Fröken Fix fagnar fimm árum

Sesselja Thorberg er Fröken Fix.
Sesselja Thorberg er Fröken Fix. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrir fimm árum stofnaði iðnhönnuðurinn Sesselja Thorberg innanhússhönnunarfyrirtækið Fröken Fix. Sesselja hefur stýrt nokkrum sjónvarpsþáttum tengdum innanhúshönnun og gefið út hönnunarbók en að mestu leyti endurhannað heimili og skrifstofuhúsnæði. Á þessum fimm árum hefur fyrirtækinu vaxið fiskur um hrygg og nóg er um verkefni.

„Lengi vel hafði ég hugsað að mig langaði að stofna mitt eigið ráðgjafarfyrirtæki. Ég var alltaf að bíða eftir rétta tímanum. En hvenær er svo sem rétti tíminn til að stofna fyrirtæki? Fyrir hrun vann ég á arkitektastofu og undi vel við. Í hruninu missti ég starfið og í sömu viku komst ég að því að ég væri ófrísk. Það var ekki verið að ráða ófrískan innanhússhönnuð í kreppunni,“ segir Sesselja og kímir við.
„Á þessum tímapunkti áttaði ég mig á því að nú væri kominn tími til að setja á laggirnar hönnunarstofuna Fröken Fix.“ Þannig lýsir Sesselja aðdraganda þess að hún stofnaði sitt eigið fyrirtæki.

Undirbúið á meðgöngunni

Sesselja nýtti meðgönguna og barnsburðarfríið vel til undirbúnings. „Ég fór í hugmyndavinnu og skipulagningu, ásamt manninum mínum, sem var þá og er mín stoð og stytta, og sótti námskeið er varðar stofnun og uppbyggingu fyrirtækja. Ég tók þátt í frumkvöðlakeppni en komst ekki alla leið. Dómnefnd taldi ekki markað fyrir þjónustulausn af þessu tagi. Ég lét það nú ekki á mig fá því sjálf hafði ég tröllatrú á því að það væri markaður fyrir Fröken Fix, hönnunarþjónustu með áherslu á hagnýtar lausnir. Haustið 2010 var verkefninu hrundið af stað. Fyrirtækið var orðið að veruleika“.

Á gott með að vinna með fólki

Fyrst um sinn voru verkefnin smá í sniðum og inni á heimilum landsmanna. Jafnt og þétt hafa verkefnin orðið stærri og í dag eru fyrirtæki í auknum mæli að óska eftir ráðgjöf hjá Fröken Fix.

„Ein af mínum sterku hliðum er hversu gott ég á með að vinna með fóki. Með því að setjast niður með viðskiptavinum og ræða málin á ég auðvelt með að átta mig á því eftir hverju fólk er að leita,“ segir Sesselja.

„Það er svo margt sem þarf að huga að, til dæmis fjölskyldumynstur. Stunda börnin íþróttir, hvernig vinnu vinnur viðskiptavinurinn, er hægt að breyta skipulagi hússins, er náttúruleg birta ráðandi á heimilinu eða ekki? Þetta eru allt mikilvæg atriði, bæði saman og í sitthvoru lagi. Ég á gott með að fá fólk til að opna sig og þannig koma því vel til skila hvað það er sem þau í raun og veru vilja. Þegar ég þarfagreini fyrirtæki þá eru áherslurnar aðrar og margþættari. Mestu máli skiptir að hönnun og skipulag rýma fyrirtækis sé hugsað bæði út frá þægindum viðskiptavina sem og starfsmanna þess. Það sem meðal annars einkennir Fröken Fix er að hún stílar jafnt inn á fegurð og fágun sem gleði og húmor. Hún er óhrædd við að láta á reyna á nýja hluti. Það er m.a. ástæða fyrir því að fólk og fyritæki leita til hennar,“ bætir Sesselja við, sposk á svip.

Framundan hjá Fröken Fix

„Til að byrja með vann ég aðeins inni á heimilum og fólst vinnan í almennri ráðgjöf. Smám saman bættist við sérhönnun, og sá ég þá um hönnun og teikningu á sérsmíðuðum innréttingum, og í dag er ég farin að taka að mér heildarhönnun heimila. Verkefnin hafa því stækkað, orðið flóknari og meira krefjandi. Ef verkefnin eru ekki krefjandi þá er illmögulegt að þroskast í starfi. Því vil ég setja markið á stærri og umfangsmeiri verkefni en mun vitaskuld halda áfram að taka að mér innanhúsráðgjöf og hönnun fyrir venjulegar fjölskyldur.“

Í dag er Sesselja við það að ljúka endurhönnun á höfuðstöðvum VÍS við Ármúla og heildarhönnun á gistiheimili í miðborg Reykjavíkur. Undanfarin misseri hefur Sesselja endurhannað skrifstofurými Seðlabanka Íslands, höfuðstöðvar 66° Norður sem og höfuðstöðvar Kjöríss í Hveragerði svo eitthvað sé nefnt. „Næsta verkefni er að endurhanna skrifstofurými hjá tæknifyrirtæki í lyfjageiranum. Verkefnastaðan er því bara góð og verkefnin um leið fjölbreytt og spennandi,“ segir Sesselja Thorberg að endingu.

Skrifstofur VÍS.
Skrifstofur VÍS. mbl.is/Árni Sæberg
Rauði liturinn ræður ríkjum hjá VÍS.
Rauði liturinn ræður ríkjum hjá VÍS. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál