Sumarhús Rutar Káradóttur

Hér sést hvernig dökkblár og ljósari blár mætast.
Hér sést hvernig dökkblár og ljósari blár mætast. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Rut Káradóttir og eiginmaður hennar, Kristinn Arnarsson, byggðu sumarbústað í Hafnarskógi undir Hafnarfjalli. Bústaðurinn hefur vakið heimsathygli en á dögunum birtist umfjöllun um hann í þýska hönnunartímaritinu AD.  

Rut var búin að vera lengi að sverma fyrir þessu svæði en gerði þau mistök að horfa alltaf til sjávar, ekki inn í landið.

„Halla Bára Gestsdóttir vinkona mín sagði við mig að ég ætti ekki að horfa niður að sjó í þessari leit minni heldur inn í landið. Þegar ég loksins gerði það fann ég það sem ég var að leita að. Til að byrja með lét ég mig dreyma og var alltaf að vinna í manninum mínum að reyna að fá hann inn á þetta. Svo gerist það bara upp úr þurru, þegar við vorum á ferðalagi fram hjá Hafnarfjalli og ég í framsætinu að gúffa í mig sælgæti,  „hér væri ég til í að eiga bústað“. Mér brá svo að það lá við að sælgætið hrykki ofan í mig við þessar fréttir. Ég kom varla upp orði,“ segir Rut og hlær.

Næstu tvö árin fóru í það að keyra um landið og skoða hentuga lóð en einhvern veginn enduðu hjónin alltaf á þessu svæði.

„Það er mjög hvasst undir Hafnarfjalli en við fengum að draga bústaðinn nær sjónum þannig að hann er svona undir hálfgerðu barri. Þannig að það er ekki eins hvasst þar,“ segir hún.

Þegar hjónin voru búin að koma sér saman um að byggja bústað á þessum stað höfðu þau samband við Gluggagerðina sem smíðaði húsið fyrir þau eftir gamalli fyrirmynd. Rut sá þó um að hanna skipulagið að innan.

„Húsin eru gerð eins og þau voru gerð í gamla daga sem gerir þau svo sjarmerandi,“ segir hún.

Það vekur athygli að innandyra er blái liturinn ríkjandi. Þegar ég spyr Rut út í þetta segist hún elska fallega liti og þar sem bláa litinn er ekki að finna á heimlinu ákvað hún að leyfa honum að njóta sín í bústaðnum.

„Ég er alltaf að boða fagnaðarerindið og segja fólki að nota liti. Þegar ég segi þetta heldur fólk að ég sé að tala um skæra tóna en það er alls ekki svo. Af því húsið er niðri við sjó langaði mig að nota bláa litinn. Ég er ekki með neitt blátt heima hjá mér og mér finnst að sumarbústaðir eigi alltaf að vera öðruvísi en heimilið sjálft. Þess vegna langaði mig að nota þennan lit. Þá fannst mér svo fallegt að blanda saman bláum tónum við brún og ljós húsgögn. Ég átti töluvert af gömlum húsgögnum sem ég vildi nota í húsið og þá fannst mér þessir litir svo fallegir saman,“ segir Rut.

Í húsinu er gamall Chesterfield-leðursófi og undir glugganum er bekkur sem nær yfir allan vegginn sem er sérsmíðaður. Það er því tilvalið að tylla sér við gluggann og horfa út í náttúruna. Bekkurinn er líka praktískur því í honum eru hirslur.

„Mér fannst þetta „matsa“ svo vel saman við furugólfið sem maðurinn minn lútaði,“ segir hún.

Er hann svona handlaginn?

„Nei nei, en hann getur bjargað sér í neyð,“ segir hún og hlær.

Þegar ég spyr Rut út í innréttingarnar segir hún að það sé lítið af innréttingunum í húsinu. Það sé í raun bara innrétting inni í eldhúsi og innrétting inni á baði. Innréttingarnar eru sérsmíðaðar hjá Smíðaþjónustunni og eru með gamaldags hurðum. Inni á baðherbergi eru litríkar flísar á gólfinu og einlitar á veggjunum. Rut segir að gólfflísarnar séu frábærar.

„Það þarf aldrei að skúra þær,“ segir hún í gríni.

Frá því húsið var byggt og innréttað hefur Rut fengið góð viðbrögð en þau leigja húsið út til ferðamanna. Ásóknin hefur verið svo mikil að hún þarf að gæta þess að hún komist einhvern tímann þangað sjálf.

Blái liturinn fær að njóta sín í húsinu.
Blái liturinn fær að njóta sín í húsinu. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Stólarnir og borðið koma úr Heimili og hugmyndum.
Stólarnir og borðið koma úr Heimili og hugmyndum. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Rut elskar svalirnar á efri hæðinni.
Rut elskar svalirnar á efri hæðinni. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Rut er búin að safna diskunum á veggnum en þeir …
Rut er búin að safna diskunum á veggnum en þeir passa ákaflega vel saman. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Bústaðurinn er nálægt fjörunni.
Bústaðurinn er nálægt fjörunni. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
Verkið á skenknum er eftir Christine Gísladóttur myndlistarmann.
Verkið á skenknum er eftir Christine Gísladóttur myndlistarmann. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál