Slegist um Omaggio-vasann í morgun

Þessi vasi seldist upp rétt rúmlega sex í morgun.
Þessi vasi seldist upp rétt rúmlega sex í morgun.

„Við bjuggumst við miklu því við höfum fengið margar fyrirspurnir á dag í fleiri mánuði um vasann. Það kom þó á óvart hversu hratt hann fór miðað við fjöldann,“ segir Úlfar Finsen, eigandi húsgagnaverslunarinnar Modern, sem seldi bronslitaða Omaggio-vasann frá Kähler í forsölu klukkan sex í morgun. 200 stykki af vasanum seldust upp á núlleinni.

„Við ákváðum að selja vasann eingöngu á netinu og fór forsalan fram á modern.is. Vasinn fer svo í almenna sölu 4. desember og kemur þá í mjög takmörkuðu magni,“ segir hann. 

Um er að ræða minni útgáfuna af afmælisvasanum frá Omaggio sem kemur með handmáluðum bronslituðum röndum, líkt og stærri vasinn. Vasinn var framleiddur í takmörkuðu upplagi. Úlfar segist ekki hafa viljað setja fólk á biðlista heldur fannst sanngjarnt að allir sætu við sama borð. Þess vegna setti hann 200 stykki í forsölu klukkan sex í morgun.

„Auðvitað er það leiðinlegt þegar fólk tekur daginn snemma og var komið með vasa í vörukörfuna og þá kemur í ljós að vasinn er uppseldur. En þetta er auðvitað sanngjarnasta leiðin þar sem allir hafa jafna möguleika.“

Hvers vegna er Omaggio-vasinn svona eftirsóttur?

„Nú, hann er svo fallegur. Svo er auðvitað gaman að því að eiga hlut sem kemur í takmörkuðu upplagi og verðgildið eykst bara um leið og hann selst upp. Það er líka annað sem spilar inn í, vasinn er á góðu verði eða á 5.790 kr.“

Þegar Úlfar er spurður hvort það hafi bara verið fólk í Reykjavík sem vaknaði fyrir klukkan sex til að næla sér í vasann segir hann svo ekki vera.

„Þetta fór um allt land enda er vefverslun okkar sterk á landsbyggðinni og við kunnum svo sannarlega að meta það,“ segir hann og hlær: „Svo hefur rignt yfir okkur KSÍ-bröndurum í allan morgun.“

Omaggio vasinn frá Kähler.
Omaggio vasinn frá Kähler.
Vasinn er sannarlega heimilisprýði.
Vasinn er sannarlega heimilisprýði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál