Það fer ekkert inn nema hafa notagildi

Við Krosseyri við Arnarfjörð stendur sjarmerandi eyðibýli sem búið er að gera upp. Síðan hjónin Kolbrún Mogensen og Sveinbjörn Gunnarsson festu kaup á jörðinni hafa þau staðið í ströngu við að gera húsið upp og fínisera landið í kring. Ævintýraþráin leiddi þau í Arnarfjörðinn. Þegar ég spyr hana hvers vegna þau hafi fest kaup á jörðinni og eyðibýlinu segir hún ástæðuna einfalda. 

„Ástæðan er jú kannski bara þetta sígilda; ævintýraþrá og upplifa eitthvað alveg sérstakt, brjóta sig út úr þægindarammanum. Við hjónin erum svona týpískt 20. aldar fólk, skemmtilegra að ná í vatnið heldur en að skrúfa frá krananum, það er svo margt sem þú upplifir á leiðinni í lækinn. Fyrir utan ást okkar á alls konar húsum þá elskum við hafið og alla bátamenningu.

Við urðum að grípa tækifærið þegar við sáum húsið á Krosseyri í því eymdarástandi sem það var í og gera það upp. Litla greyið var eitt og yfirgefið þarna við sjávarkambinn. Ég fæ stundum tregablandinn sársauka í hjartað að ég sé yfirgefið hús og það eina sem ég sé eru möguleikar og ævintýri,“ segir Kolbrún í samtali við Smartland Mörtu Maríu. En nú hafa þau hjónin ákveðið, eftir alla vinnuna og ævintýrin að selja húsið og jörðina. 

Kolbrún viðurkennir fúslega að hún elskar að proppa, það er að segja raða upp hlutum og endurraða. 

„Allt sem við gerum á Krosseyri er gert með handafli, það í sjálfu sér heillar okkur. Til dæmis þá þurftum við að loka kjallaranum sem var undir hluta hússins vegna raka, það gætti nefnilega flóðs og fjöru þar. Við handmokuðum möl úr fjörunni í hjólbörur og fylltum kjallarann, síðan steyptum við yfir og flotuðum gólfin. Ég held að við höfum mokað í sirka 500 hjólbörur til að klára verkið og vil ég nota tækifærið og þakka þeim sem komu þar að hér og nú,“ segir hún. 

Kolbrún segir að þegar öllu er á botninn hvolft sé húsið, sem þau kalla Hvíta húsið, bara bónus. 

„Jörðin og lega hennar er aðalatriðið,“ segir hún og minnist á vestfirsku næturnar. 

„Það er ekkert í þessum heimi sem slær þeim út og sérstaklega í júnímánuði þegar allt dýra- og fuglalíf er í hámarki,“ segir hún. 

„Húsið á jörðinni er eyðibýli og er gaman í ljósi umræðunnar um öll eyðibýlin sem eru að hverfa í jörðina á Íslandi að það er hægt ef viljinn er fyrir hendi að gera þau upp. Húsið okkar á Krosseyri var afar illa farið þegar við komum að því, opið fyrir veðrum og vindum. Fyrir okkur kom ekki annað til greina en að gera það upp. Vinir og vandamenn sáu frekar fyrir sér að reisa nýtt hús. Húsið er hannað að innan miðað við aðstæður þ.e. þetta er steinhús sem er einungis kynnt upp þegar fólk er á svæðinu með viðar-eldavél, þá þarf að taka mið af raka og hversu nálægt húsið stendur við hafið. Í sjö sumur lifðum við í tjöldum, á vorin reistum við tjaldbúðir og unnum við að hreinsa jörðina og bæta við húsakostinn og vinna við að klára húsið að utan. Það sem við kunnum best að meta í dag er vatnssalernið í húsinu, en það er algjör lúxus, skítt með rafmagnsleysið, þú getur vel lifað án þess,“ segir hún. 



Kolbrún segir að öll hús þurfi umhyggju og þau fjölskyldan elski þetta hús og umhverfið sem það er í. 

„Við þurfum einungis að opna útidyrahurðina og þá erum við komin í villta vestrið, tófa, selur, hvalir, haförn og aðrir fuglar rétt fyrir utan hurðina. Á kvöldin kyndum við húsið vel upp, höfum hurðina opna til að lofta vel út og njótum útsýnisins.“

Það kostaði blóð, svita og tár að gera húsið upp því það þurfti að flytja allan efnivið með bát. 

„Allt efni og allur húsbúnaður hefur verið fluttur yfir fjörðinn frá Bíldudal á bátum, það fer ekkert inn í húsið nema það hafi notagildi. Við erum enn að bæta við og alls konar hugmyndir í gangi,“ segir hún. 

Nú er Hvíta húsið komið á sölu og hjónin farin að huga að næstu ævintýrum. Hægt er að skoða Krosseyri betur HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál