Lét brons Omaggio-vasa detta í gólfið

Listamaðurinn Ásgeir Skúlason sýnir í Listasafni ASÍ á sýnginunni #KOMASVO.
Listamaðurinn Ásgeir Skúlason sýnir í Listasafni ASÍ á sýnginunni #KOMASVO. Ljósmynd/ Facebook Listasafns ASÍ

Listamaðurinn Ásgeir Skúlason einn þeirra sem er með verk á sýningunni #KOMASVO sem stendur yfir út febrúarmánuð í Listasafni ASÍ. Verk Ásgeirs samanstendur af þremur ljósmyndum sem sýna hann sleppa Omaggio-vasa í gólfið.

„Verkið er viss ádeila á þessum gegndarlausa múgæsingi sem vill oftast myndast meðal Íslendinga þegar þeir verða að eignast eitthvað en vita kannski ekkert af hverju,“ segir Ásgeir sem ákvað að notast við bronslitaðan Omaggio-vasa þar sem allir fagurkerar landsins hafa undanfarið verið í eltingaleik við þann grip sem kom í takmörkuðu upplagi. „Vasinn er þá orðinn að stöðutákni fyrir þá sem náðu að eignast hann á sínum tíma.“

„Sumum finnst vasinn hallærislegur á meðan einhverjum öðrum finnst hann stórkostlegur.“ Ásgeir segir áhorfendur verksins geta túlkað verkið á ýmsa vegu. „Það er engin ein rétt og engin ein röng túlkun á verkinu. En svo má heldur ekki gleyma því að þó að ég tali um þetta verk sem ádeilu á múgæsing Íslendinga þá tók ég sjálfur þátt í þeim æsingi, að vísu svolítið seint en ég var í einhverju maníukasti að reyna verða mér úti um þennan vasa. Ég varð að fá hann. Að baki minni þörf bjó sennilega önnur hvöt en hjá öllum hinum.“

Braut hátt í 2.000 ára gamlan vasa

Verk Ásgeirs er bein tilvísun í eitt frægasta listaverk kínverska listmannsins Ai Weiwei, „Dropping a Han dynasty vase“. Það verk er frá árinu 1995. „Þar kýs Ai Weiwei  að taka hátt í 2.000 ára gamlan kínverskan vasa og brjóta hann, alveg svipbrigðalaus.  Það væri kannski of löng saga að ætla rekja þýðingu þess tiltekna verks í þaula, en í mjög stuttu máli þá lýsir það andófi listmannsins á félagslegri og pólitískri umgjörð Kína í dag og til að auka vægi þess enn frekar þá velur hann vasa frá Han-tímabilinu, en það eru einmitt Kínverjar af Han-kynstofni sem eru í yfirgnæfandi meirihluta og gegna flestöllum valdastöðum í Kína í dag.“

Titill verks Ásgeirs er „Æ neinei“. „Titillinn er aftur bein vísun í nafn Ai Weiwei en lýsir á sama tíma viðhorfi mínu þegar ég verð vitni á múgæsingi Íslendinga gagnvart því að verða að fá eitthvað, þá hugsar maður bara: „æ nei nei...“. Svo kemur eitthvað nýtt mánuði seinna sem allir verða að eignast og leikurinn heldur áfram,“ segir Ásgeir að lokum.

Ásgeir fékkk innblástur frá kínverska listamanninum Ai Weiwei.
Ásgeir fékkk innblástur frá kínverska listamanninum Ai Weiwei.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál