Vöruframboðið aldrei verið meira hjá Sveinbjörgu

Hönnuðurinn Sveinbjörg Hallgrímsdóttir var að setja á markað ný „söguteppi“, …
Hönnuðurinn Sveinbjörg Hallgrímsdóttir var að setja á markað ný „söguteppi“, þau koma í fjórum litum.

Myndlistakonan og hönnuðurinn Sveinbjörg Hallgrímsdóttir, konan á bakvið hönnunarfyrirtækið Sveinbjörg, er þessa dagana að kynna spennandi nýjungar sem voru að bætast við vörulínu fyrirtækisins. Um er að ræða meðal annars nýjar gerðir í svuntum og viskustykkjum en einnig bætast við ofnhanskar við vörulínuna og nýtt fiskamynstur. Sveinbjörg stofnaði fyrirtækið árið 2007 og hefur reksturinn gengið vonum framar þrátt fyrir efnahagsáfallið sem reið yfir árið 2008 og hefði auðveldlega getað lamað reksturinn. Þess í stað tóku Íslendingar ástfóstri við þrestina hennar og hrafna og í dag starfa fjórir starfsmenn hjá fyrirtækinu.

Dóttir Sveinbjargar, Fjóla Karlsdóttir, starfar sem fjármálastjóri og heldur utan um markaðsmál í fyrirtækinu. Hún segir nýjustu vörur Sveinbjargar hafa vakið góð viðbrögð. „Við höfum fengið ofsalega góð viðbrögð, fólk hefur beðið eftir nýjungunum sem við höfðum vonast til að kæmu í byrjun sumars en svo varð seinkun í framleiðsluferlinu sem oft er erfitt að eiga við. Erum engu að síður rosalega ánægðar með útkomuna,“ útskýrir Fjóla.

„Söguteppi“ eru meðal nýjunga hjá Sveinbjörgu

Nýjungarnar eru þá meðal annars svokölluð söguteppi. „Þetta eru tvær tegundir og þeim fylgir saga. Þetta er meira heldur en bara teppi,“ segir Fjóla um teppin sem henta sérlega vel sem gjöf, bæði fyrir börn og fullorðna.

Á annarri tegundinni eru fuglar, það teppi kemur í bleiku og gulu. „Á þeirri tegund eru farfuglarnir að koma til baka og þeir fuglar sem geta ekki flogið taka vel á móti þeim. Þeir sem urðu eftir eru voða fegnir að fá þá til baka.“ Á hinu teppinu er svo skip Hrafna-Flóka það kemur í bláu og fjólubláu. „Þá má sjá stjörnurnar á himninum mynda hrafn sem lyftir skipinu þannig að þau sigla ekki ólgusjó, þau sigla örugg til Íslands,“ segir Fjóla. Ef rýnt er í teppið má sjá bæði börn og fullorðna á skipinu.

Þess má geta að teppin eru silkimjúk og gerð úr merino-ull og bómull.

Eldri vörulínur stækka ört og aðrar bætast við

Til viðbótar við söguteppin hefur Sveinbjörg líka stækkað eldri vörulínur sínar og bætt ýmsum nýjungum við. „Það hafa tvær stórar línur verið í gangi í gegnum árin. Aðra línuna köllum við „garðveisluna“ en í henni spila þrestirnir og reyniviðurinn stórt hlutverk. Hin línan er „hrafnalínan“, þar eru hrafnar í aðalhlutverki. Í fyrra bættum við litríkum hröfnum við og það sló í gegn. Íslendingar eru greinilega alveg farnir að geta tekið annað en svart-hvítt í sátt,“ segir Fjóla og hlær.

Í garðveislulínuna voru þá að bætast handklæði, svuntur, ofnhanskar og viskustykki. „Handklæðin koma í þremur stærðum og í tveimur litum, bláum og ljósbrúnum. Hugmyndin er svo að koma með fleiri liti eins og bleikan eða lime-grænan.“

Ekki nóg með að eldri vörulínur séu að stækka heldur var að bætast alveg ný lína við vörulínu Sveinbjargar. „Þetta er ný munsturslína með fiskum. Hún hefur vísun í þjóðararf okkar, við erum fiskiþjóð,“ segir Fjóla. Í línunni eru þá einnig pólýhúðaðir kertastjakar úr stáli sem eru sérsmíðaðir af stálsmið hér á landi.

Spennandi tímar framundan

„Það eru fleiri sögur á leiðinni, við eigum meiri efnivið til að vinna úr,“ segja þær mæðgur aðspurðar út í framhaldið.

Áhugasamir geta kynnt sér vörur Sveinbjargar nánar í Epal í Skeifunni, Dúku í Kringlunni og Kraum Aðalstræti en þar standa yfir sérstakar sýningar á nýjum vörum frá Sveinbjörgu. Einnig er yfirstandandi sýning í Ketilhúsinu sem nefnist NOT en það er samsýning norðlenskra hönnuða sem Sveinbjörg tók þátt í og hannaði hitaplatta úr við og stáli. „Þar eru til sýnis nýir hönnunargripir. Framhaldið með þá gripi er óráðið en þeir hafa hlotið mikla athygli,“ segir Fjóla að lokum.

Litríku hrafnarnir hafa slegið í gegn.
Litríku hrafnarnir hafa slegið í gegn.
Hrafnalínan hefur stækkað ört á seinustu árum.
Hrafnalínan hefur stækkað ört á seinustu árum.
Handklæðin eru nýjung frá Sveinbjörgu.
Handklæðin eru nýjung frá Sveinbjörgu.
„Við erum fiskiþjóð,“ segir Fjóla Karlsdóttir.
„Við erum fiskiþjóð,“ segir Fjóla Karlsdóttir.
Brot af vöruúrvalinu í Epal.
Brot af vöruúrvalinu í Epal. Eggert Jóhannesson
Viskustykki og ofnhanskar er eitthvað sem allir þurfa að eiga. …
Viskustykki og ofnhanskar er eitthvað sem allir þurfa að eiga. Skotheld gjöf. Eggert Jóhannesson
Nýja mynstrið.
Nýja mynstrið. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál