Innblásin af eldri kynslóðum

Gréta Hlöðversdóttir og Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir.
Gréta Hlöðversdóttir og Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Íslenska barnafatamerkið As We Grow hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2016. Sérstaða barnafatanna er sú að sniðin eru hönnuð og útfærð þannig að þau vaxi með barninu. 

As We Grow er íslenskt barnafatamerki í eigu Guðrúnar Rögnu Sigurjónsdóttir prjónahönnuðar og Grétu Hlöðversdóttur, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Merkið var stofnað árið 2012 og hefur vaxið umtalsvert síðan og fást vörurnar nú í 50 sérvöldum verslunum, það eru 12 verslunum hér á landi, 15 verslunum í Japan og restin í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þann 6. október síðastliðinn hlaut fyrirtækið Hönnunarverðlaun Íslands 2016. Þá segir meðal annars í umsögn dómnefndar: „As We Grow byggir á ábyrgum umhverfissjónarmiðum og afstöðu gagnvart líftíma og endingu framleiðsluvöru á tímum ofgnóttar. Tímalaus einfaldleiki hönnunar og einstök gæði vöru hafa ásamt samfélagslegri ábyrgð og metnaðarfullri stefnu í umhverfismálum skapað fyrirtækinu sérstöðu heima og heiman.“

Aðspurðar segja Guðrún og Gréta verðlaunin hafa gríðarlega mikla þýðingu. „Bæði er þetta frábær viðurkenning fyrir okkur, en ekki síður gefur þetta okkur kærkomið tækifæri til þess að taka stökkið út í heim til frekari landvinninga. Þetta er ómetanleg kynning.“

Flíkur sem ganga á milli barna

Barnafatamerkið As We Grow varð til út frá þeirri íslensku hefð að handprjóna flíkur á börn. Hugmyndin að vörumerkinu kviknaði út frá peysu sem reykvísk móðir prjónaði fyrir elsta barnið sitt og ferðaðist á milli margra barna í 9 ár. Öll börnin í fjölskyldunni og margir vinir þeirra líka hafa notað þessa peysu, en hún varð uppáhaldsflík þeirra allra. „Okkur langar til þess að flíkurnar okkar geri slíkt hið sama; þær endist og geti gengið á milli barna og skapað skemmtileg tengsl manna á milli,“ útskýra þær Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir og Gréta Hlöðversdóttir.

Báðar hafa þær mikinn áhuga á hönnun. Guðrún nam textíl- og fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Hún segir útskriftarverkefni sitt mikið unnið í prjón og strax eftir útskrift fékk hún vinnu hjá fyrirtæki í Nottingham sem sérhæfir sig í að gera prjónaprufur fyrir fyrirtæki í fataiðnaði. „Þessi vinna var minn stærsti skóli fyrir utan náttúrlega þann mikla skóla sem stofnun As We Grow hefur verið,“ útskýrir Guðrún sem segir grunn sinn í fatahönnun liggja fyrst og fremst í uppeldinu.

Gréta er cand. jur. frá Háskóla Íslands og með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og með diplóma í viðskiptaspænsku frá IESE Business School í Barcelona. „Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á bæði hönnun og viðskiptum. Ég hef verið frumkvöðull í fjölmörgum verkefnum sem snúa að umbreytingum og samfélagsþróun. Stofnaði og leiddi Emblur, félag MBA-kvenna við HR, en félagið hefur að markmiði að efla stjórnarhætti og tilheyrir alþjóðlegu tengslaneti kvenna í stjórnum.“ Þá hefur hún leitt hönnunar- og menningartengd verkefni fyrir Hönnunarmiðstöð Íslands og staðið fyrir alþjóðlegum menningar- og kvikmyndaviðburðum tengdum hinum spænska menningarheimi á Íslandi.

Innblástur As We Grow er aðallega sóttur í samskipti við annað fólk og að sjálfsögðu börn og hvaða sögur þau hafa að segja. „Hvernig fólk tjáir sig með orðum, hlátri, kærleik og klæðaburði. Samskipti við fólk vekja hjá mér forvitni um ólíka menningu og skapandi hugsun. Ég elska að horfa og hlusta á fólk, þannig verð ég fyrir innblæstri. Gamlar íslenskar ljósmyndir veita líka innblástur,“ útskýrir Guðrún.

Einfaldleiki og gæði

Gréta segir að helstu sérkenni As We Grow séu tímalaus einfaldleiki hönnunar, einstök gæði vöru ásamt samfélagslegri ábyrð og metnaðarfullri stefnu í umhverfismálum.

„Barnafötin eru sniðin, hönnuð og útfærð þannig að þau vaxi með barninu, þannig að hver flík endist að minnsta kosti helmingi lengur hverju barni en venjulegar barnastærðir. Við byggjum vinnu okkar á því að bera virðingu fyrir umhverfinu og sjálfbærri nálgun á líftíma varanna. Þess vegna notum við hráefni í hæsta gæðaflokki eins og alpaca-ullina, pima-bómull og hör. Engin gerviefni.“ As We Grow er innblásið af eldri kynslóðum og blandar klassískum norrænum hugmyndum saman við þægindi samtímans. As We Grow er svokallað „slow fashion“-fyrirtæki og því ávallt meðvitað um umhverfið og samfélagið.

Fötin eru framleidd í Perú en Gréta og Guðrún segja landið þekkt fyrir góðan aðbúnað og kjör starfsfólks við framleiðslu, vandað garn og efni og vandaðan prjónafatnað. „Uppáhaldshráefnin okkar koma líka frá Perú, alpaca-ullin er einstaklega hitaeinangrandi, dregur ekki í sig raka og er lengi eins og ný. Pima-bómullin er endingarbesta bómull sem fáanleg er enda eru þræðirnir í henni lengri en í annarri bómull og hún fellur mjög fallega að líkamanum,“ segir Gréta.

Ólitað hráefni hefur minni skaðleg áhrif á umhverfið

As We Grow vinnur mikið með milda, náttúrulega liti. Aðspurð hver sé meginástæða þess, svarar Guðrún:

„Ástæðan fyrir því að við notum svona mikið náttúrulega liti er tvíþætt. Annarsvegar er það vegna þess að þeir eru fallegir og ganga við allt og hinsvegar er það vegna þess að ólitað hráefni hefur miklu minni skaðleg áhrif á umhverfið heldur en litað. Mjög oft þegar fólk er að velja lífrænt merktan fatnað þá er það eingöngu hráefnið fyrir litun sem er lífrænt og það er nóg til að vara fái stimpil sem slík. Í grófum dráttum er hálf línan okkar ólituð og hálf lituð. Litirnir sem við veljum síðan með náttúrulegu litunum koma oft úr einhverjum hugmyndum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina, oft úr fjölskyldualbúmum, ferðalögum eða náttúrulífsbókum. Ég er stanslaust að hugsa um litasamsetningar og get stundum ekki horft á mat án þess að velta fyrir mér hvernig litirnir fara saman.“

Þá segir Guðrún jafnframt skemmtilegast við að hanna barnaföt að velja hráefni og skissa. Aðspurð hvað sé þá helst krefjandi segir hún það geta verið erfitt að skila öllu inn til framleiðanda á réttum tíma. „Mann langar oft að vinna í línunni lengur en leyfilegt er og þá getur það orðið dálítið stress að klára alla upplýsinga- og tæknipakka sem þarf að skila til framleiðanda.“

Fullorðinsvörur og teppi

Fullorðinslína As We Grow , sem fyrirtækið hóf nýverið sölu á, samanstendur af flíkum úr alpaca-ull sem einkennist fyrst og fremst af því hversu mjúk hún er og nær að halda mjúku hitastigi á líkamanum. Lýsa má eiginleikum ullarinnar þannig að hún er einangrandi eins og gæsadúnn og mjúk eins og silki. Byrjað verður að kynna fullorðinslínuna í Japan á þessu ári.

„Við erum að leggja lokahönd á línuna fyrir næsta vetur og hún verður síðan kynnt á sýningum í janúar. Svo höfum við verið aðeins að prófa okkur áfram með fullorðinsvörur og ætlum að halda áfram að þróa þær og um jólin koma dásamleg sófateppi frá okkur úr dúnmjúku baby alpaca,“ svarar Gréta, aðspurð að lokum hvað sé í vændum hjá merkinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál