Lengst starfaði Baldvin þó hjá Kassagerðinni, hvar hann stóð sem pressumaður við prentrokkinn.

„Mér fannst prentið alltaf skemmtilegt enda er þetta öðrum þræði listgrein. Einhverju sinni var talað um svartlistamenn og víst er svolítil kúnst að stansa, gylla og þrykkja,“ segir Baldvin sem snemma á starfsævi sinni greip stundum í aukavinnu hjá Víkingsprenti Ragnars í Smára, forleggjara Halldórs Laxness. Vann þar við m.a. setningu á bókum nóbelsskáldsins sem seinna varð nágranni hans á Fálkagötunni. Þannig var að rithöfundurinn átti lengi Reykjavíkurafdrep í blokkinni sem nær yfir húsin Fálkagötu 17-21. Og sú var tíð að þetta var sannkallað listamannahverfi og spírunar líkar þeim sem nú halda sig í 101 voru á Fálkagötu.

Leikarar í hverri íbúð

„Ég bý í Hollywood, en svo var þetta hús lengi kallað. Nafnið kemur til af því að þegar við konan mín, Þorbjörg Guðmundsdóttir og Ása dóttir okkar fluttum hingað bjó hér fjöldi leikara. Þeir hefðu þess vegna allir geta verið vestur í Kaliforníu,“ segir Baldvin.

Gunnar Eyjólfsson og kona hans, Katrín Arason, voru í sama stigagangi og Baldvin og fjölskylda – og eins hjónin og leikararnir Jón Sigurbjörnsson og Þóra Friðriksdóttir. Helga Bachman og Helgi Skúlason voru í húsi númer 19 og á 17 var Herdís Þorvaldsdóttir og svo Laxness. Af öðrum í götunni má nefna Guðjón Einarsson blaðaljósmyndara sem á sinni tíð var kunnur borgari.

Straumar í steypunni

„Þetta fólk er allt flutt héðan fyrir lifandis löngu og sumt fallið frá. Minningar sem m.a. tengjast krökkunum lifa þó enn. Ég man til dæmis eftir því þegar Þorgerður Katrín dóttir Gunnars og dóttir Jóns og Þóru voru hér fyrir utan og sungu hástöfum lagið Ob-La-Di - Ob-La-Da með Bítlunum. Og ég get líka framkallað í huganum mynd af litlum dreng sem var hér fyrir utan að leika sér í kringum bílana hér á stæðunum, Skúla Helgasyni sem nú er alþingismaður. Svo man ég líka eftir Laxness þegar hann kom í bæinn, uppábúinn og ók um á Jagúarnum sínum og var með leðurhanska þegar hann sat undir stýri. Íbúðin sem ég er í var upphaflega í eigu Gunnlaugs Scheving listmálara sem ætlaði sér að hafa vinnustofur en bar við að straumar væru í steypunni og fór því annað,“ segir Baldvin.

Baldvin og Þorbjörg búa á þriðju hæð í húsinu á Fákagötu.

„Ég er heppinn með útsýni. Ég sé fjallahringinn alveg frá Bláfjöllum, sem er fallegt að horfa til á vetrarkvöldum þegar ljósin í skíðabrekkunum glitra. Svo sé ég Heiðina há og Keili. Hér blasa við t.d. stóru skýlin á Keflavíkurflugvelli og Garðskagavita. Og teygi ég mig aðeins fram á svölunum sé ég í golfvöllinn á Seltjarnarnesi,“ segir Baldvin sem gerir sér ekki rellu yfir Reykjavíkurflugvelli í næsta nágrenni.

„Það var kannski helst hér í gamla daga að þetta hvekkti mig; þá horfði maður á Kanasjónvarpið og flugvélar sem voru að koma inn til lendingar fóru stundum þvert fyrir geislann sem var truflandi. En nú er herinn löngu farinn og sjálfsagt mál að flugvöllurinn sé áfram enda er hann leiðin út á land. Ætli ókosturinn hér sé ekki helstur velmegun fólksins. Í hverju húsi á fólk tvo til þrjá bíla og því oft erfitt að fá stæði í frekar þröngri götu,“ segir Baldvin Ársælsson Fálkagötumaður að síðustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál