„Ég fæ mikið kikk út úr því að sjá mun“

Bjarni Þór Árnason hefur betri tilfinningu fyrir heimilum fólks en margur annar en hann kemur inn á hundruð heimila í hverjum mánuði. Hann hefur unnið við húsgagna og teppahreinsun í meira en 20 ár. Hann er eins og alfræðiorðabók þegar kemur að hreinsiefnum og veit nákvæmlega hvernig húsgögn er heppilegast að kaupa ef fólk vill láta húsgögnin sín endast. 

„Pabbi minn, Árni Svavarsson, stofnaði Skúf teppahreinsunina fyrir 30 árum síðan og það lá beinast við að fara að vinna með honum. Í dag rek ég þetta og er með tvo starfsmenn. Okkur finnst skipta miklu máli að valda sem minnstu raski þegar við komum inn á heimili. Þegar við komum inn á heimili látum við lítið fyrir okkur fara og erum eins snögg og við getum. Ég pæli sem minnst í því hvernig er inni hjá fólki og passa mig á því að allt sé trúnaðarmál. Eins og til dæmis með rúmdýnur sem við gerum mikið af að hreinsa,“ segir hann og bætir við: 

„Mottóið hjá okkur er að það sé þægilegt að fá okkur inn á heimilið og við tölum öll íslensku. Svo vinnum við á öllum tímum.“

Þegar ég spyr hann að því hvort hægt sé að bjarga öllum húsgögnum segir hann svo ekki vera. 

„Nei, það er ekki hægt að bjarga öllum húsgögnum. Það er hægt að hreinsa ullarefni, en þegar það eru komnar matarleifar, málning og olíur í efnið þá er þetta erfiðara. Ullarefni er besta efnið til að þrífa en það hafa ekki öll efni sömu eiginleika og það og svo er gott að hreinsa húsgögn sem eru með microfiber áklæði,“ segir hann.

Þegar ég spyr hann hvað sé það rosalegasta sem hann hafi lent í í vinnunni brosir hann. 

„Ætli það séu ekki slys eftir gæludýr,“ segir hann. 

Bjarni gerir mikið af því að hreinsa rúmdýnur.
Bjarni gerir mikið af því að hreinsa rúmdýnur.

Bjarni Þór segir að húsgagnahreinsun hafi breyst mjög mikið á síðustu árum. „Hér á árum áður var fólk að vinna meira með þurrhreinsun en í dag gefst blauthreinsun betur. Auk þess notum við umhverfisvæn efni úr ensími. Ég hef fundið það út að það er eiginlega best. Ég lærði ákveðna tækni í Bretlandi og í Bandaríkjunum sem hefur virkað vel og svo er ég stöðugt að leita að öflugustu efnunum,“ segir hann. 

Það er áhugavert að vita hvers vegna fólk velur sér það að ævistarfi að hreins skítinn úr húsgögnum annarra. Bjarni Þór segir að hann hafi hálfpartinn lent í þessu starfi í gegnum föður sinn en svo njóti hann þess að vinna vinnuna. 

„Hver vinnudagur er fjölbreyttur og maður veit aldrei í hverju maður lendir,“ segir hann og bætir því við að starfið sé spennandi að því leiti að hann viti aldrei í hverju hann geti lent.

Þar sem Bjarni Þór spáir mikið í húsgögnum og efnum þá verð ég að spyrja hann hvernig húsgögn hann er með heima hjá sér. 

„Ég keypti mér tausófa úr dökkgráu efni. Ég myndi ekki fá mér ljósan sófa úr striga-efni eða bómullarefni. Ég mæli ekki með því upp á þrif framtíðarinnar. Sófar með ullaráklæði í dökkum litum geta enst í 30 ár ef það er séð vel um þá.“

Um hvað hugsar þú þegar þú ert að þrífa húsgögn?

„Ég hugsa um daginn og veginn, þetta er mikil rútína, ég fæ mikið kikk út úr því að sjá mun á sófum. Stundum bið ég um að fá að taka mynd ef það er mikill munur. Það kemur þó alveg fyrir að þetta heppnist ekki nógu vel. Maður sparar fólki oft mikla peninga með húsgagnahreinsun því fólk getur sparað sér það að kaupa nýjan sófa með því að láta þrífa hann.“

Bjarni Þór Árnason.
Bjarni Þór Árnason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál