Lumex opnar húsgagnadeild

Það eru spennandi hlutir að gerast hjá Lumex. Verið er að stækka verslunina í Skipholti og innrétta nýja verslun í kjallaranum, Lumex Home. Verður þar að finna húsgögn frá sumum eftirsóttustu hönnuðum samtímans og ljóst að þeir sem vilja innrétta heimilið sitt smekklega hafa ástæðu til að kætast. Nýja rýmið verður opnað í október.

Lumex er rótgróið fjölskyldufyrirtæki og fagnar 30 ára afmæli í ár. Helgi Eiríksson stofnaði reksturinn á sínum tíma með bróður sínum Diðriki til að sinna raflagnahönnun. „Þeir urðu fljótlega varir við að eftirspurn var eftir ráðgjöf við lýsingu og val á ljósum, og vöntun á sérþekkingu á þessu sviði,“ segir Ingi Helgason sem stýrir rekstrinum í dag. Fyrirtækið hefur vaxið og þróast og auk raflagna- og ljósahönnunar er Lumex þekkt fyrir glæsilega ljósa- og lampaverslun. Einnig er Lumex meirihlutaeigandi í heildsölunni Rafporti sem selur raflaganefni fyrir byggingariðnaðinn.

Vandað og fallegt verður um að litast í kjallaranum.
Vandað og fallegt verður um að litast í kjallaranum. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Lumex hefur áður spreytt sig á húsgagnasölu en árið 2005 opnaði fyrirtækið, í samvinnu við Pennann, húsgagnaverslunina Saltfélagið, úti á Grandagarði. Sú verslun þótti mjög vel heppnuð og góð viðbót við húsgagnaflóruna, en reksturinn lifði ekki af samdráttarskeiðið eftir hrun. „Við höfðum þá selt okkur út úr fyrirtækinu árið 2007, og sáum að markaðurinn var að breytast. Ákváðum við að draga saman seglin, sinna kjarnastarfseminni og halda okkur við ljósin í bili.“

Hinn vinsæli Dixon

Lesendur ættu að kannast við sum merkin sem má finna í nýja sýningarsalnum. „Þar gerum við t.d. Tom Dixon hátt undir höfði. Íslendingar þekkja lampana sem þessi breski hönnuður á heiðurinn að en hann hefur smám saman verið að fikra sig út í húsgagnahönnun sem og smærri skraut- og gjafavöru. Við kynnum hann núna betur en áður hefur verið gert hér á landi,“ segir Ingi.

Einnig er vert að nefna vörurnar frá hollenska hönnunarfyrirtækinu Moooi. Frá Moooi kemur meðal annars hestslampinn frægi og alls kyns stílhrein húsgögn sem mörg bregða á leik með hefðir og liti.

Húsgögnin frá Tom Dixon og Moooi eru ekki endilega þau ódýrustu í bænum, en Ingi vill ekki ganga svo langt að segja að Lumex Home sé dýr búð. Verðið á flestum vörunum þar er við efri mörk milliverðflokksins en svo er úrvalið breitt og ættu allir að geta fundið eitthvað á því verði sem þeim hentar.

„Markaðurinn á Íslandi er líka tekinn að breytast á ný. Fólk er farið að kaupa vandaðri muni á heimilið og eiga þá lengur. Það er varla hægt að segja að húsgagn eða lampi sé dýr ef hann þykir jafnfallegur eftir 30 eða 40 ár svo að börnin og barnabörnin fara jafnvel að leggja sig eftir því að fá mubluna í arf. Er þá nær að tala um fjárfestingu.“

Guðdómleg ljós.
Guðdómleg ljós. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Vönduð lýsing fegrar heimilið

Ljósamálin verða áfram í aðalhlutverki hjá Lumex. Ingi segir að nú sé mikil þróun að eiga sér stað í lýsingu og ljósdíóðurnar hafa gefið lampahönnuðum tækifæri til að gefa sköpunargáfunum lausan tauminn. „Alveg eins og halógenperurnar voru bylting á sínum tíma og höfðu mikil áhrif á ljósa- og lampahönnun, þá bjóða díóðurnar upp á allt aðra möguleika. Díóðutæknin þróast líka hratt og bara á örfáúm árum hefur notagildi þeirra aukist til muna með díóðuljósum sem gefa mýkri, fallegri og hlýlegri birtu. Það styttist í að díóðuperurnar taki alveg við af gömlu glóperunum og halógenperunum.“

Segir Ingi að tískan í ljósunum sé mjög fjölbreytileg um þessar mundir. Framsæknustu hönnuðirnir nýta sér það að díóðurnar eru nettar, þunnar og gefa frá sér sama sem engan hita. „Í dag er leyfilegt að blanda öllu saman, og heimilin að færast frá því steríla útliti sem eitt sinn var ríkjandi yfir í mýkra yfirbragð þar sem gætir ýmissa áhrifa.“

Þykir Inga þetta endurspegla það sem er að gerast í innanhússhönnun almennt. „Við sjáum áhrif frá öllum tímabilum, á heimilunum eru húsgögnin og innréttingarnar farnar að dökkna, og koparinn farinn að sjást oftar. Meiri persónuleiki fær að njóta sín og einsleitnin er á útleið.“

Vönduð lýsing getur fegrað herbergið á meðan illa heppnuð lýsing þýðir að fallega innréttað herbergi fær ekki að njóta sín sem skyldi. Segir Ingi að það flæki málin að aðstæður á hverju heimili geta verið mjög mismunandi og þarf að sníða lýsinguna að birtu og yfirbragði á hverjum stað, og eins taka tillit til þarfa heimilismeðlima. „Þegar við veitum ráðgjöf um lýsingu förum við alltaf á staðinn og skoðum aðstæður vandlega. Verður lýsingin t.d. að passa við þá birtu sem kemur inn um gluggana, og við þau efni sem eru í herberginu og endurkasta ljósinu. Ekki má yfirlýsa heimilið enda getur of mikil birta valdið óþægindum, en það getur of lítil lýsing gert líka.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál