Hálf fjölskyldan var fengin í verkið

Greipur Gíslason var fyrsti stjórnandi HönnunarMars, kom hátíðinni á koppinn og stýrði fyrstu sex árin. Þegar hann lét af störfum 2014 var hann beðinn um að taka sæti stjórnarformanns HönnunarMars, sem hann gegnir enn, en hann vinnur nú sem verkefnastjóri hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég spurði hann um uppáhaldsstað sinn inni á heimilinu. 

Ég bý nú kannski ekki svo rúmt að úr mörgum hornum eða stöðum sé hægt að velja sér uppáhalds. Og ef maður væri alveg heiðarlegur væri auðvitað eðlilegast að segja bara rúmið eða ísskápurinn. Ég er búinn að búa í íbúðinni minni við Ásvallagötu í sex ár um þessar mundir og það verður að segjast eins og er að margir hlutir við hreiðurgerðina hafa tekið langan tíma.

Eitt herbergið í íbúðinni kalla ég stúdíó. Því hefur frá upphafi verið ætlað að vera setustofa og vinnuherbergi mitt, þar er ég með skrifborð og sófa, og svo herbergi fyrir gesti. Því stóð alltaf til að koma upp góðum bókahillum í herberginu sem gæti hugsanlega líka geymt sjónvarp, kæmi þannig inn á heimilið. Svo varð úr að fyrir tæpu ári steig ég það fullorðinsskref að fá mér sjónvarp og þá var tímabært að dusta rykið af fyrirætlunum um hillu á vegginn. Í þessu herbergi ver ég mestum tíma mínum þegar ég er heima. Horfi á sjónvarpið, vinn eða les,“ segir Greipur.

Hillan þurfti sumsé að vera fjölnota. Geta geymt bækur, sjónvarp og líka vinnudót, svo sem möppur og kassa.

„Fyrstu hugmyndina settum við pabbi minn á blað og fengum Arnþrúði systur mína, verkfræðing í Árósum, til að teikna. Í kjölfarið ræddi ég svo við föðurbræður mína, þá Ívar og Flosa, sem eru smiðir, og fékk þá með mér í lið við smíðar. Í meðförum þeirra og frænda míns Þorgeirs tók hillan nokkrum breytingum í útliti þó svo að grunnþarfir – mismunandi djúpar og stórar hillur – héldu sér.

Svo var litla systir aftur sett í að teikna, gera vinnuteikningar og fullgera verkið. Frændur mínir og pabbi settu síðan hilluna saman og vönduðu sig mikið. Ég og bróðir minn máluðum og lökkuðum. Nú þegar ég er að mestu fluttur inn í hilluna verður að segjast að hún er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég er sannfærður um að meira að segja misgóð sjónvarpsdagskráin verður betri þegar ég horfi á sjónvarpið í hillunni.“

Í hilluna fer nú ekki hvað sem er.

„Í hilluna hafa líka raðast fallegir hlutir sem eru í uppáhaldi hjá mér sem gera hana að enn meira eftirlæti. Þar má nefna fánastöng sem einn langafi minn bjó til og annar langafi átti og ég fékk svo. Þarna eru líka bækur og tímarit sem ég hef gaman af, myndir af vinum mínum og fleira sem gleður mig.

Ein af ástæðum þess að hægt gengur að koma mér fyrir í íbúðinni er sú að ég á örlítið erfitt með að ákveða mig hvar ég vil hafa hluti og velja ljós og mublur. Mér finnst mikilvægt að vanda valið og fresta því frekar að kaupa hlutina en að gera eitthvað til bráðabirgða. Var því frekar hillulaus en að setja upp hillur tímabundið. Þar sem ég er frekar latur hefðu bráðabirgðahillur sennilega orðið varanlegar með tímanum.“

Þegar Greipur er spurður út í heimilið segir hann að hann leggi mikið upp úr því að það sé praktískt og notalegt.

„Og svo þegar maður vann við hönnun og með hönnuðum var auðvelt að verða sér úti um selektívan stíl, svo ekki sé meira sagt. Ég er reyndar sjálfur mjög hrifinn af norrænni húsgagnahönnun og ég held ég verði að segja að Alvar Aalto sé í uppáhaldi hjá mér. Mig langar til dæmis alveg svakalega í býkúpuljósið hans til að setja í holið mitt.“

Hillan er ákaflega falleg.
Hillan er ákaflega falleg. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Hér sést dýptin á hillunni.
Hér sést dýptin á hillunni. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál