Fólk er alls ekki komið með leið á Iittala

Aldís María Valdimarsdóttir.
Aldís María Valdimarsdóttir.

Aldís María Valdimarsdóttir bjóst ekki við því að síðan, Notaðar hönnunarvörur á Facebook, myndi slá jafnrækilega í gegn og hún hefur gert. Í dag eru tæplega átta þúsund manns skráðir í þennan lokaða hóp þar sem hver selur öðrum notaðar hönnunarvörur eins og nafn síðunnar gefur til kynna. 

Aldís er menntaður grafískur hönnuður og viðburðastjórnandi. Hún er hálffinnsk og ólst upp í Finnlandi, flutti aftur heim til Íslands fyrir tíu árum. 

„Móðir mín býr ennþá í Finnlandi og ég fer oft heim til Finnlands í heimsókn til þeirra og kem oftar en ekki með nýja fallega finnska hönnun með mér til baka. Það má í raun segja að það hafi verið forréttindi að alast upp í landi þar sem hönnun er sjálfsögð. Ég er ein af stofnendum Designed in Iceland en það er kynningarsíða og vefverslun fyrir Íslenska hönnun og hönnuði. Svo á ég mér lítið áhugamál sem ég er ennþá að þróa; www.fineri.is en þar býð ég upp á grafíska þjónustu. Mig langaði að blanda saman grafískri hönnun og viðburðastjórnun, þess vegna stofnaði ég Fínerí. Þar býð ég upp á ráð, hugmyndir og grafíska hönnun fyrir veislur,“ segir Aldís. 

Þegar hún er spurð að því hvers vegna hún hafi stofnað síðuna, Notaðar hönnunarvörur, segir hún að það hafi einfaldlega verið vegna þess að slík síða var ekki til staðar. 

„Ég stofnaði síðuna fyrir 7 mánuðum en þá var ég einmitt að leita að samskonar síðu á facebook en fann ekki. Það kom mér mjög á óvart að svona síða væri ekki til þar sem við íslendingar erum alveg óðir í hönnunarvörur.“

Bjóstu við svona miklum viðbrögðum?

„Ég væri að ljúga að þér ef ég segði nei, því svona síða var ekki til. En jú það kom mér alveg á óvart hvað það fjölgaði hratt.“

Það virðist vera eitt og annað sem er vinsælla að selja, það er mikið verið að díla með Iittala-vörur svo dæmi sé tekið. Er eitthvað annað sem er fáránlega vinsælt?

„Finnskar hönnunarvörur, Iittala sérstaklega, eru mjög vinsælar núna en það er mest um þær á síðunni. Um jólin var mikið um jólaóróa frá Georg Jensen en það er eðlilega minna um það núna. Finnsku Múmín-könnurnar frá Arabia eru vinsælar og margir að óska eftir þeim. Svo er eitt sem kom mér mjög skemmtilega á óvart. Sumir á síðunni eru að skiptast á hönnunarvörum og það er mjög sniðugt. Það eru margir að safna og vilja kannski annan lit eða skipta til dæmis Leonard-kertastjaka í Iittala-stjaka.“

Gefur þetta merki um að fólk sé komið með leið á þessu finnska vörumerki eða?

„Nei, ég held ekki. Finnsk hönnun er rosalega rótgróin. Það er það sem maður á einmitt að horfa á þegar maður kaupir sér hönnunarvörur. Það er allavega það sem ég horfi mest á þegar ég kaupi hönnun. Varan má ekki bara líta vel út heldur verður hún líka að endast vel og lengi.“

Omaggio vasar hafa verið mikið í umræðunni, sérstaklega eftir að fyrirtækið ákvað að framleiða vasa í takmörkuðu upplagi með bronslituðum röndum. Þess vegna er ekki úr vegi að spyrja Aldís hvort einhver hafi reynt að selja Omaggio-vasa á síðunni?

Omaggio vasinn frá Kähler.
Omaggio vasinn frá Kähler.

„Já, fyrsti vasinn kom einmitt á síðuna fyrir helgi. Afmælisútgáfan. Ég gerði tilboð í hann og vona það besta. Hönnunarvörur eins og þessi vasi sem eru bara framleiddir í takmörkuðu magni munu með árunum tvöfaldast ef ekki tífaldast í verði. Þetta eru einmitt gersemar sem maður á að safna og gefa svo barnabörnunum sínum. Því þá eru þessir hlutir orðnir mjög verðmætir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál